Á alþjóðlegu AIDS ráðstefnunni í Bankok, Tælandi á síðasta ári, sagði Irene Khan aðalritari Amnesty International í lokaávarpi sínu að alnæmisfaraldurinn væri ‘mannréttindakreppa’. Hér er útdráttur úr ávarpi hennar:
Kynt er undir faraldurinn með vanrækslu við að vernda réttindi og sæmd einstaklinga. Ríkisstjórnir sums staðar leita enn eftir skyndilausnum á alnæmisvandanum, og viðurkenna ekki að mannréttindabrot auka líkurnar á að fólk smitist, auk þess að þeir sem eru með alnæmi mega oft þola gróf mannréttindabrot.
Jafnvel með auknu fjármagni og frekari skuldbindingum í baráttunni gegn alnæmi, breiðist faraldurinn enn frekar vegna þess að ríkisstjórnir neita að setja mannréttindi í brennidepil baráttunnar gegn alnæmi. Hvert sem litið er má sjá að fordómar og misrétti knýja faraldurinn áfram. Hvar sem við lítum eykur alnæmi misrétti sem nú þegar er til staðar, og úr verður banvæn blanda vanrækslu og fordóma.
Þetta á við um farandverkamenn, flóttamenn, minnihlutahópa og frumbyggja, ungt fólk og fatlaða, fanga, vændiskonur, sprautusjúklinga og samkynhneigða. Misrétti gegn konum veldur því að smittíðni meðal kvenna eykst meira en nokkurn tíma fyrr. Kynferðislegt ofbeldi og nauðganir, brot á rétti kvenna til menntunar, fræðslu og eigna, auk úreltra staðalmynda um konur og væntinga til þeirra hrekur þær lengra til jaðars samfélaga og eykur líkur þeirra á smiti.
Í Tælandi viðgengst misrétti og áreitni gegn sprautusjúklingum með vitund og vilja stjórnvalda og slíkt hefur valdið því að þeir hafa leitað úr augsýn heilsugæslunnar, svo að þeir hafa ekki aðgang að nauðsynlegri aðstoð og stuðning til að forðast smit.
Misrétti knýr ekki aðeins faraldurinn áfram, heldur veldur því að þeir sem smitaðir eru af HIV veirunni mega þola stöðug mannréttindabrot.
Vísa má í skyndiaðgerðabeiðni á þessu ári frá Amnesty International þar sem krafist var að kínversk stjórnvöld slepptu fjórum mönnum í Henan héraðinu, sem smitaðir eru af HIV-veirunni, en þeir voru handteknir fyrir að hafa mótmælt óviðunandi heilbrigðis- og félagslegri þjónustu.
Á meðal fanganna voru móðir og faðir sem mótmæltu lokun barnaskóla, sem var stofnaður fyrir börn alnæmissmitaðra foreldra. Skólinn var lokaður eftir að stofnandi þess tilkynnti að hann hygðist sækja alþjóða alnæmisráðstefnuna í Bankok.
Það er nauðsynlegt að vernda og efla mannréttindi til þess að eiga einhverja von á að halda alnæmisfaraldrinum í skefjum og að halda afleiðingum hans í lágmarki.
Í ræðu sinni kallaði Irene Khan á ríkisstjórnir til þess að leiða mannréttindi til öndvegis í baráttunni gegn alnæmi, með því að:
Axla fyllilega ábyrgð sína við að vernda, efla og uppfylla mannréttindi;
hefja lagaumbætur til þess að tryggja jafnan aðgang að heilsugæslu og eyða misrétti;
Styðja við berskjaldaða hópa og fólk sem smitað er af HIV-vírusnum.
Við vitum hversu algengt það er að ríkisstjórnir forðist ábyrgð vegna þess að engar skýrar vísbendingar eru til staðar um með hvaða hætti þær skuli standa við mannréttindaskuldbindingar sínar.
Ef að lagaramma skortir, sem tryggir jafnrétti, þá er hætta á því að við viðhöldum einmitt því misrétti, sem að nærir faraldurinn og magnar afleiðingar hans, þó að aðgangur að viðeigandi forvörnum, meðhöndlun og umsjá sé nauðsynlegur. Það er mjög mikilvægt að fólk sem hefur HIV-vírusinn, og þeir sem mest þjást vegna sjúkdómsins, fái að taka þátt í öllum ráðagerðum til að takast á við alnæmisvandann.
Það er líklega ekki til nein skyndilausn á alnæmisvandanum, en það er til áhrifarík leið í rétta átt. Til að fara þá leið þarf að koma til skuldbinding við að setja mannréttindi í öndvegi í baráttunni við alnæmi.
“Ef baráttan gegn alnæmi á að vera árangursrík, verður hún jafnframt að vera barátta fyrir réttindum og hagsmunum þeirra einstaklinga, sem eru yst á jaðri samfélagsins“ sagði Irene Khan að lokum.
