Úrskurður áfrýjunardómstóls í Barein sem staðfesti dóm yfir 13 andófsmönnum og samviskuföngum er svívirðilegur og yfirvöld verða að tryggja að honum sé hnekkt og fólkið leyst úr haldi nú þegar og skilyrðislaust.
Úrskurður áfrýjunardómstóls í Barein sem staðfesti dóm yfir 13 andófsmönnum og samviskuföngum er svívirðilegur og yfirvöld verða að tryggja að honum sé hnekkt og fólkið leyst úr haldi nú þegar og skilyrðislaust.
Áfrýjunardómstóllinn staðfesti sakfellingu og dóm þeirra 13 manna sem voru sakfelldir fyrir herrétti í fyrra fyrir ákærur sem tengdust mótmælum gegn stjórnvöldum.
Amnesty International sendi fulltrúa til að fylgjast með framgangi réttarhaldanna.
„Úrskurður réttarhaldanna í Barein er enn eitt reiðarslagið fyrir réttlæti og sýnir að yfirvöld í Barein stefna ekki í átt að umbótum, heldur virðast þau frekar vera knúin áfram af hefnigirni,“ sagði Hassiba Hadj Sahraoui, aðstoðarframkvæmdastjóri deildar Amnesty International er lýtur að Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku.
Mennirnir þrettán, þar á meðal hinn velþekkti andófsmaður Abdulhadi Al-Khawaja og stjórnarandstæðingurinn Ebrahim Sharif, voru upprunalega dæmdir í allt frá tveggja ára fangelsi til lífstíðar fyrir herrétti í júní 2011. Meðal annars voru þeir ákærðir fyrir að „stofna hópa til að steypa af stóli konungsveldinu og breyta stjórnarskránni“.
Þeir halda allir fram sakleysi sínu.
Farida Ismail, kona Ebrahim Sharif sagði: „Ég bjóst við þessari útkomu þar sem ljóst er að stjórnvöld eru ekki tilbúin að axla ábyrgð – sömu starfshættirnir viðgangast sem fyrr. Það er ekki nægilegur þrýstingur erlendis frá. Hvað gerist næst fer eftir því hvernig alþjóðasamfélagið bregst við… Ljóst er að stjórnvöld okkar eru ekki reiðubúin að sýna réttlæti.“
Dómarnir yfir mönnunum 13 voru fyrst staðfestir í áfrýjunardómstól hersins í september 2011. Þann 30. apríl 2012 úrskurðaði dómstóll að áfrýjun þeirra skyldi tekin fyrir hjá borgaralegum dómstóli. Það ferli hófst 22. maí 2012 og lauk með úrskurðinum í byrjun september 2012.
Þrátt fyrir tilraunir yfirvalda í Barein til að fá alþjóðasamfélagið til að trúa að landið sé á umbótaleið hefur lítið verið gert til að tryggja ábyrgðarskyldu þeirra sem brjóta mannréttindi eða veita fórnarlömbum mannréttindabrota raunverulegt réttlæti.
Mannréttindabrot viðgangast enn og samviskufangar eru á bak við lás og slá.
Amnesty International ítrekaði ákall sitt til yfirvalda um að nú þegar verði hafin sjálfstæð og óháð rannsókn á ásökunum sem sakborningarnir lögðu fram við réttarhöldin um að þeir hafi verið pyndaðir og þurft að þola aðra illa meðferð í varðhaldi, þar á meðal kynferðisbrot, til að þvinga fram játningar hjá þeim.
Fjórtán andófsmenn voru upprunalega handteknir á tímabilinu frá 17. mars til 9. apríl 2011 eftir þátttöku í mótmælum í Manama-borg til stuðnings umbótum í Barein. Einn mannanna var seinna leystur úr haldi.
Margir þeirra hafa staðhæft að þeir hafi sætt pyndingum í yfirheyrslum leyniþjónustunnar fyrstu dagana í varðhaldi. Enginn þeirra fékk að hitta lögfræðing á meðan yfirheyrslum stóð. Sumir fengu að hitta lögfræðinginn sinn þegar þeir voru yfirheyrðir af hersaksóknara áður en réttarhöld hófust. Aðrir fengu fyrst að hitta lögfræðing sinn þegar réttarhöldin hófust í maí 2011 sem var þá einnig í fyrsta sinn sem allir fengu að sjá fjölskyldur sínar frá því þeir voru handteknir.
Nokkrar af ákærunum á hendur þremur sakborninganna voru felldar niður þann 4. september 2012.
Bakgrunnur:
Andófsmennirnir fjórtán, sem voru upprunalega handteknir, eru: Hassan Mshaima’, Abdelwahab Hussain, Abdulhadi Al-Khawaja, Dr Abdel-Jalil al-Singace, Mohammad Habib al-Miqdad, Abdel-Jalil al-Miqdad, Sa’eed Mirza al-Nuri, Mohammad Hassan Jawwad, Mohammad Ali Ridha Isma’il, Abdullah al-Mahroos, Abdul-Hadi Abdullah Hassan al-Mukhodher, Ebrahim Sharif og Salah Abdullah Hubail al-Khawaja.
Al-Hur Yousef al-Somaikh hefur verið sleppt úr haldi þar sem hann var búinn að sitja dóminn af sér eftir að dómstóllinn stytti dóm hans í 6 mánaða fangelsi.
Aðrir samviskufangar, sem eru í haldi í Barein, eru meðal annars: Nabeel Rajab, formaður Mannréttindamiðstöðvar Bareins og framkvæmdastjóri Mannréttindamiðstöðvar Persaflóa. Hann afplánar 3 ára dóm fyrir að boða og taka þátt í ólöglegri samkomu. Ráðgert er að áfrýjun í máli hans hefjist 10. september. Mahdi ‘Issa Mahdi Abu Dheeb, fyrrum formaður kennarasambands Bareins, afplánar 10 ára dóm fyrir herrétti fyrir að boða verkföll kennara, stöðva framgang menntunar og kynda undir hatur í garð stjórnvalda. Engar sannanir sýna fram á að hann hafi beitt eða hvatt til ofbeldis.
