Ungliðar Íslandsdeildarinnar munu taka þátt í Gleðigöngunni fyrir alla þá sem hafa ekki frelsi til að elska eða vera þeir sjálfir án þess að eiga á hættu að gjalda þess dýrum dómi. En eins og staðan er í dag liggja enn viðurlög við því að elska manneskju af sama kyni í 73 ríkjum í heiminum.
Gleðiganga Hinsegin daga fer fram næstkomandi laugardag 6. ágúst og líkt og undanfarin ár mun Íslandsdeild Amnesty International taka þátt í henni. Ungliðar Íslandsdeildarinnar munu ganga fyrir alla þá sem hafa ekki frelsi til að elska eða vera þeir sjálfir án þess að eiga á hættu að gjalda þess dýrum dómi. En eins og staðan er í dag liggja enn viðurlög við því að elska manneskju af sama kyni í 73 ríkjum í heiminum.
Um leið og þeim mikla árangri sem náðst hefur í málefnum hinsegin fólks á Íslandi er fagnað, með einhverjum samheldnustu og skemmtilegustu hátíðarhöldum ársins, erum við einnig minnt á hversu öflugur samtakamátturinn er þegar kemur að mannréttindabaráttunni.
Í ár vekur Íslandsdeildin sérstaka athygli á stöðu mannréttinda hinsegin fólks í Túnis. Grein nr. 230 í þarlendri refsilöggjöf kveður á um að kynlíf einstaklinga af sama kyni, með samþykki beggja aðila, sé refsivert. Viðurlögin geta numið allt að þriggja ára fangelsisvist auk sekta. Þá hefur það jafnvel komið fyrir að einstaklingar sem dæmdir hafa verið fyrir brot á 230. grein hafi einnig verið gerðir brottrækir úr heimabæ sínum en þarlendir mannréttindahópar hafa lýst slíkum úrskurðum sem „forneskjulegum“.
Hinsegin fólk í Túnis þarf að þola lítillækkandi og oft ofbeldisfulla meðferð af hálfu þeirra sem samkvæmt lögum eiga að bera hagsmuni þess fyrir brjósti sér. Afleiðingin er meðal annars sú að hinsegin fólk veigrar sér við að leita réttar síns ef það sætir ofbeldi eða annarri illri meðferð, af ótta við að hljóta sjálft refsingu. Í raun kyndir löggjöfin því undir fordóma og hatursglæpi gegn hinsegin fólki í Túnis. Á Lækjartorgi getur fólk komið við í tjaldi Amnesty og sýnt að það trúi því að ást sé mannréttindi með því að skrifa undir kröfu okkar um að túnísk stjórnvöld grípi til aðgerða án tafar með því að fella niður grein nr. 230 og tryggja að hinsegin fólk njóti verndar og fullra réttinda í Túnis.
