Sú stefna herlögreglu í Ríó
de Janeiro að „skjóta fyrst og spyrja síðar” hefur stuðlað að síhækkandi
morðtíðni í Brasilíu en morðin eru sjaldan
rannsökuð og fáir eru látnir svara til saka, samkvæmt nýrri skýrslu
Amnesty International sem birt er í aðdraganda Ólympíuleikanna í Brasilíu 2016.
Sú stefna herlögreglu í Ríó de Janeiro að „skjóta fyrst og spyrja síðar” hefur stuðlað að síhækkandi morðtíðni í Brasilíu en morðin eru sjaldan rannsökuð og fáir eru látnir svara til saka, samkvæmt nýrri skýrslu Amnesty International sem birt er í aðdraganda Ólympíuleikanna í Brasilíu 2016. Skýrslan, Þú myrtir son minn: Morð herlögreglu í Ríó de Janeiro, leiðir í ljós að a.m.k. 16% allra morða sem voru skrásett í borginni á síðustu fimm árum eru á ábyrgð herlögreglu eða 1.519 morð í heildina.
HÉR MÁ LESA SKÝRSLUNA Í HEILD SINNI.
Sterkar vísbendingar um aftökur án dóms og laga koma fram í skýrslunni en sem dæmi voru níu af tíu morðum sem framin voru í fátækrahverfinu Acari árið 2014 á ábyrgð herlögreglu.
„Ríó de Janeiro er saga tveggja borga. Í aðra röndina er um borg að ræða sem hampar glæsileika og glamúr og á hinn bóginn borg sem er undirokuð af harðneskjulegum lögregluaðgerðum – aðgerðum sem beinast einna helst að kynslóð ungra, fátækra blökkumanna. Misheppnað stríð stjórnvalda gegn eiturlyfjum hefur skilið eftir sig slóð þjáningar og eyðileggingar. Mörg líf glatast í eitraðri blöndu af ofbeldi og illa mönnuðu lögregluliði, í fátækum samfélögum á jaðrinum sem eru vart sýnileg og vegna dómskerfis sem síendurtekið mistekst að framfylgja réttvísinni og tryggja bætur vegna mannréttindabrota,“ segir Atila Roque, framkvæmdastjóri Amnesty International í Brasilíu.
Samkvæmt rannsókn Amnesty International er valdbeiting herlögreglu í fátækrahverfum Ríó de Janeiro oftar en ekki óhófleg, ónauðsynleg og gerræðisleg. Flest fórnarlömb lögreglu sem skráð voru á árunum 2010 til 2013 voru ungir blökkumenn á aldrinum 15 til 29 ára. Morðin eru sjaldnast rannsökuð. Þegar einstaklingur lætur lífið af völdum lögregluaðgerða skrifar lögregluþjónn skýrslu til að ákvarða hvort um sjálfsvörn lögreglu hafi verið að ræða eða hvort lögsókn sé nauðsynleg. Í reynd eru flest dauðsföll af völdum lögregluaðgerða skráð sem „mótspyrna sem leiddi til dauða“ sem kemur í veg fyrir óháða rannsókn og verndar gerendur frá dómstólum. Með því að skrá morð af hálfu lögreglu sem afleiðingu af uppgjöri, jafnvel þegar slíkt átti sér ekki stað, skella yfirvöld skuldinni á fórnarlömbin. Þessarr aðferð er oft beitt til að hylma yfir aftökur án dóms og laga. Þegar lögregla tengir fórnarlambið við glæpagengi styður rannsókn málsins að jafnaði þann vitnisburð lögreglu að um sjálfsvörn sé að ræða.
Amnesty International komst einnig að því að vettvangi glæps er oft breytt – lögreglan færir til líkið og setur vopn eða önnur „sönnunargögn“ við hlið þess. Þegar fórnlambið er talið tengjast ólöglegum viðskiptum með fíkniefni horfir rannsóknin til glæpasögu fórnarlambsins til að réttlæta morðið.
Eduardo de Jesus, tíu ára gamall drengur, var myrtur af herlögreglu þegar hann sat fyrir framan heimili sitt í fátækrahverfinu Complexo do Alemão þann 2. apríl 2015. Samkvæmt móður drengsins, Terezinha Maria de Jesus, gerðist atburðurinn á örfáum sekúndum. „Ég heyrði skothvell og síðan grát…Þegar ég hljóp út úr húsinu sá ég þá hryllilegu sjón að sonur minn var fallinn,“ sagði Terezinha Maria. Þegar hún stóð andspænis röð lögreglumanna sem voru við lík sonar hennar, beindi einn lögreglumannanna byssu að höfði hennar og sagði: „Ég get allt eins drepið þig eins og ég drap son þinn vegna þess að ég drap son ræningja“. Terezinha Maria sagði að strax hafi verið átt við vettvang glæpsins. Lögreglan reyndi að fjarlægja lík Eduardo en nágrannar komu í veg fyrir að það tækist. Einn lögreglumannanna reyndi að koma byssu fyrir við lík Eduardo í þeim tilgangi að bendla drenginn við glæp. Daginn sem Eduardo var myrtur var lögreglumönnunum sem ábyrgð báru á morðinu vikið úr starfi og skotvopn þeirra tekin til réttarrannsóknar. Málið er nú til rannsóknar hjá morðdeild lögreglunnar.
Þetta mál er hins vegar óvenjulegt þar sem raunveruleikinn er sá að flest morðmál lögreglu eru ekki rannsökuð tilhlýðilega og fáir dregnir til ábyrgðar.
Fjölskylda Eduardo hefur þurft að yfirgefa heimili sitt vegna hótana og ótta við hefndaraðgerðir lögreglu.
„Aðferð herlögreglunnar byggist á því að breiða út ótta í fátækrahverfum borgarinnar, m.a. með því að áreita íbúana og hóta aðgerðasinnum en slíkt leysir ekki öryggisvandamál borgarinnar. Það þarf samstillt átak til að draga úr morðtíðni og tryggja að öll mannréttindabrot séu rannsökuð að fullu og hinir seku dregnir til ábyrgðar,“ segir Atila Roque.
Lykilstaðreyndir:
Morðtíðni í Brasilíu er ein sú hæsta í heimi: 56.000 manns voru myrtir árið 2012.
Árið 2012 var 50% allra fórnarlamba morða á aldrinum 15 til 29 ára. Af þeim var 77% blökkumenn.
5,132 morð voru framin af lögreglu í borginni Ríó de Janeiro á árunum 2005 til 2014.
Fjöldi morða, af hálfu lögreglu við störf sín í borginni Ríó de Janeiro, sem skráð voru sem „mótspyrna sem endaði með dauða”, stendur fyrir nærri 16% heildarfjölda morða í borginni undanfarin fimm ár.
Þegar Amnesty International skoðaði stöðu 220 rannsókna á morðum af völdum lögreglu, sem opnað var fyrir árið 2011, kom í ljós að fjórum árum síðar leiddi aðeins ein rannsókn til þess að lögreglumaður var ákærður. Í apríl árið 2015 voru 183 rannsóknir enn opnar.
