Barack Obama Bandaríkjaforseti ætti að milda dóminn yfir bandaríska hermanninum Bradley Manning þannig að hann afpláni ekki lengri tíma en hann hefur þegar gert.
Barack Obama Bandaríkjaforseti ætti að milda dóminn yfir bandaríska hermanninum Bradley Manning þannig að hann afpláni ekki lengri tíma en hann hefur þegar gert. Sleppa ætti Manning úr haldi þegar í stað. Þetta er skoðun Amnesty International.
Herdómarinn Denise Lind dæmdi Manning í 35 ára fangelsi þann 21. ágúst 2013. Möguleg hámarksrefsing var 90 ár. Hann var dæmdur fyrir að leka miklu magni af leynilegum gögnum. Manning hefur þegar setið yfir þrjú ár í varðhaldi, þar af 11 mánuði við aðstæður sem sérstakur eftirlitsfulltrúi Sameinuðu þjóðanna um pyndingar sagði vera grimmilegar og ómannúðlegar.
Bradley Manning lak gögnum í þeirri trú að hann gæti vakið opinbera umræðu um áhrif stríðsreksturs, einkum athæfi bandaríska hersins í Írak og Afganistan. Í gögnum sem hann lak var að finna skýrslur um handtökur á átakasvæðum og áður óséð myndbönd af árás bandarískra herþyrlna á blaðamenn og aðra óbreytta borgara, gögn sem hefðu átt að líta dagsins ljós mun fyrr.
Í stað þess að „senda skilaboð“ með því að kveða upp dóm yfir Bradley Manning sem er ígildi lífstíðardóms ættu bandarísk stjórnvöld að beina sjónum sínum að því að rannsaka mannréttindabrot og brot á mannúðarlögum í hinu svokallaða „stríði gegn hryðjuverkum“.
Sum gögnin sem Manning lak og Wikileaks birti bentu til mögulegra mannréttindabrota og brota bandaríska hersins á erlendri grund gegn alþjóðlegum mannúðarlögum. Auk þess bentu þau til sambærilegra brota samstarfsaðila Bandaríkjamanna: íraska og afganska hersins og verktaka sem unnu fyrir fyrir herinn. En dómarinn í máli Manning kvað upp úrskurð fyrir réttarhöldin, þess efnis að Manning gæti ekki varið sig með því að leggja fram gögn sem sýndu að hann hefði haft almannahag að leiðarljósi.
Manning hafði þegar játað sig sekan um að hafa lekið upplýsingum og því er einungis hægt að líta svo á að ákvörðun bandarískra yfirvalda um að ákæra hann samkvæmt njósnalögum og jafnvel að ákæra hann fyrir að „aðstoða óvininn“ hafi þjónað þeim tilgangi að aðvara aðra sem gætu freistast til að opinbera brot stjórnvalda.
Mál Manning staðfestir mikilvægi þess að endurskoða úrelt njósnalög í Bandaríkjunum og styrkja vernd þeirra sem uppljóstra um brot sem almenningur þarf og á rétt á að vita.
Milda ber dóminn yfir Bradley Manning í ljósi tilgangsins með athæfi hans, vegna þeirrar meðferðar sem hann sætti snemma í varðhaldsvistinni og ágalla á málsmeðferðinni. Bandaríkjaforseti þarf ekki að bíða eftir áfrýjuninni til að geta mildað dóminn.
Hann getur og ætti að milda hann nú þegar.
