Barein: Leysið veikan aðgerðasinna úr haldi

Heilsa Dr. Abduljalil al-Singace er í hættu en hann er á sjöunda mánuði hungurverkfalls. Á sama tíma hefur hann ekki fengið að tala við fjölskyldu sína frá því í nóvember 2021. Dr. Abduljalil al-Singace er aðgerðasinni og fræðimaður frá Barein en hann hefur setið í fangelsi í áratug fyrir friðsæla þátttöku í uppreisninni í Barein árið 2011. 

Hann var meðal fjórtán andstæðinga ríkisstjórnarinnar sem voru handteknir í mars 2011 meðan á uppreisninni stóð. Flestir voru handteknir um miðja nótt og færðir á óþekktan stað þar sem þeim var haldið í einangrun í einhverjar vikur. Margir þeirra segjast hafa orðið fyrir pyndingum fyrstu dagana í haldi þegar þeir voru yfirheyrðir af aðilum þjóðaröryggisráðs (NSA). Aðgerðasinnarnir fengu fangelsisdóma sem voru frá tveimur árum til lífstíðar. 

Í júní 2011 var sjálfstæð nefnd í Barein skipuð til að rannsaka  mannréttindabrot  framin í uppreisninni sem stóð yfir í febrúar og mars 2011. Þegar skýrsla nefndarinnar kom út tilkynnti ríkisstjórnin opinberlega að þau ætluðu sér að fara eftir þeim ráðleggingum sem fram komu í henni. Þess í stað hófst áratugalangt tímabil stjórnvalda sem litaðist af undirokun þar sem fjölmiðlar og andspyrnuhópar voru leystir upp og friðsælir aðgerðasinnar voru dæmdir til harðra refsinga.  

SMS-aðgerðasinnar krefjast þess að Dr. Abduljalil al-Singace verði skilyrðislaust leystur úr haldi án tafar og hann fái nauðsynlega læknisþjónustu.