Stjórn Íslandsdeildar Amnesty International skorar á Alþingi að tryggja áfram rekstrargrundvöll Mannréttindaskrifstofu Íslands.
Stjórn Íslandsdeildar Amnesty International skorar á Alþingi að tryggja áfram rekstrargrundvöll Mannréttindaskrifstofu Íslands. Mannréttindaskrifstofan var stofnuð 17. júní 1994. Íslandsdeild Amnesty International er eitt þeirra félaga sem stóð að stofnun skrifstofunnar, ásamt Barnaheillum, Rauða kross Íslands, Unifem á Íslandi, Biskupsstofu, Jafnréttisstofu og fleiri félögum og samtökum. Hvert aðildarfélag starfar að afmörkuðu sviði mannréttinda og eða mannúðarmála og með stofnun Mannréttindaskrifstofu Íslands skapaðist vettvangur fyrir aðildarfélögin til að samhæfa mannréttindastörf á Íslandi. Mannréttindaskrifstofan hefur sjálfstæða stjórn sem í sitja fulltrúar félagana. Á tíu ára starfstímabili Mannréttindaskrifstofunnar hefur hún margsannað gildi sitt, staðið hefur verið fyrir fjölmörgum málþingum, yfirgripsmiklar umsagnir um lagafrumvörp hafa verið lagðar fram ásamt viðbótarskýrslum til eftirlitsnefnda Sameinuðu þjóðanna, komið hefur verið á fót bókasafni með efni um mannréttindi, stuðlað hefur verið að fræðslu á sviði mannréttindamála og ýmsar bækur og rit verið gefin út á vegum Mannréttindaskrifstofunnar.
Á öllum Norðurlöndum, í flestum Evrópuríkjum og víða annarsstaðar um heiminn starfa mannréttindaskrifstofur sem Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur verið í samvinnu við. Mest samvinna hefur verið við skrifstofurnar á Norðurlöndum og hefur Mannréttindaskrifstofan skipulagt ráðstefnur og fundi hér á landi með fulltrúum ýmissa erlendra mannréttindaskrifstofa. Sameinuðu þjóðirnar hafa hvatt aðildarríki til að tryggja að
í hverju landi starfi mannréttindaskrifstofur og í skýrslu Íslands til eftirlitsnefndar Sþ um framfylgd samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi var þess sérstaklega getið að yfirvöld hér á landi styddu starfsemi Mannréttindaskrifstofu Íslands sem eins framlags ríkisins til eflingar mannréttinda á Íslandi, og var því fagnað af hálfu eftirlitsnefndarinnar.
Eins og fram hefur komið starfa aðildarfélög Mannréttindaskrifstofunnar að afmörkuðum sviðum mannréttinda og hafa ekki umboð til að fjalla um öll mannréttindi í starfsemi sinni. Mannréttindaskrifstofan hefur umboð til að fjalla um öll mannréttindi og sem slík er hún mjög mikilvæg t.d. við gerð umsagna við lagafrumvörp og veitir hún löggjafanum mikilvægt aðhald sem nauðsynlegt er í hverju lýðræðissamfélagi.
Tillögur fjárlaganefndar Alþingis eins og þær liggja nú fyrir, þar sem gert er ráð fyrir framlögum til mannréttindamála almennt, fela í sér þá hættu að þeir fjármunir nýtist illa og dreifist á marga aðila og einstaklinga. Eins og fram hefur komið standa flest ef ekki öll þau félög sem starfa á vettvangi mannréttinda á Íslandi að Mannréttindaskrifstofunni og stjórn Íslandsdeildar Amnesty International telur að fjármagni til mannréttindamála sé vel varið með því að tryggja traustan rekstrargrundvöll Mannréttindaskrifstofu Íslands og tryggja þannig sjálfstæði skrifstofunnar gagnvart framkvæmdavaldinu, þannig að Mannréttindaskrifstofan geti áfram verið sú sjálfstæða og óháða stofnun sem sinnir þessum málaflokki á breiðum grundvelli.
Í ljósi þessa hvetur stjórn Íslandsdeildar Amnesty International Alþingi til að tryggja fastan rekstrargrundvöll Mannréttindaskrifstofu Íslands til frambúðar.
