Bandaríkin/Bretland: Julian Assange skal ekki framseldur og fella þarf niður ákærur

Í ljósi áheyrnar í máli Julian Assange um framsal til Bandaríkjanna þann 24. febrúar næstkomandi kallar Amnesty International eftir því að yfirvöld í Bandaríkjunum felli niður allar ákærur á hendur honum sem tengjast njósnum og hann leystur úr haldi í kjölfarið.

Ef þessar ákærur verða ekki felldar niður þurfa stjórnvöld í Bretlandi að tryggja að Julian Assange verði ekki framseldur til Bandaríkjanna þar sem hætta er á að hann verði fyrir alvarlegum mannréttindabrotum.

Samkvæmt greiningu Amnesty International eiga ákærur gegn Assange rætur sínar að rekja til birtingu gagna í tengslum við störf hans hjá Wikileaks. Slík birting á ekki að vera refsiverð og svipar til starfa fjölmiðlafólks sem reglulega rannsakar mál í starfi sínu.

„Það að bandarísk stjórnvöld hafi miskunnarlaust reynt að hafa hendur í hári Julian Assange vegna opinberunar gagna sem innihéldu meðal annars upplýsingar um mögulega stríðsglæpi bandaríska hersins er alvarleg árás gegn réttinum til tjáningarfrelsis.“

Massimo Moratti, aðstoðarframkvæmdastjóri Evrópudeildar Amnesty

„Það gæti haft hrollvekjandi afleiðingar fyrir fjölmiðlafólk og aðra sem afhjúpa misgjörðir opinberra aðila með birtingu upplýsinga frá áreiðanlegum heimildum og einnig djúpstæð áhrif á rétt almennings til upplýsinga um aðgerðir stjórnvalda. Allar ákærur gegn Assange sem tengjast slíku verður að fella niður,“ segir Massimo Moratti, aðstoðarframkvæmdastjóri Evrópudeildar Amnesty

Alþjóðalög

Alþjóðleg lög og staðlar banna framsal einstaklinga til annars lands þegar raunveruleg hætta er á alvarlegum mannréttindabrotum gegn þeim. Bresk stjórnvöld bregðast því skyldu sinni ef Julian Assange verður framseldur eða fluttur til Bandaríkjanna með einum eða öðrum hætti.

„Julian Assange gæti átt á hættu varðhaldsvist við aðstæður sem teljast til pyndinga og annarrar illrar meðferðar, t.d. einangrunarvist. Hættan á ósanngjörnum réttarhöldum er einnig mikil í ljósi opinberrar herferðar embættisfólks í efstu lögum stjórnsýslunnar gegn honum. Það grefur alvarlega undan rétti Julian Assange að vera álitinn saklaus uns sekt er sönnuð.“

Massimo Moratti, aðstoðarframkvæmdastjóri Evrópudeildar Amnesty International