Íslandsdeild Amnesty International tók þátt í Gleðigöngu Hinsegin daga en ungliðahreyfing deildarinnar hafði skipulagt atriði sem þau sýndu á táknrænan hátt á Amnesty vagni. Þau settu þar á svið atriði sem vakti athygli á mannréttindabrotum gegn á hinsegin fólki sem víða eru viðhöfð í heiminum.
Laugardaginn 9. ágúst fór fram hin árlega Gleðiganga í Reykjavík en gangan er liður í Hinsegin dögum. Nú í ár sem fyrr fjölmenntu Íslendingar í gönguna til að sýna stuðning til handa LGBT fólki og í leiðinni fagna fjölbreytileikanum. Er talið að hátt í 100 þúsund manns hafi mætt í miðbæinn og skartaði borgin sínu fegursta í góða veðrinu. Íslandsdeild Amnesty International tók þátt í göngunni en ungliðahreyfing deildarinnar hafði skipulagt atriði sem þau sýndu á táknrænan hátt á Amnesty vagni. Þau settu þar á svið atriði sem vakti athygli á mannréttindabrotum gegn hinsegin fólki sem víða eru viðhöfð í heiminum. Ungliðarnir léku fanga og fangaverði og héldu á spjöldum sem sögðu frá því að í 78 ríkjum heims er samkynhneigð bönnuð með lögum. Vagninn vakti mikla athygli og fengu ungliðarnir góð viðbrögð.
Að göngunni lokinni héldu liðsmenn Amnesty niður á Lækjartorg þar sem Íslandsdeildin hafði sett upp bás þar sem ungliðarnir hvöttu almenning að sýna tveimur ólíkum mannréttindamálum stuðning sinn. Þar vöktu þeir máls á baráttu norsku transkonunnar John Jeanette Solstad Remø sem berst fyrir rétti sínum til lagalegrar viðurkenningar á kyni sínu. Hún hefur ekki viljað klára það ferli sem hún þarf samkvæmt norskum lögum til að fá kyn sitt leiðrétt eins og við fjölluðum ítarlega um á heimasíðu Netákallsins. Hitt málið var svo mál Ihar Tsikhanyuk frá Minsk í Hvíta Rússlandi. Í febrúar á síðasta ári sætti hann lögregluofbeldi eftir að hafa stofnað samtök um réttindi samkynhneigðra. Hann hefur ítrekað óskað eftir því að yfirvöld rannsaki ofbeldið en þau hafa neitað þeirri beiðni. Hann bíður þess enn að réttlætinu sé fullnægt.
Ungliðarnir voru vel sýnilegir í iðandi miðbæjarlífinu og fengu frábærar viðtökur frá gestum og gangandi. Þau söfnuðu um 1000 undirskriftum sem Íslandsdeildin mun senda á viðkomandi yfirvöld. Íslandsdeild Amnesty gaf þeim sem skrifuðu undir regbogaarmband sem á var ritað “Ást er mannréttindi”. Fögnum fjölbreytileikanum og höldum áfram baráttunni gegn mismunun vegna kynferðis og/eða kynhneigðar.
