Samkvæmt ársskýrslu Amnesty International fyrir árið 2021 um málefni Evrópu og Mið-Asíu sætti baráttufólk fyrir mannréttindum stöðugum árásum og var spjótum beint sérstaklega að friðsömum mótmælendum, fjölmiðlafólki, dómurum og borgaralegum samtökum með það að markmiði að bæla niður andóf í stað þess að takast á við rótgróinn ójöfnuð til að hægt væri að rísa upp úr kórónuveirufaraldrinum með sanngjörnum hætti. Á svæðinu var rekin aukin valdboðsstefna undir yfirskini verndar gegn kórónuveirufaraldrinum.
„Mannréttindakrísa vegna innrásar Rússlands í Úkraínu má ekki skyggja algjörlega á þær óhugnanlegu stefnubreytingar sem hafa átt sér stað í Evrópu síðasta árið. Í stað þess að takast á við óréttlæti og rótgróinn ójöfnuð hafa margar ríkisstjórnir leitast við að þagga niður í og kúga einstaklinga sem mótmæla friðsamlega og tjá sig.“
Marie Struthers, framkvæmdastjóri Amnesty International yfir Evrópu og Mið-Asíu.
Þörf á sjálfstæðum röddum
Þöggun sjálfstæðra og gagnrýnisradda átti sér stað víða í Evrópu á árinu. Herjað var á mannréttindafrömuði, frjáls félagasamtök, fjölmiðla og stjórnarandstæðinga með ólögmætum handtökum og varðhaldi.
- Ríkisstjórnir í Póllandi, Georgíu, Kirgistan og Tyrklandi héldu uppteknum hætti og drógu enn frekar úr sjálfstæði dómskerfisins og þar með mikilvægu aðhaldi á framkvæmdavaldinu.
- Rússland, Hvíta-Rússland og fleiri lönd skertu tjáningar- og fjölmiðlafrelsi með ýmsum hætti.
- Í Bosníu og Hersegóvínu og Króatíu sætti fjölmiðlafólk lögsóknum um meiðyrði, oft af hálfu stjórnmálafólks.
- Í Búlgaríu, Tékklandi og Slóveníu var ráðist að sjálfstæði og fjölbreytileika útvarps- og sjónvarpsmiðla.
- Tyrkland er það land í heiminum sem enn og aftur heldur flestu fjölmiðlafólki í fangelsi.
- Baráttufólk í þágu farandfólks á Kýpur, Ítalíu, Möltu, í Frakklandi og Grikklandi á enn yfir höfði sér mögulega refsingu.
- Baráttufólk fyrir réttindum kvenna og hinsegin fólks sætti áreitni, óréttlátum lögsóknum og rógherferðum í Aserbaísjan, Georgíu, Ungverjalandi, Póllandi, Tyrklandi og fleiri löndum.
- Í Tyrklandi og Aserbaísjan sætti baráttufólk fyrir mannréttindum tilhæfulausum rannsóknum og lögsóknum sem enduðu jafnvel með sakfellingum.
- Geðþóttalegar skerðingar á starfi borgaralegra samtaka er enn áhyggjuefni í Ungverjalandi, Grikklandi, Tyrklandi, Rússlandi og Hvíta-Rússlandi.
- Nokkur lönd notuðu njósnabúnað frá tæknifyrirtækinu NSO Group gegn mannréttindafrömuðum og stjórnarandstæðingum í Aserbaísjan, Ungverjalandi, Kasakstan og Póllandi.
- Rússland, Hvíta-Rússland og Kasakstan herjuðu á friðsama mótmælendur af hörku.
- Mörg lönd eins og Grikkland, Kýpur og Tyrkland viðhéldu skerðingum á fundafrelsi, meðal annars með bönnum undir formerkjum kórónuveirufaraldursins. Fólk sætti geðþóttahandtökum og lögsóknum fyrir það eitt að nýta sér réttindi sín.
- Á stórum mótmælum gegn takmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins í lok árs viðhafðist stundum ofbeldi og handtökur af hálfu lögreglu. Mótmælendur á mótmælum í Austurríki, Belgíu, Króatíu, Ítalíu og Hollandi særðust við slíkar aðstæður.
Ríki forðuðust að taka ábyrgð á farand- og flóttafólki
Jákvæð viðbrögð Evrópulanda við móttöku fólks frá Úkraínu vegna nýlegrar innrásar Rússlands stangast almennt á við stefnur í Evrópu í málefnum flóttafólks á árinu 2021. Landamæri voru víggirt, fólk var sent til baka án málsmeðferðar, dauði og pyndingar á landamærum voru í auknum mæli talin ásættanlegur fælingarmáttur fyrir fólk á flótta og reglugerðir um vernd fyrir flóttafólk voru þynntar út.
- Grikkland skilgreindi Tyrkland sem öruggt land fyrir fólk sem leitar sér verndar.
- Danmörk reyndi að taka dvalarleyfi af Sýrlendingum og nokkur lönd sendu umsækjendur um alþjóðlega vernd aftur til Afganistan rétt áður en talíbanar tóku yfir.
- Hvíta-Rússland gaf þúsundum einstaklinga frá Mið-Austurlöndum vegabréfsáritun, einkum íröskum kúrdum og þvinguðu þá síðan í átt að landamærum Póllands, Lettlands og Litháens.
- Víða var fólk sent til baka í skyndi án þess að fá að sækja um alþjóðlega vernd, þar á meðal í Bosníu og Hersegóvínu, Króatíu, Grikklandi, Ungverjalandi, Tyrklandi, Norður-Makedóníu, á Ítalíu og Spáni.
„Margir hafa tekið eftir tvískinnungi þegar kemur að meðferð á flóttafólki frá Úkraínu í samanburði við annað flóttafólk. Ástandið í Úkraínu sýnir að Evrópa getur verndað fólki í neyð án mismununar ef pólitískur vilji er fyrir hendi.“
Nils Muižnieks, framkvæmdastjóri Evrópudeildar Amnesty International.
Aukin kynþáttamismunun
Aukin kynþáttamismunun átti sér stað í Evrópu á árinu 2021.
- Bakslag varð í nokkrum löndum í kjölfar Black Lives Matter-hreyfingarinnar.
- Austurríki og Frakkland beittu auknu eftirliti með múslímskum samfélögum, gerði áhlaup á moskur og lokuðu á starfsemi múslímskra samtaka á þeim forsendum að koma í veg fyrir hryðjuverk og öfgahyggju.
- Róma-samfélög hafa lengi sætt lögreglueftirliti og þurft að sætta sig við lélegri menntun en útilokun og einangrun þessara samfélaga varð enn meiri í kórónuveirufaraldrinum.
- Í Austurríki, Þýskalandi, Bretlandi og á Ítalíu jókst gyðingahatur.
Barátta fyrir réttindum kvenna
Bakslag átti sér stað í Evrópu í baráttu fyrir réttindum kvenna.
- Í Póllandi varð eitt stærsta bakslagið þegar lagt var nánast algjört bann við þungunarrofi í lögum.
- Tyrkland dró sig úr Istanbúl-sáttmálanum sem er tímamóta aðildarsáttmáli í baráttunni gegn ofbeldi á konum.
Jákvæð þróun:
- San Marínó lögleiddi þungunarrof.
- Moldavía og Liechtenstein fullgiltu Istanbúl-sáttmálann.
- Í Slóveníu voru gerðar umbætur á lögum þar sem kynlíf án samþykkis var skilgreint sem nauðgun.
Loftslagsváin
Evrópa greip ekki til áþreifanlegra aðgerða til að draga úr losun kolefnis til að takast á við loftslagsvána. Á COP26 ráðstefnunni stóð Evrópa gegn aðgerðum sem miðuðu að því að styðja fjárhagslega við þróunarlönd vegna skaða af völdum loftslagsbreytinga. Aðgerðasinnar náðu þó árangri með málsóknum í Belgíu, Frakklandi, Þýskalandi og Hollandi til að fá stjórnvöld og stór olíufyrirtæki að draga úr losun.
Bóluefni
Þegar kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst söfnuðu Evrópusambandsríkin og Bretland umframbirgðum af bóluefni og litu fram hjá því þegar stóru lyfjafyrirtækin völdu gróða fram yfir fólk þegar þau neituðu að deila tækniþekkingu sinni til að auðvelda dreifingu bóluefna víðar í heiminum.
