Ársskýrsla Amnesty International 2011 segir frá mannréttindabrotum í 157 ríkjum.
Staða mannréttinda í heiminum árið 2011
Ársskýrsla Amnesty International 2011 segir frá mannréttindabrotum í 157 ríkjum. Samtökin tóku upp mál í 89 löndum sem lutu að hömlum á tjáningarfrelsi. Í skýrslunni er greint frá vinnu samtakanna í þágu samviskufanga í 48 löndum, upplýsingar um pyndingar og aðra illa meðferð í 98 löndum og í skýrslunni er að finna frásagnir af óréttlátum réttarhöldum í 54 löndum.
Vaxandi kröfur almennings um frelsi og réttlæti í Mið-Austurlöndum og Norður- Afríku og aukin útbreiðsla og notkun samskiptavefja fela í sér sögulegt tækifæri til jákvæðra breytinga í þágu mannréttinda.
Fimmtíu ár eru liðin frá stofnun Amnesty International. Í fimmtíu ár hefur kertaloginn varpað ljósi á kúgun um allan heim. Í dag fylgjumst við með því hvernig fólk snýr baki við óttanum og segir hug sinn andspænis byssukúlum, barsmíðum, táragasi og skriðdrekum. Þetta hugrekki, ásamt nýrri tækni sem hjálpar baráttufólki að fletta ofan af brotum ríkisstjórna, sem fótumtroða tjáningarfrelsið og réttinn til að mótmæla friðsamlega, er skýrt merki um að ríkisstjórnir sem kúga almenning eru ekki lengur liðnar.
Einræðisherrar hafa brugðist harkalega við mótmælum og alþjóðasamfélagið verður að grípa tækifærið og tryggja að sá vonarneisti sem fólk hefur um mannréttindaumbætur verði ekki kæfður.
Ríkisstjórnir reyna að stjórna aðgangi að upplýsingum og notkun mótmælenda á nýjum samskiptamiðlum og miklu máli skiptir að fyrirtæki sem veita netþjónustu auðveldi ekki ógnarstjórnum að hefta aðgang almennings að netinu.
Mótmælin sem hafa breiðst út um Mið-Austurlönd og Norður-Afríku, þar sem kröfur fólks eru að endi verði bundinn á kúgun og spillingu, endurspegla löngun til að öðlast frelsi frá ótta og skorti. Hinir raddlausu hafa fengið rödd.
Í Túnis og Egyptalandi var þaulsetnum einræðisherrum komið frá og óánægjuraddir heyrast frá Aserbaídsjan til Simbabve.
Þrátt fyrir hugrekki fólks til að standa gegn ofríki og þrátt fyrir það að mannréttindabaráttan hafi fengið ný tækifæri í gegnum samskiptavefi og nýja tækni er tjáningarfrelsinu ógnað um allan heim.
Ríkisstjórnir í Líbíu, Sýrlandi, Barein og Jemen hafa sýnt að þær skirrast ekki við að berja, limlesta og drepa friðsama mótmælendur til að halda völdum.
Jafnvel í löndum, þar sem einræðisherrar hafa verið hraktir frá, á enn eftir að leggja niður þær stofnanir sem stóðu að baki þeim. Baráttunni er því ekki lokið.
Ríkisstjórnir sem hafa haldið borgurum í skefjum með mannréttindabrotum og ógn eins og í Aserbaídsjan, Kína og Íran gera allt sem í þeirra valdi stendur til að kæfa öll mótmæli.
Meðal stórviðburða á árinu var lausn Aung San Suu Kyi úr áralöngu stofufangelsi í Mjanmar. Veiting friðarverðlauna Nóbels til kínverska andófsmannsins Liu Xiaobo vakti heimsathygli þrátt fyrir tilraunir kínverskra yfirvalda til að koma í veg fyrir verðlaunahendinguna.
Í löndum á borð við Afganistan, Angólu, Brasilíu, Kína, Mexíkó, Rússland, Taíland, Tyrkland, Úsbekistan, Víetnam og Simbabve var baráttufólki fyrir mannréttindum ógnað, hótað, það pyndað og sumt myrt. Þessir atburðir eru ekki á forsíðum blaða heimsins.
Þetta baráttufólk fyrir mannréttindum tekst á við margskonar óréttlæti. Það berst gegn fátækt og útskúfun, ver réttindi kvenna, berst gegn spillingu, ofbeldi og kúgun.
Amnesty International var stofnað fyrir 50 árum til að verja réttindi fólks sem sat í fangelsi vegna skoðana sinna. Nú öllum þessum árum síðar, sjáum við að í raun hefur mannréttindabylting átt sér stað. Kröfur fólks um réttlæti, frelsi og virðingu heyrast í dag frá öllum heimshornum og þessar raddir verða ekki kæfðar.
Ársskýrslan
