„Evrópuþingið hefur sent skýr skilaboð þess efnis að það hafi í hyggju að tryggja þeim sem sætt hafa mannréttindabrotum af hálfu fyrirtækja réttlæti“, sagði Hannah Storey, ráðgjafi um stefnumál Amnesty International er varðar mannréttindi og viðskipti þegar Evrópuþingið greiddi atkvæði með tilskipun um ábyrgð fyrirtækja á mannréttindum og umhverfinu.
Stuðningur Evrópuþingsins við þessa tilskipun er jákvæð þróun.
„Það sem mestu varðar er að þessi tilskipun, sem studd er af þinginu, reynir að takast á við margar þeirra hindrana sem mæta þolendum mannréttindabrota af hálfu fyrirtækja hvað varðar aðgengi að réttlátri málsmeðferð. Tilskipunin gerir til að mynda dómstólum Evrópusambandsríkja kleift að leggja fram kröfu þess efnis að fyrirtæki sem grunuð eru um mannréttindabrot afhendi sönnunargögn. Án slíkra upplýsinga er erfitt að draga fyrirtæki til ábyrgðar fyrir mannréttindabrot og umhverfisspjöll. Engu að síður má finna bagaleg undanþáguákvæði í tilskipuninni sem torvelda það að fjármálafyrirtæki verði látin sæta ábyrgð að einkarétti fyrir mannréttindabrot og umhverfisspjöll. Fyrirtæki eru ekki heldur skyldug til að huga að mögulegum mannréttindabrotum sem stafa af misbeitingu á vörum sem þau framleiða. Stefnumarkandi aðilar Evrópusambandsins verða tafarlaust að takast á við þessa annmarka á meðan á samningarviðræðum stendur.“
Bakgrunnur
Umrædd tilskipun um áreiðanleikakönnun á sjálfbærni og samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja kann að marka vatnaskil í löggjöf um ábyrgð stærri fyrirtækja innan Evrópusambandsríkja þegar kemur að mannréttindum. Tilskipunin, sem samþykkt var af Evrópuþinginu, verður síðan samþættuð við þær útgáfur sem Evrópuráðið og framkvæmdastjórnin hefur til skoðunar áður en lokaútgáfa tilskipunarinnar verður gefin út síðar á árinu.
