Vægðarlaus tilraun bandarískra yfirvalda til að handsama uppljóstrarann Edward Snowden og stöðva tilraunir hans til að sækja um hæli er sorgleg og vítaverð aðför að mannréttindum hans.
Edward Snowden © The Guardian via Getty Images
Vægðarlaus tilraun bandarískra yfirvalda til að handsama uppljóstrarann Edward Snowden og stöðva tilraunir hans til að sækja um hæli er sorgleg og vítaverð aðför að mannréttindum hans.
,,Tilraunir bandarískra yfirvalda til að þrýsta á ríkisstjórnir í því augnamiði að stöðva hælisleit Edward Snowden eru ömurlegar,“ sagði Micheal Bochenek, yfirmaður laga- og stefnumótunarsviðs Amnesty International. ,,Réttur hans til að sækja um hæli er verndaður af alþjóðlegum lögum og hann á ekki að torvelda.“
Amnesty International telur að Edward Snowden eigi á hættu að verða fyrir illri meðferð verði hann framseldur til Bandaríkjanna.
,,Ekkert land getur framselt einstakling til annars lands sé alvarleg hætta á að hann verði fyrir illri meðferð,“ sagði Bochenek. ,,Við vitum um einstaklinga sem hafa verið ákærðir fyrir svipaðan verknað og verið í haldi við aðstæður sem Amnesty International og embættismenn Sameinuðu þjóðanna telja grimmar, ómannúðlegar og niðurlægjandi og í andstöðu við alþjóðalög.“
Æðstu embættismenn Bandaríkjanna hafa nú þegar fordæmt Snowden opinberlega, með yfirlýsingum um að hann sé ekki aðeins sekur heldur einnig svikari. Þessar yfirlýsingar vekja ótta um að hann muni ekki njóta réttlátra réttarhalda. Ennfremur hafa bandarísk stjórnvöld gert sig líkleg til að kæra Snowden fyrir brot á lögum um njósnir. Slík ákæra kæmi í veg fyrir að hann gæti notað lagaákvæði um uppljóstranir sér til varnar.
,,Svo virðist sem bandarísk stjórnvöld séu fyrst og fremst að kæra hann fyrir að svipta hulunni af ólöglegum aðgerðum þeirra og annarra stjórnvalda sem brjóta á mannréttindum,“ sagði Bochenek.
,,Engan ætti að ákæra fyrir það eitt að afhjúpa upplýsingar um mannréttindabrot. Slíkar uppljóstranir eru verndaðar af upplýsinga- og tjáningarfrelsinu.“
Samhliða því að gefa út ákæru á hendur Snowden hafa bandarísk yfirvöld ógilt vegabréf hans og þar með brotið á rétti hans til frjálsrar farar og hælisleitar.
,,Snowden er uppljóstrari. Hann hefur ljóstrað upp um málefni sem tengjast gríðarlega mikilvægum hagsmunum almennings bæði í Bandaríkjunum og annars staðar í heiminum. Í stað þess að ræða þessi málefni eða taka ábyrgð á aðgerðunum eru bandarísk stjórnvöld staðráðin í að handsama uppljóstrarann Edward Snowden.“
Sjá hluta úr viðtali við Micheal Bochenek á þessum tengli:
http://www.youtube.com/watch?v=Nguf55bsyeM
