Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur skrifað undir nýja forsetatilskipun sem kveður á um að hlé skuli gert á móttöku flóttamanna til Bandaríkjanna og ferðabann sett á fólk frá sex ríkjum þar sem múslimar eru í meirihluta.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur skrifað undir nýja forsetatilskipun sem kveður á um að hlé skuli gert á móttöku flóttamanna til Bandaríkjanna og ferðabann sett á fólk frá sex ríkjum þar sem múslimar eru í meirihluta. Salil Shetty, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International, mótmælti tilskipuninni og sagði:
„Eindregin viðleitni Trumps Bandaríkjaforseta til að loka á þá sem flýja þann hrylling sem hann segist vera að berjast gegn mun lifa sem einn myrkasti kaflinn í sögu Bandaríkjanna. Sú hugmynd að þessi tilskipun efli þjóðaröryggi stenst ekki nokkra skoðun. Hún endurvekur einungis ýmis ógeðfelldustu atriðin í fyrri forsetatilskipun hans og er í hrópandi mótsögn við þau gildi sem Bandaríkin hafa lengi sagst berjast fyrir og er ógn við vonir þúsunda flóttamanna sem áttu að fá hæli í Bandaríkjunum.
Það að eyða óvissunni um einstaklinga, sem hafa fasta búsetu í landinu, er einungis leið til að komast hjá frekari skoðun dómstóla. Forsetatilskipunin beinist gegn múslimum og skýringar á tilskipuninni ættu að vera augljósar öllum sem þekkja til orðræðu Trump til langs tíma gegn múslimum.
Um er að ræða fjölskyldur sem hafa flúið rústirnar í Aleppo eða flúið sprengjur og hungursneyð í Jemen. Þetta er fólk sem flýr ógnir og það á skilið að hljóta vernd.
Öryggi mun ekki aukast í kjölfarið. Þessar aðgerðir gætu, þvert á móti, eflt öfgamenn sem halda því fram að bandarísk stjórnvöld séu í stríði við íslam.“
Íslandsdeild Amnesty International stendur nú fyrir undirskriftasöfnun á Netákalli deildarinnar þar sem skorað er á forseta Bandaríkjanna að hætta að misnota vald sitt, standa við skuldbindingar Bandaríkjanna gagnvart viðkvæmasta hópi flóttamanna og binda enda á ferðabann sem mismunar fólki á grundvelli þjóðernis og trúar.HÆGT ER AÐ SKRIFA UNDIR HÉRNA : Sýnum forseta Bandaríkjanna að á Íslandi, eins og annars staðar í heiminum, styður yfirgnæfandi meirihluti fólks flóttamenn og leggst hart gegn þeirri mismunun sem forsetatilskipunin felur í sér.
Lestu meira (á ensku):
· The US War on Muslim Refugees
· USA: Congress must permanently repeal muslim ban
· USA: Trump’s policy decisions blocking refugees puts hateful rhetoric into action
