Athugið: Breytt dagsetning á mótmælaaðgerð fyrir framan bandaríska sendiráðið!

Íslandsdeild Amnesty International tilkynnir breytta dagsetningu á mótmælaaðgerð vegna vopnaflutnings bandarískra stjórnvalda til Ísraels. Aðgerðin fer fram á morgun, fimmtudaginn 31. júlí kl. 17 fyrir framan bandaríska sendiráðið, að Laufásvegi 21, 101 Reykjavík.

Íslandsdeild Amnesty International boðar til mótmælaaðgerðar á morgun, 31. júlí kl. 17:00, fyrir framan bandaríska sendiráðið að Laufásvegi 21, 101 Reykjavík. Með þátttöku sinni ætla samtökin að þrýsta á bandarísk stjórnvöld að stöðva allan vopnaflutning til ísraelskra stjórnvalda, en Bandaríkin eru langstærsti vopnasöluaðili Ísraels. Tekin verður hópmynd af öllum sem mæta með skilti, þar sem skýr skilaboð eru send til bandarískra stjórnvalda.

Margvíslegur tækjabúnaður til hernaðarlegra nota, öryggismála og löggæslu er fluttur frá Bandaríkjunum til Ísraels.

Önnur ríki sem einnig flytja vopn og annan hernaðarvarning eru m.a. Austurríki, Suður-Kórea, Ítalía, Indland og Kólumbía.

Íslandsdeild Amnesty International hvetur fólk til að fjölmenna!

Frá árunum 2009 til lok árs 2013 fluttu bandarísk stjórnvöld margvísleg vopn og skotfæri til Ísraels að jafnvirði 773.853.826 bandaríkjadala. Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum um útflutning á hefðbundnum vopnum fluttu bandarísk stjórnvöld jafnframt 596 vopnuð og brynvarin farartæki,141 stór flugskeytakerfi, 192 herflugvélar og 128 herþyrlur, og 3.805 flugskeyti og eldflaugavörpur.

Þann 16. ágúst 2007 undirrituðu ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Ísraels 10 ára samstarfssamning (e.memorandum of understanding),  þar sem bandarísk stjórnvöld heita ísraelskum stjórnvöldum þrjátíu milljarða bandaríkjadala. Samkvæmt samningnum hljóta ísraelsk stjórnvöld þrjá milljarða bandaríkjadala árlega sem liður í fjármögnun bandaríska stjórnvalda til hernaðaruppbyggingar á erlendri grundu (e. Foreign Military Financing/ FMF). Styrkurinn sem fellur undir þennan hluta samningsins felur í sér kaup á bandarískum varnarbúnaði, herþjónustu og herþjálfun. Auk þessa fjárhagslega stuðnings taka bandarísk stjórnvöld þátt í hernaðarlegum rannsóknum og vopnaþróun í samstarfi við ísraelsk stjórnvöld.

Ísraelsher hefur beitt margvíslegum herbúnaði samanber byssum, byssukúlum, flugskeytum, drónum, stórskotaliði, skriðdrekum, herskipum og flugvélum, til að fremja alvarleg mannréttindabrot á Gasa. Það er löngu tímabært að bandarísk stjórnvöld stöðvi samstundis allan flutning á hernaðarvarningi til Ísraels og þrýsti á að vopnasölubanni Sameinuðu þjóðanna á alla aðila átakanna verði samstundis komið á.

Allt frá því að Ísraelar hófu aðgerðina „Protective Edge“ snemma morguns þann 8. júlí síðastliðinn, hafa að minnsta kosti 1000 Palestínumenn legið í valnum og a.m.k 5000 til viðbótar særst, flestir óbreyttir borgarar sem voru ekki beinir þátttakendur í átökunum. Frá 23. júlí hafa 140.000 þurft að flýja heimili sín. Sameinuðu þjóðirnar áætla að 78 prósent dauðsfalla á Gasa séu óbreyttir borgarar og nærri helmingur þeirra eru konur og börn. Þessar tölur eru sláandi. Þá hafa hundruðir heimila á Gasa verið eyðilögð og standa eftir algjörlega óíbúðarhæf.  

Í Ísrael hafa 35 ísraelskir hermenn verið drepnir og að minnsta kosti 20 einstaklingar særst vegna flugskeytaárása og eignir hafa verið skemmdar.

Þá hafa vopnaðir palestínskir hópar gert handahófskenndar eldflaugaárásir á byggðir Ísraelsmanna. Notkun slíkra eldflauga brýtur í bága við alþjóðalög vegna þess hve handahófskenndar þær eru og kallar Amnesty International eftir því að tafarlaust sé bundinn endi á allar slíkar árásir. 

Amnesty International skorar ennfremur á Sameinuðu þjóðirnar að leggja samstundis á alhliða vopnasölubann á Ísraelsmenn, Hamas og vopnaða hópa Palestínumanna til að koma í veg fyrir frekari alvarleg brot á alþjóðlegum mannúðarlögum og mannréttindum af hálfu stríðandi fylkinga. Amnesty International kallar ennfremur eftir alþjóðlegri rannsókn á öllum brotum sem framin eru í tengslum við loftárásir Ísraelsmanna á Gasaströndinni og ófyrirsjáanlegar flugskeytaskothríðir vopnaðra hópa Palestínumanna á Ísrael.