Dauðarefsingin 2014: ógnvænleg aukning á dauðadómum – ríkisstjórnir ákváðu víða að grípa til dauðarefsingarinnar til að berjast gegn glæpum og hryðjuverkum.
Dauðarefsingin 2014: ógnvænleg aukning á dauðadómum – ríkisstjórnir ákváðu víða að grípa til dauðarefsingarinnar til að berjast gegn glæpum og hryðjuverkum.
Ríki beittu dauðarefsingunni í misheppnaðri tilraun til að takast á við glæpi, hryðjuverkastarfssemi og innri óstöðugleika.
Aukning varð á dauðadómum, sérstaklega í Egyptalandi og Nígeríu- að minnsta kosti 2.466 dauðadómar féllu á heimsvísu í 55 löndum sem er 28 prósenta aukning frá árinu 2013.
Ef Kína er undanskilið voru 607 aftökur skráðar á árinu 2014, sem er 22 prósent minna en árið 2013 (Kína tekur fleiri af lífi en öll önnur lönd samanlagt).
Tuttugu og tvö lönd beittu dauðarefsingunni árið 2014 sem er sami fjöldi ríkja og árinu áður.
Í ársskýrslu Amnesty International árið 2014 um dauðarefsinguna kemur fram að ískyggilegur fjöldi ríkja beittu dauðarefsingunni í vonlausri tilraun til að takast á við raunverulega eða ímyndaða öryggisógn af hryðjuverkum, glæpum eða innri óstöðugleika.
Alls voru 500 fleiri dauðadómar felldir á árinu 2014 en 2013 og skýrist sú aukning aðallega af dauðadómum sem felldir voru samtímis yfir fjölda manns bæði í Egyptalandi og Nígeríu. Pólitískur óstöðugleiki og innri átök hafa verið einkennandi fyrir bæði löndin undanfarin misseri.
„Ríkisstjórnir sem beita dauðarefsingunni til að sporna við glæpum lifa í blekkingu. Engar sannanir benda til þess að dauðarefsing fyrirbyggi frekar glæpi en aðrar tegundir refsinga,“ sagði Salil Shetty framkvæmdastjóri Amnesty International. „Sú skuggalega þróun að ríkisstjórnir beita dauðarefsingunni í vonlausri tilraun til að takast á við raunverulega eða ímyndaða öryggisógn var hrópleg á síðasta ári. Það er svívirðilegt að svo mörg ríki um heim allan leiki sér að lífi fólks – taki fólk af lífi fyrir „hryðjuverk” eða til að bæla niður innri óstöðugleika út frá þeirri vanhugsuðu forsendu að um fyrirbyggjandi aðgerð sé að ræða.”
Þó að þróunin sé slæm ber árið 2014 einnig með sér góðar fréttir – færri aftökur áttu sér stað á heimsvísu miðað við árið á undan og nokkur ríki tóku jákvæð skref í átt að afnámi dauðarefsingarinnar. Þá greiddu 117 lönd – fleiri en nokkru sinni áður – atkvæði með ályktun Sameinuðu þjóðanna um að binda endi á dauðarefsinguna.
Ríki sem beittu flestum aftökum
Enn og aftur beitti Kína fleiri aftökum en allur heimurinn samanlagt. Amnesty International telur að þúsundir séu dæmdir til dauða og teknir af lífi á hverju ári í Kína en þar sem tölur um aftökufjölda er ríkisleyndarmál er ómögulegt að segja hver raunverulegur fjöldi er.
Í Íran var dauðarefsingunni beitt 289 sinnum samkvæmt opinberum tölum þar í landi en Amnesty International telur að minnsta kosti 454 fleiri hafi verið teknir af lífi af yfirvöldum. Sádí-Arabía beitti dauðarefsingunni að minnsta kosti 90 sinnum, Írak að minnsta kosti 61 sinni og Bandaríkin 35 sinnum. Þessi lönd tróna því enn í efstu sætunum yfir lönd sem beita flestum aftökum í heiminum.
Að Kína undanskildu er vitað að minnsta kosti 607 aftökur áttu sér stað árið 2014 í 22 ríkjum samanborið við 778 aftökur árið 2013 í jafn mörgum ríkjum. Það er meira en 20 prósent fækkun á aftökum á milli ára.
Þetta er einnig þýðingarmikil fækkun á aftökum frá því sem var fyrir tuttugu árum eða árið 1995 þegar Amnesty International skráði aftökur í 41 landi og sýnir skýrt þá alþjóðlegu þróun sem á sér stað í átt að afnámi dauðarefsingarinnar. Árið 1977 þegar Amnesty International hóf herferð sína gegn dauðarefsingunni höfðu aðeins 16 ríki lagt bann við henni gegn öllum glæpum. Í dag hafa 140 ríki lagt bann við dauðarefsingunni í lögum eða framkvæmd.
„Tölurnar tala sínu máli – dauðarefsingin mun brátt heyra fortíðinni til. Þau fáu ríki sem enn beita dauðarefsingunni verða að líta í eigin rann og spyrja hvort þau vilji halda áfram að brjóta á réttinum til lífs eða fylkja liði með miklum meirihluta ríkja sem hefur horfið frá þessarri endanlegu illu, ómannlegu og vanvirðandi meðferð,“ segir Salil Shetty.
Öryggi ríkisins
Sú óhugnanlega þróun að beita dauðarefsingunni til að berjast gegn mögulegri ógn við öryggi ríkisins var greinileg víða um heim en ríki eins og Kína, Pakistan, Íran og Írak tóku öll fólk af lífi sem ásakað var um hryðjuverk.
Pakistan aflétti banni við dauðarefsingum í kjölfar árásar Talibana á skóla í Peshawar sem kostaði 132 börn og níu kennara lífið þann 17. desember 2014. Sjö manns voru tekin af lífi í desember en stjórnvöld í Pakistan hafa lýst því yfir að hundruð annarra sem gerst hafa sek um hryðjuverkastarfsemi muni einnig sæta aftökum. Allt síðan banni við dauðarefsingunni var aflétt hefur fjöldi aftaka aukist jafnt og þétt. Kínversk stjórnvöld hafa beitt dauðarefsingunni í hegningarskyni í herferð sinni gegn ófriði á sjálfstjórnarsvæðinu Xinjiang Uighur. Stjórnvöld tóku að minnsta kosti 21 af lífi árið 2014 og þrír til viðbótar voru dæmdir til dauða á fjöldafundi sem fram fór á íþróttaleikvangi frammi fyrir þúsundum áhorfenda.
„Þegar samviska heimsins er brennimerkt af viðurstyggilegum fjöldaaftökum vopnaðra hópa hlýtur það að teljast ógeðfellt þegar ríkisstjórnir grípa sjálfar til þess ráðs að beita fleiri aftökum til varnar hryðjuverkum og glæpum,“ segir Salil Shetty.
Í löndum eins og Norður Kóreu, Íran og Sádí-Arabíu héldu stjórnvöld áfram að beita dauðarefsingunni sem tæki til að bæla niður pólitíska andstöðu.
Önnur ríki beittu aftökum með sambærilegum hætti í misheppnaðri tilraun til takast á við háa glæpatíðni í eigin landi. Jórdanía batt enda á átta ára aftökustopp í desember og tók átta dæmda menn af lífi í sama mánuði. Stjórnvöld kváðu þetta nauðsynlegt skref til að binda endi á bylgju ofbeldisglæpa í landinu. Í Indónesíu tilkynntu stjórnvöld að fíkniefnasalar yrðu teknir af lífi í þeim tilgangi að tryggja öryggi borgaranna, loforð sem stjórnvöld stóðu við árið 2015.
Ógnvænleg aukning á dauðadómum
Átakanleg aukning var á dauðadómum sem felldir voru árið 2014 samanborið við árið á undan – að minnsta kosti 2.466 dauðadómar voru felldir árið 2014 en 1.925 árið 2013 sem er rúmlega fjórðungs aukning á milli ára. Þessi aukning skýrist aðallega af þróun mála í Nígeríu og Egyptalandi þar sem hundruð einstaklinga voru dæmdir til dauða.
Í Nígeríu voru 659 dauðadómar skráðir árið 2014 samanborið við 141 dauðadóm árið 2013. Herdómstólar kváðu upp dóm um fjöldaaftökur yfir 70 hermönnum á árinu 2014 í aðskildum réttarhöldum. Þeir voru dæmdir fyrir að gera uppreisn vegna vopnaðra átaka við Boko Haram.
Dómstólar í Egyptalandi dæmdu að minnsta kosti 509 til dauða árið 2014 sem er 400 sinnum meira en fjöldi skráðra dauðadóma árinu áður.
Fjöldi dauðadóma í einu dómsmáli voru felldir í apríl 2014 þegar 37 dæmdir til dauða og í júní þegar 183 einstaklingar hlutu dauðadóm í kjölfar óréttlátra réttarhalda.
Aðferðir og glæpir
Meðal aftökuaðferða sem beitt var árið 2014 voru hálshöggning, henging og banvæn sprauta. Opinberar aftökur áttu sér stað í Íran og Sádí–Arabíu. Margir voru látnir sæta dauðarefsingu fyrir aðra glæpi en morð, samanber rán, fíkniefnatengda glæpi og efnahagsbrot. Fólk var jafnvel dæmt til dauða fyrir „hjúskaparbrot”, „guðlast” eða „galdra” sem ekki ætti að teljast til glæpa. Mörg lönd notuðu óljós hugtök eins og „pólitískir glæpir” til að koma sök á raunverulega eða ímyndaða andstæðinga ríkisins og dæma þá til dauða.
Landsvæði
Ameríka
Bandaríkin voru eina landið á svæðinu sem hélt áfram að taka fólk af lífi enda þótt aftökum hafi fækkað frá 39 á árinu 2013 í 35 árið 2014 en það endurspeglar þróunina undangengin ár þar sem dauðarefsingunni er beitt í sífellt minna mæli. Aðeins sjö ríki Bandaríkjanna beittu aftökunni árið 2014, þ.e. Texas, Missouri, Flórída og Oklahoma. Árið 2013 voru ríkin sjö sem beittu dauðarefsingunni. Washington kom á aftökustoppi í febrúar 2015.
Dauðadómum fækkaði einnig og fóru úr 95 árið 2013 í 77 ári síðar.
Asía
Þróun dauðarefsingarinnar í Asíu var mjög mismunandi. Dauðarefsingunni var beitt í níu löndum, einu færra en árið 2013, en Pakistan aflétti banni við dauðarefsingunni. Skráðar aftökur voru 32 í álfunni en Kína og Norður-Kórea eru undanskilin þeirri skráningu þar sem ógjörningur er að staðfesta tölur þaðan. Stjórnvöld í Indónesíu gáfu út yfirlýsingu um að dauðarefsingunni yrði beitt að nýju, aðallega gegn eiturlyfjasmyglurum.
Kyrrahafslöndin héldu áfram að vera eina landssvæðið í heiminum þar sem dauðarefsingunni er hvergi beitt, enda þótt stjórnvöld í Papúa Nýja-Gíneu og Kiribatí hafi tekið skref í átt að upptöku dauðarefsingarinnar eða endurupptöku.
Afríka sunnan Sahara
Í Afríku sunnan Sahara átti sér stað mikil framþróun árið 2014. Samanborið við árið 2013 þegar 64 aftökur áttu sér stað í fimm löndum fóru 46 aftökur fram í þremur löndum árið 2014. Er því um 28 prósenta fækkun. Miðbaugs-Gínea, Sómalía og Súdan eru einu löndin í Afríku sunnan Sahara sem vitað er að beittu dauðarefsingunni árið 2014.
Madagaskar tók skref í átt að afnámi dauðarefsingarinnar þegar þingið samþykkti lagafrumvarp um afnám hennar þann 10. desember en forseti landsins á enn eftir að skrifa undir frumvarpið svo það verði að lögum.
Evrópa og Mið-Asía
Hvíta-Rússland er eina landið á svæðinu sem enn tekur fólk af lífi en þar tóku stjórnvöld að minnsta kosti þrjá af lífi árið 2014 og bundu þannig endi á 24 mánaða aftökubið. Aftökurnar fóru fram með leynd og bæði fjölskyldur fórnarlambanna og lögfræðingar þeirra voru ekki upplýst um aftökurnar fyrr en að þeim loknum.
Mið-Austurlönd og Norður-Afríka
Það er mikið áhyggjuefni að beiting dauðarefsingarinnar í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku er enn útbreidd. Mikill meirihluti þeirra dauðarefsinga sem beitt var á svæðinu, eða 90 prósent, átti sér stað í Íran, Írak og Sádí-Arabíu og á heimsvísu náðu dauðarefsingar í þessum löndum yfir 72 prósent allra dauðarefsinga sem beitt var árið 2014 (að Kína undanskildu). Átta lönd beittu dauðarefsingunni í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku árið 2014, tveimur fleiri en árið 2013. Sextán ríki felldu dauðadóma sem er mikill meirihluti ríkja á svæðinu.
Heildarfjöldi aftaka sem skráðar voru í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku var þó minni, eða 491 árið 2014 samanborið við 638 árinu áður. Þessar tölur innihalda þó ekkki hundruð dauðarefsinga sem vitað er að beitt var í Íran þar sem stjórnvöld þar í landi láta aðeins hluta slíkra upplýsinga í té. Stjórnvöld í Íran viðurkenndu að hafa tekið 289 af lífi árið 2014 en samkvæmt áreiðanlegum heimildum áttu að auki 454 aftökur sér stað. Samanlagt voru því 743 einstaklingar teknir af lífi í landinu árið 2014.
Amnesty International er á móti dauðarefsingunni í öllum tilvikum án undantekninga. Hún brýtur á réttinum til lífs og er hin endanlega grimmilega, ómannlega og vanvirðandi meðferð eða refsing.
