Nú styttist óðum í Bréfamaraþon Amnesty International sem haldið er ár hvert í kringum 10. desember á alþjóðlegum mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna.
Nú styttist óðum í Bréfamaraþon Amnesty International sem haldið er ár hvert í kringum 10. desember á alþjóðlegum mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna. Þá koma hundruð þúsunda saman um heim allan og krefja stjórnvöld um úrbætur í mannréttindamálum með bréfaskrifum, tölvupóstum og undirskriftum.
Á undanförnum árum hefur stór fjöldi Íslendinga látið sig mannréttindabrot varða með þátttöku sinni á Bréfamaraþoni samtakanna. Sá samtakamáttur sem myndast hefur hér á landi í baráttunni fyrir þolendur grófra mannréttindabrota er einstakur og þakkaði Moses Akatugba frá Nígeríu Íslendingum sérstaklega fyrir að hafa stutt sig í baráttunni þegar hann heimsótti landið á dögunum. Mál hans var tekið upp á Bréfamaraþoni Amnesty árið 2014 en Moses sætti pyndingum og tíu ára fangavist í heimalandi sínu, þar af sat hann tvö ár á dauðadeild. Moses var náðaður í kjölfar Bréfamaraþonsins í maí 2015.
Fleiri þurfa nú á aðstoð ykkar og baráttukrafti að halda. Í ár berjumst við fyrir réttlæti ellefu einstaklinga sem allir hafa sætt margvíslegum mannréttindabrotum. Við hvetjum ykkur til að leggja okkur lið í baráttunni í ár til að fleiri einstaklingar eins og Moses fái notið frelsis og mannlegrar reisnar.
Mættu til okkar á skrifstofu Íslandsdeildar Amnesty International, næstkomandi laugardag, þann 10. desember frá kl. 13:00 til 17:00 og skrifaðu undir bréf til stjórnvalda sem brjóta á mannréttindum og/eða sendu stuðningskveðjur til þolenda brotanna. Stuðningskveðjurnar eru ekki síður mikilvægar því þær halda gjarnan lífi í þolendum mannréttindabrota, efla styrk og veita þeim von um lausn sinna mála. Á laugardaginn verður hægt að skrifa stuðningskveðjur til allra þeirra ellefu einstaklinga sem barist er fyrir í ár en einnig verður unnt að skrifa kveðjur til flóttamanna sem búa við ömurlegar aðstæður í flóttamannabúðum á Grikklandi, komast hvorki lönd né strönd og hafa misst alla von um betra líf.
Njóttu með okkur notalegrar aðventustundar, boðið verður upp á kaffi og kruðeríi og stórsöngvarinn Gunnar Þórðarson tekur nokkrar hugljúfar dægurperlur.
Vinsamlegast staðfestið þátttöku ykkar hérna svo við getum áætlað fjölda.
