Bylgja mótmæla víðsvegar í Asíu er leidd af ungu fólki sem berst gegn aukinni kúgun og skerðingu á tjáningar- og fundafrelsi samkvæmt ársskýrslu Amnesty International um ástand mannréttinda í Asíu og Kyrrahafssvæðinu árið 2019.
Í ársskýrslunni er ítarleg greining á þróun mannréttinda í 25 löndum á svæðinu og hvernig ný kynslóð aðgerðasinna hefur risið upp gegn harkalegum aðgerðum stjórnvalda.
Hér er hægt að skoða ástand mannréttinda eftir löndum á svæðinu.
„Árið 2019 var ár kúgunar í Asíu en einnig andófs. Þegar stjórnvöld víðsvegar um heimsálfuna reyndu að skerða grundvallarfrelsi barðist fólk gegn því og þar er ungt fólk í forystu,“
Nicholas Bequelin, framkvæmdastjóri Austur-og Suðaustur-Asíudeildar Amnesty International.
Mótmæli í Hong Kong breiðast um heiminn
Kína og Indland, stærstu ríki Asíu, gerðu augljósa atlögu gegn mannréttindum síðastliðið ár. Stjórnvöld í Kína studdu frumvarp um framsal frá Hong Kong sem hefði þýtt að kínversk stjórnvöld hefðu vald til að framselja grunaða einstaklinga til meginlands Kína. Það leiddi til mótmæla að stærðargráðu sem á sér ekki fordæmi á svæðinu.
Allt frá júní síðastliðnum hafa íbúar Hong Kong mótmælt reglulega á götum úti þrátt fyrir að standa frammi fyrir harkalegum aðgerðum lögreglu, þar á meðal tilefnislausri beitingu táragass, geðþóttahandtökum, barsmíðum og illri meðferð í varðhaldi.
Í bylgju mótmæla í Indlandi fordæmdu milljónir einstaklinga ný lög sem mismuna gegn múslimum. Í Indónesíu safnaðist fólk saman gegn lögum sem ógnuðu almennu frelsi. Í Afganistan hættu mótmælendur lífi sínu til að krefjast þess að langvarandi átök í landinu yrðu stöðvuð. Í Pakistan bauð friðsama hreyfingin Pashtun Tahaffuz stjórnvöldum birginn þegar þau mótmæltu þvinguðum mannshvörfum og aftökum án dóms og laga.
Harkalegar aðgerðir gegn mótmælum
Stjórnvöld beittu iðulega refsiaðgerðum gegn friðsömum mótmælendum:
- Mótmælendur voru handteknir og fangelsaðir í Víetnam, Laos, Kambódíu og Tælandi í harkalegum aðgerðum stjórnvalda í Suðaustur-Asíu.
- Í Indónesíu varð töluvert mannfall af völdum lögreglu sem beitti óhóflegu valdi við að bæla niður mótmæli. Lögreglan hefur enn ekki verið dregin til ábyrgðar.
- Í Pakistan og Bangladess var gerð atlaga að aðgerðasinnum og fjölmiðlafólki með ströngum lögum sem skerða tjáningarfrelsi og refsa fyrir gagnrýni á netinu.
- Lögregla í Hong Kong beitti skeytingarlausum aðferðum og að geðþótta, þar á meðal pyndingum í varðhaldi, til að kæfa niður mótmæli. Kröfum um ítarlega rannsókn á framferði lögreglu hefur ekki verið mætt.
Þjóðernishyggja bitnar á minnihlutahópum
Í Kína og Indlandi var óttinn við andspyrnu á sjálfstjórnarsvæðum nógur til þess að stjórnvöld beittu sér að fullri hörku gegn minnihlutahópum sem voru taldir ógn við þjóðaröryggi.
Í Xinanjiang í Kína hafa allt að milljón Úígúrar og aðrir minnihlutahópar, sem eru að mestu múslimar, verið í nauðungarhaldi í „endurmenntunarbúðum gegn ofstæki.“
Kasmír, eina ríki Indlands þar sem meirihlutinn er múslimar, missti stöðu sína sem sjálfstjórnarsvæði og stjórnvöld settu á útgöngubann, lokuðu á samskiptaleiðir og handtóku pólitíska leiðtoga.
Á Sri Lanka braust út ofbeldi gegn múslimum í kjölfar sprenginga sem áttu sér stað á páskadag.
Á Filippseyjum hélt Rodrigo Duterte forseti landsins áfram uppi grimmdarlegri stefnu í svokölluðu stríði gegn vímuefnum.
Á sama tíma hefur svívirðileg stefna Ástralíu um varðhald utan landsteinanna valdið líkamlegum og andlegum þjáningum flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd sem eru í haldi á eyjunum Naúrú, Manus og Papúa Nýju-Gíneu.
Framfarir þrátt fyrri mótlæti
Þrátt fyrir refsiaðgerðir gegn mótmælendum varð einnig vart við framfarir á svæðinu árið 2019:
- Í Taívan var hjónaband samkynhneigðra lögleitt eftir þrotlausa baráttu aðgerðasinna.
- Á Sri Lanka náðu lögfræðingar og aðgerðasinnar árangri í baráttu sinni gegn því að aftökur hæfust á ný.
- Brúnei neyddist til að draga til baka áform um framfylgni refsingar vegna laga um hjúskaparbrot og kynmök milli karlmanna með grýtingum.
- Í Malasíu fóru fram réttarhöld yfir fyrrum forsætisráðherra landsins Najib Razak vegna spillingamáls þar sem hann bar vitni í fyrsta sinn.
- Pakistönsk stjórnvöld lofuðu að takast á við loftslagsbreytingar og loftmengun.
- Í fyrsta sinn voru tvær konur skipaðar dómarar í hæstarétti Maldíveyja.
- Máttur mótmæla í Hong Kong leiddi til þess að stjórnvöld í Kína drógu til baka frumvarp sitt um framsal. Baráttan heldur þó áfram fyrir réttlæti vegna harkalegra aðgerða gegn mótmælendum í Hong Kong.
„Mótmælendur víðsvegar í Asíu voru brotnir en ekki bugaðir árið 2019. Þeir mættu hindrunum en voru ekki þaggaðir niður. Samstaða þeirra sendi skilaboð um andstöðu gegn stjórnvöldum sem brjóta enn á mannréttindum og reyna að herða vald sitt enn frekar,“segir Nicholas Bequelin að lokum.
Ársskýrsluna má lesa hér í heild sinni
- Ársskýrslan nær yfir 25 lönd í Asíu og Kyrrahafi fyrir árið 2019
- Ungir mótmælendur bregðast við aukinni kúgun
- Varðhald, handtökur og dauðsföll í harkalegum aðgerðum stjórnvalda gegn mótmælendum
- Mótmæli gífurlega mikilvæg til að tryggja tímamótasigra fyrir mannréttindi
