Í ársskýrslu Amnesty International er greint frá ástandi mannréttinda í 153 löndum. Upplýsingar sem þar er að finna byggjast á rannsóknum samtakanna á síðasta ári.
Í ársskýrslu Amnesty International er greint frá ástandi mannréttinda í 153 löndum. Upplýsingar sem þar er að finna byggjast á rannsóknum samtakanna á síðasta ári. Skýrslan er 337 blaðsíður að lengd og skiptist í þrjá meginhluta. Í fyrsta hlutanum er að finna ávarp Irene Khan framkvæmdastjóra Amnesty International, greiningu á stöðu mannréttinda í heiminum og ítarlegt yfirlit yfir ástand mála í einstökum heimsálfum. Í öðrum hluta skýrslunnar er fjallað um brot á mannréttindum í einstökum löndum. Þriðji hluti skýrslunnar er um starf Amnesty International og helstu aðgerðir og herferðir sem samtökin stóðu fyrir á síðasta ári. Þar er einnig að finna lista yfir alþjóðlega mannréttindasamninga og þau lönd sem gerst hafa aðilar að þeim.
Voldugar ríkisstjórnir og vopnaðir hópar magna vísvitandi upp ótta meðal fólks í því skyni að grafa undan mannréttindum og valda sundrungu manna á meðal. Þessi atlaga að mannréttindum og sú sundrung sem alið er á gera heiminn ótryggari fyrir alla íbúa hans. Með því að ala á ótta og tortryggni grafa ríkisstjórnir undan lögfestu og mannréttindum, næra kynþáttahyggju og andúð á útlendingum, kljúfa samfélög, auka á misskiptingu og sá fræjum ofbeldis og átaka.
Stjórnmálamenn sem ala á ótta og fordómum bera ábyrgð á því að mannréttindi eru fótum troðin, réttur einstaklinga lítils eða einskis virtur og heimurinn viðsjárverðari öllum sem þar búa. Hið svonefnda „stríð gegn hryðjuverkum“ og stríðið í Írak, þar sem brotið hefur verið gegn mannréttindum í stórum stíl, hafa valdið sundrungu meðal þjóða og þjóðarbrota og torveldað lausn deilumála og vernd almennra borgara.
Alþjóðasamfélagið einkenndist á síðastliðnu ári af vantrausti og sundrungu. Þessi tortryggni leiddi til þess að ekki tókst að bregðast við neyðarástandi sem skapaðist í mannréttindamálum, s.s. í hinum „gleymdu“ átökum í Tétsníu, Kólumbíu og á Sri Lanka sem og í átökunum í Mið-Austurlöndum, sem þó var mikið fjallað um í heimspressunni.
Það tók Sameinuðu þjóðirnar t.a.m. margar vikur að taka við sér og krefjast þess að stríðandi fylkingar gerðu vopnahlé í átökunum í Líbanon, þar sem 1200 óbreyttir borgarar létu lífið. Alþjóðasamfélagið hafði ekki þor til að bregðast við hörmulegum mannréttindabrotum í kjölfar alvarlegra takmarkana á ferðafrelsi Palestínumanna innan hernumdu svæðanna, og einnig voru alvarlegar afleiðingar af árásum Ísraelshers og átökum milli palestínskra fylkinga.
Darfur í Súdan var og er blæðandi sár á samvisku heimsins. Gagnkvæmt vantraust og alls kyns leynimakk milli öflugustu ríkja Sameinuðu þjóðanna veldur því að þau geta ekki eða vilja ekki bregðast við þeim skelfilegu mannréttindabrotum sem þar eiga sér stað. Tvö hundruð þúsund börn, konur og karlar hafa týnt lífinu og rúmlega tífalt fleiri misst heimili sín en alþjóðasamfélagið horfir á án þess að grípa til raunhæfra aðgerða. Vopnaðir hópar ráðast nú frá Darfur inn í Tsjad og Miðafríkulýðveldið.
Vopnaðir hópar ala á og nærast á ótta og ótryggu ástandi, allt frá landamærum Pakistans til Norðaustur-Afríku. Slíkir hópar hafa gerst sekir um fjöldamörg og alvarleg brot gegn mannréttinda- og mannúðarlögum. Ríkisstjórnir heims verða að axla ábyrgð sína og gera það sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að vopnaðir hópar komist upp með að virða alþjóðlega viðurkennd mannréttindi og mannúðarlög að vettugi.
Alþjóðasamfélagið og afganska ríkisstjórnin glötuðu tækifæri til að byggja upp öflugt ríki í Afganistan, grundvallað á mannréttindum og lögfestu. Í stað öryggis og uppbyggingar býr þjóðin við óstöðugleika og spillingu. Í Írak kyntu öryggissveitir undir ofbeldi milli trúarhópa í stað þess að stilla til friðar. Dómskerfi landsins er í molum og það versta sem átti sér stað í tíð ríkisstjórnar Saddams Hussein, sem leiddi til þess að hún varð alræmd og hötuð, þ.e. pyndingar, óréttlát réttarhöld og dauðarefsingar tíðkast ennþá í stórum stíl í landinu.
Stjórnmálstefnur byggðar á tortryggni, fordómum og ótta leiða til öryggisleysis og mismununar í mörgum ríkjum heims. Bilið milli ríkra og fátækra, „þeirra“ og „okkar“ breikkar. Minnihluta-og jaðarhópar eru skildir eftir óvarðir. Í Afríku einni voru hundruð þúsunda kvenna, karla og barna borin út af heimilum sínum, oft í nafni framfara og hagþróunar, án þess að laga og réttar væri gætt. Þetta fólk átti hvergi höfði sínu að halla og stjórnvöld greiddu því sjaldnast nokkrar skaðabætur né veittu því aðra aðstoð.
Stjórnmálamenn í Vestur-Evrópu spiluðu á ótta almennings við innflutning fólks frá öðrum löndum til að réttlæta harkalegar aðgerðir gegn flóttamönnum og hælisleitendum. Þá var farandverkafólk víða heim, allt frá Suður-Kóreu til Dóminíkanska lýðveldisins berskjaldað og óvarið fyrir mismunun, misnotkun og margvíslegu óréttlæti.
Aðgerðir og ráðstafanir, sem stjórnvöld á Vesturlöndum gripu til í baráttu gegn hryðjuverkum, dýpkuðu og breikkuðu þá gjá sem mynduð hefur verið milli múslima og fólks sem aðhyllist önnur trúarbrögð. Árásum gegn múslimum, gyðingum og trúarlegum minnihlutahópum fjölgaði á síðasta ári um heim allan. Mikið var um hatursglæpi gegn erlendum ríkisborgurum, s.s. í Rússlandi og um alla Evrópu var Róma-fólki mismunað og því í raun úthýst úr samfélaginu. Þessar ömurlegu staðreyndir bera þess skýrt vitni hversu illa ríki heims standa sig í því að berjast gegn kynþáttahyggju og andúð á útlendingum.
Sundrung, ótti og öryggisleysi dró úr umburðarlyndi fólks gagnvart þeim sem eru annarrar trúar eða af öðrum kynþætti eða þjóðerni. Þá var vegið leynt og ljóst að tjáningarfrelsinu. Í öllum heimshornum, allt frá Íran til Zimbabwe, hefur verið þaggað niður í þeim sem ekki eru stjórnvöldum þóknanlegir.
Rithöfundar og baráttufólk fyrir mannréttindum var ofsótt í Tyrklandi. Pólitískt baráttufólk var myrt á Filippseyjum. Mannréttindafrömuðir í Kína voru áreittir, látnir sæta eftirliti og fangelsaðir að ógleymdu morðinu á fréttakonunni Önnu Politkovsköju í Rússlandi og lögum sem þar voru sett til höfuðs frjálsum félagasamtökum. Hömlur sem stjórnvöld víða um heim hafa lagt á aðgang almennings að internetinu og notkun þess vega með mjög alvarlegum hætti að rétti fólks til að afla sér upplýsinga og tjá skoðanir sínar. Fólk var fangelsað vegna skrifa sinna á netinu og upplýsingafyrirtæki veittu ríkisstjórnum aðstoð við að takmarka aðgang almennings að upplýsingum á netinu, s.s. í Kína, Íran, Sýrlandi, Víetnam og Hvíta-Rússlandi.
Hið svonefnda „stríð gegn hryðjuverkum“ var notað til að réttlæta alls kyns kúgun, sem stjórnvöld hafa lengi beitt almenning, t.d. í Egyptalandi. Í Bretlandi voru sett illa skilgreind og óskýr lög sem ætlað er að auðvelda baráttuna gegn hryðjuverkum, en geta allt eins haft í för með sér alvarlega skerðingu á tjáningarfrelsinu í landinu.
Árið 2006 komu fram ný gögn og upplýsingar sem sýndu að bandarísk stjórnvöld líta á heiminn sem risastóran vígvöll í sínu svonefnda „stríði gegn hryðjuverkum“. Þau stunduðu mannrán, fangelsuðu fólk og héldu því í varðhaldi með handahófskenndum hætti, beittu pyndingum og fluttu „grunaða“ frá einu leynifangelsi til annars.
Hnattvæðing mannréttindabrota kristallaðist í „stríðinu gegn hryðjuverkum“. Ríkisstjórnir margra landa, s.s. Pakistans, Þýskalands, Kenía og Ítalíu aðstoðuðu Bandaríkjamenn við að flytja fanga milli landa. Aðgerðir stjórnvalda víða um heim hafa síst dregið úr hryðjuverkaógninni og alls ekki tryggt fórnarlömbum hryðjuverka nokkurt réttlæti. Þessar aðgerðir hafa á hinn bóginn grafið undan mannréttindum með margvíslegum og alvarlegum hætti og dregið úr þeirri vernd sem lög og réttur eiga að veita fólki um heim allan.
Amnesty International hefur ævinlega hvatt allar ríkisstjórnir til að hafna pólitík sem byggist á ótta og tortryggni en efla þess í stað mannréttindastofnanir og lögfestu heima fyrir sem og á alþjóðavettvangi.
Nokkur merki má greina um jákvæða þróun að þessu leyti. Evrópskar stofnanir sýndu nokkurn vilja til að auka gagnsæi og ábyrgð varðandi ólöglega fangaflutninga milli landa. Sameinuðu þjóðirnar ákváðu, eftir mikinn þrýsting frá frjálsum félagsamtökum, að vinna að gerð alþjóðlegs sáttmála í því skyni að koma böndum á sölu smávopna. Í ýmsum löndum hafa nýir leiðtogar tækifæri til að ráða bót á mistökum forvera sinna sem hafa grafið undan mannréttindum með aðgerðum sínum. Nýkjörið Bandaríkjaþing gæti t.a.m. snúið við blaðinu, breytt um stefnu og orðið stuðlað að vernd og viðgangi mannréttinda.
Allir vita að þeirri ógn sem mannkyninu og náttúrunni stafar af hlýnun jarðar verður aðeins mætt með hnattrænum aðgerðum sem byggjast á alþjóðlegri samvinnu. Þetta á einnig og ekki síður við baráttuna gegn þeirri atlögu sem nú er gerð að mannréttindum fólks í öllum heimshornum. Sú barátta verður aðeins háð og unnin með hnattrænni samstöðu og skilyrðislausri virðingu fyrir alþjóðalögum.
