Í tilefni upphafs seinna kjörtímabils George W. Bush sem forseta Bandaríkjanna, hefur Amnesty International sent honum ákall þess efnis að hann leggi sérstaka áherslu á það á sínu seinna kjörtímabili að útrýma pyndingum
Í tilefni upphafs seinna kjörtímabils George W. Bush sem forseta Bandaríkjanna, hefur Amnesty International sent honum ákall þess efnis að hann leggi sérstaka áherslu á það á sínu seinna kjörtímabili að útrýma pyndingum og illri meðferð af hálfu manna í þjónustu Bandaríkjastjórnar, auk þess að virða til fulls alþjóðalög og alþjóðareglur um meðferð og réttarhöld yfir einstaklingum í haldi bandarískra stjórnvalda.
Í ákallinu greinir Amnesty International frá því hvernig vinnubrögð bandarískra stjórnvalda við varðhaldsvistun og yfirheyrslur í “stríðinu gegn hryðjuverkum” hafa gengið gegn meginreglum mannréttinda, sem langan tíma hefur tekið að fá virtar. Einstaklingar í varðhaldsvist og fjölskyldur þeirra hafa mátt líða, lög og regla hefur mátt líða, og orðstír Bandaríkjanna hefur beðið hnekki. Aðferðir bandarískra stjórnvalda og vinnureglur hafa verið öðrum stjórnvöldum slæmt fordæmi, og gert þeim kleift að réttlæta eigin harðstjórn.
Ákallið í heild sinni má nálgast á vefslóðinni: http://web.amnesty.org/library/index/ENGAMR510122005
