Árangur Bréf til bjargar lífi 2018

Árangur hefur náðst í tveimur málum herferðar okkar Bréf til bjargar lífi 2018. Annars vegar hafa orðið framfarir í máli frá Brasilíu og hins vegar í máli frá Úkraínu.

Framfaraskref í rannsókn á morði Marielle Franco

Lögreglan í Brasilíu hefur handtekið tvo karlmenn í Ríó De Janeiro fyrir morðið á mannréttindafrömuðinum Marielle Franco og bílstjóra hennar Anderson Gomes þann 14. mars 2018.

„Nú er liðið um ár síðan Marielle Franco var myrt í grimmilegri árás sem hafði alvarleg áhrif á þau samfélög sem hún barðist fyrir. Morðið á Marielle var augljóst tilræði til að þagga niður í hugrakkri baráttukonu fyrir mannréttindum sem hafði helgað líf sitt baráttu fyrir málstað kvenna, hinsegin fólks og ungs svarts fólks í fátækrahverfum Ríó,“ segir Erika Guevara-Rosas framkvæmdastjóri Amnesty International Ameríkusvæðisins.

„Handtökurnar eru fyrstu framfarirnar í rannsókn sem hefur lítið þokat áfram á síðastliðnu ári frá því morðið átti sér stað. Við köllum eftir því að brasilísk yfirvöld tryggi að rannsóknin sé óháð og hlutlaus og að hinir ábyrgu, einnig þeir sem fyrirskipuðu morðið, verði dregnir fyrir dóm í sanngjörnum réttarhöldum. Besta leiðin til að heiðra minningu Marielle Franco er að sjá til þess að mannréttindafrömuðir fái vernd sem tryggir öryggi þeirra til að geta haldið áfram mikilvægu starfi sínu,“ segir Erika Guevara-Rosas að lokum.

Brasilía er eitt hættulegasta landið í heiminum fyrir baráttufólk fyrir mannréttindum. Brasilísk yfirvöld hafa ekki verið að standa sig í að rannsaka morð á mannréttindafrömuðum sem lögreglan er flækt í. Hundruð þúsunda einstaklinga kölluðu eftir réttlæti fyrir Marielle í herferð Amnesty International, Bréf til bjargar lífi 2018. Hér á landi söfnuðust yfir 5000 undirskriftir í hennar máli ásamt tugum stuðningskveðja til fjölskyldu hennar.

Marielle Franco – Brasiilía

Lögreglan verndar fjöldafund kvenna í Úkraínu

Vitalina Koval, ein af baráttukonum fyrir mannréttindum í herferð okkar Bréf til bjargar lífi, skipulagði fjöldafund kvenna í Uzhgorod í vesturhluta Úkraínu sem haldinn var án vandkvæða þann 8. mars síðastliðinn á alþjóðadegi kvenna.

Lögreglan veitti vernd á fundinum sem var mikilvægt því árið 2017 og 2018 var Vitalina skotmark hóps hægri-öfgasinna á samskonar fjöldafundi án verndar lögreglu. Vitalina Koval bíður enn réttlætis fyrir árás sem hún varð fyrir 2018 þegar sex aðilar köstuðu málningu að henni sem olli efnabruna í augum. Hægri-öfgahópur var á staðnum og hafði haft hátt um að ætlunin væri að valda usla á fjöldafundinum.

Þökk sé víðtækum þrýstingi innanlands sem og utan, þar á meðal herferð Amnesty International Bréf til bjargar lífi 2018, var gripið til viðeigandi aðgerða til að tryggja öryggi á fundinum í ár.

Vitalina Koval – Úkraína