Bandaríkin: Skammarlegar refsiaðgerðir gegn sérstökum skýrslugjafa

Marco Rubio utanríkisráðherra Bandaríkjanna tilkynnti á dögunum refsiaðgerðir gegn Fransescu Albanese sérstökum skýrslugjafa Sameinuðu þjóðanna. Þessar refsiaðgerðir voru tilkynntar aðeins nokkrum dögum eftir að hún gaf út nýja skýrslu þar sem greint var frá því hvernig fyrirtæki hafa hagnast á ólögmætu hernámi Palestínu, grimmilegri aðskilnaðarstefnu og hópmorði Ísraels á Gaza.

Þetta er það nýjasta í stefnu ríkisstjórnar Trumps sem leitast eftir að ógna og þagga niður í þeim sem þora að tjá sig um mannréttindi Palestínubúa.  

„Þetta eru ósvífnar og augljósar árásir á grundvallarreglur alþjóðlega réttarkerfisins. Sérstakir skýrslugjafar eru ekki skipaðir til að þóknast ríkisstjórnum eða afla sér vinsælda heldur til að sinna sínu umboði. Umboð Franscescu Albanese er að tala máli mannréttinda og alþjóðalaga, sem er nauðsynlegt á tímum þegar líf Palestínubúa á Gaza er í húfi.“

Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.

Ríki verða að beita þrýstingi á bandarísk stjórnvöld að draga þessar skammarlegu refsiaðgerðir til baka. Sameinuðu þjóðirnar verða einnig að styðja Franscescu Albanese þar sem hún er sjálfstæður sérfræðingur sem var skipuð af mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. 

„Ríkisstjórnir heims og allir aðilar sem trúa á reglukerfi og alþjóðakerfi verða að gera allt sem þau geta til að draga úr og hindra þær afleiðingar sem refsiaðgerðir gegn Franscescu Albanese munu hafa og almennt séð vernda starf og sjálfstæði sérstakra skýrslugjafa.“

Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International