Ársskýrsla Amnesty International 2004

Í ársskýrslu Amnesty International er greint frá

mannréttindabrotum í

155 löndum

Í dag, 26. maí, er ársskýrsla Amnesty International birt. Í skýrslunni er að finna ítarlegt yfirlit um ástand mannréttinda í heiminum í dag og úttekt á störfum samtakanna í þágu mannréttinda og fórnarlamba mannréttindabrota. Skýrslan skýrir frá ástandi mannréttinda í 155 löndum og í henni er einnig að finna greiningu á þróun mannréttinda í heiminum á síðasta ári.

Tortryggni, ótti og sundrung

Árásir á mannréttindakerfið hafa leitt til tortryggni, ótta og sundrungar. Skelfilegar og glæpsamlegar árásir hópa, eins og Al Kaíta, eru raunveruleg ógn við öryggi fólks um allan heim. Amnesty International fordæmir allar slíkar árásir, eins og sprengjuárásinar 11. mars s.l. í Madrid og árásina 19. ágúst 2003 á Sameinuðu þjóðabygginguna í Írak, þar sem yfirmaður mannréttinda hjá Sameinuðu þjóðunum Sergio Viera de Mello lést ásamt mörgum samstarfsmönnum. Slíkar árásir á almenna borgara og þær stofnanir sem settar hafa verið á laggirnar til að koma fram með lausnir og stuðla að vernd – eins og Sameinuðu þjóðirnar og Rauði krossinn – eru alvarleg ógn við réttindi og þær stofnanir sem eiga að tryggja þau.

Það veldur einnig ótta að grafið hefur verið undan þeim grundvallarviðmiðum sem sett eru fram í alþjóðalögum. Áhrifamiklar ríkisstjórnir hafa komið í veg fyrir að hægt sé að beita aðgerðum sem gætu verndað fólk gegn árásum.

Ríkisstjórnir hafa misst sjónar á siðferðilegum skyldum sínum og fórna þeim grundvallargildum sem sett eru fram í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna í blindri sókn sinni eftir “öryggi”. Þessi blinda þjóðarleiðtoga veitir vopnuðum hópum hættulegan stuðning.

Hin alþjóðlega öryggisárátta, sem stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa haft forgöngu um, skortir alla framtíðarsýn og byggir ekki á grundvallargildum. Brotið er á mannréttindum heima fyrir og horft fram hjá brotum erlendis á sama tíma og vopnavaldi er beitt við margskonar aðstæður. Bæði réttlæti og frelsi hafa skaðast og heimurinn er orðinn hættulegri fyrir vikið.

Í ársskýrslu Amnesty International er greint frá ólögmætum drápum hernámsliðsins og vopnaðra hópa í Írak. Pyndingar og slæm meðferð undirstrikar varnarleysi hundruða fanga, ekki bara í Írak heldur einnig í Guantánamo búðunum á Kúbu, í Afganistan og fleiri stöðum, fanga sem haldið er af Bandaríkjunum og stuðningsmönnum þeirra án ákæru, réttarhalda, aðgangi að lögfræðiaðstoð og án þess að njóta þeirrar verndar sem kveðið er á um í Genfarsáttmálunum.

Með því að bregðast og vernda ekki réttindi grunaðra, setja ríkisstjórnir réttindi allra í hættu.

“Stríðið gegn hryðjuverkum” og stríðið í Írak, hafa hrundið af stað nýrri hrinu mannréttindabrota. Innanlandsátök í Tétsníu, Kólumbíu, Súdan, Nepal og Lýðveldinu Kongó eru hulin augum heimsins, en þar hafa skelfileg grimmdarverk verið framin. Ofbeldið í Ísrael og á herteknu svæðunum verður æ alvarlegra, á sama tíma og margar ríkisstjórnir stefna að æ meiri kúgun.

Ríkisstjórnir voru helteknar af ógn gereyðingarvopna í Írak, en horfðu fram hjá hinum raunverulegu gereyðingarvopnum sem ógna öryggi allra; óréttlæti og refsileysi, mismunun og rasisma, óheftri verslun með vopn, ofbeldi gegn konum og misnotkun barna.

Ríkisstjórnir verða að hlusta á þær milljónir manna um allan heim sem krefjast réttlætis. Mannréttindahreyfingin býður framtíðarsýn byggða á mannréttindum. Sú sýn vísar okkur veginn til réttlætis og friðar.

Mannréttindi skipta máli

Í formála Irene Khan aðalframkvæmdastjóra Amnesty International er sjónum beint að þeim árásum á mannréttindi sem einkenndu síðasta ár, bæði frá vopnuðum hópum og ríkisstjórnum. Ríkisstjórnir og vopnaðir hópar hafa hafið stríð gegn grundvallargildum, stríð sem grefur undan mannréttindum. Ofbeldi vopnaðra hópa og aukin mannréttindabrot ríkisstjórna hafa leitt til alvarlegustu árása á mannréttindi og alþjóðleg mannúðarlög sem heimurinn hefur séð síðustu 50 ár. Þær ógnir sem steðja að mannréttindum hafa kynt undir tortryggni, ótta og sundrungu. Í ávarpi sínu leggur Irene áherslu á nauðsyn þess að berjast fyrir alþjóðlegu réttlæti.

Heimsvæðing réttlætisins

Í skýrslunni er greint frá alþjóðlegri áætlun um mannréttindi sem Amnesty International setti fram á árinu 2003. Áætlunin og greining á ástandinu er sett fram í einum kafla skýrslunnar.

Verjast árásum á mannréttindi í “stríðinu gegn hryðjuverkum”

Verja mannréttindi í stríðsátökum

Verja réttindi mannréttindafrömuða

Endurbæta og styrkja réttarkerfið

Vinna að afnámi dauðarefsinga

Vinna að framgangi efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda

Stöðva ofbeldi gegn konum

Verja réttindi flóttafólks og farandverkafólk

Ástand í einstökum löndum og heimsálfum

Meginhluti skýrslunnar samanstendur af yfirliti yfir þau mannréttindabrot sem Amnesty International skráði á árinu 2003. Gerð er grein fyrir brotum í 155 löndum og ástandi og þróun mannréttinda í öllum heimsálfum.

Afríka

Mannréttindaástandið í Afríku einkenndist fyrst og fremst af vopnuðum átökum víða í álfunni, kúgun á pólitískum andstæðingum, ofsóknum á hendur mannréttindafrömuðum, ofbeldi gegn konum og takmörkuðum aðgangi að réttlæti fyrir jaðarhópa. Ólögleg sala á vopnum og auðlindum, útbreytt refsileysi vegna mannréttindabrota fyrr og nú og margskonar vanræksla ríkisstjórna í álfunni hafa

leitt til þess að réttindi fólks eru víðast ekki virt. Skortur á virðingu fyrir mannréttindum kemur hvað verst niður á varnarlausustu hópunum, konum, börnum, flóttafólki og öðrum sem hafa flosnað upp frá heimilum sínum, fólki sem þjáist af eyðni, hinum fátæku og þeim sem ekki hafa fengið neina formlega menntun.

Ameríka

Mannréttindum var áfram fórnað í álfunni í nafni “öryggis”. Flestar ríkisstjórnir álfunnar túlkuðu hugtakið “öryggi” mjög þröngt og brugðust í því að takast á við helstu ógnir sem steðja að öryggi fólks, eins og hungri, fátækt, sjúkdómum og hnignun umhverfisins.

Asía og Eyjaálfa

Pólitísk umræða einkenndist af umræðu um þjóðaröryggi, nokkrar ríkisstjórnir nýttu sér “stríðið gegn hryðjuverkum” til að skerða mannréttindi. Fátækt og mismunun einkenndi líf milljóna í álfunni, og kom harðast niður á konum annars vegar og frumbyggjum hins vegar. Skortur á mannréttindavernd einkennir ástandið í álfunni og í sumum löndum jukust mannréttindabrot vegna vopnaðra átaka.

Evrópa og Mið-Asía

Ríkisstjórnir um alla Evrópu og Mið-Asíu héldu áfram að grafa undan mannréttindum í nafni öryggis og “stríðsins gegn hryðjuverkum”. Meðal aðgerða yfirvalda sem fólu í sér hnignum mannréttindaverndar voru lagasetningar gegn “hryðjuverkum”, árásir á réttindi flóttafólks og hömlur á félaga-og tjáningarfrelsi. Grunnfærnisleg orðræða um öryggismál, innflytjendamál og hælisleitendur ásamt auknu lýðskrumi ýtti undir rasisma og mismunun í garð minnihlutahópa. Skortur á pólitískum vilja innan Evrópusambandsins til að takast á við mannréttindabrot innan sambandsins var aukið áhyggjuefni.

Mið-Austurlönd og Norður Afríka

Stríðið í Írak og vopnuð átök í Ísrael og á herteknu svæðunum og í Alsír kostuðu þúsundir manna lífið. Í þessum og öðrum löndum á svæðinu, þ.á.m. í Marokkó og Sádí Arabíu jukust árásir vopnaðra hópa gegn almenningi svo og á hernaðarleg og önnur skotmörk. Þrátt fyrir margvísleg loforð stjórnvalda um endurbætur viðgengust áfram alvarleg mannréttindabrot. Skortur á mannréttindavernd í lögum viðheldur vanvirðingu fyrir mannréttindum, þ.á.m. handahófskenndum handtökum, langtíma einangrunarvist, pyndingum og slæmri meðferð, og aftökum í kjölfar óréttlátra réttarhalda.