Stærsti mannréttindaviðburður heims hefur sannarlega fest sig í sessi.
Stærsti mannréttindaviðburður heims hefur sannarlega fest sig í sessi. Ár hvert fer bréfamaraþon Amnesty International vaxandi. Á síðasta ári söfnuðust rúmlega tvær milljónir bréfa og korta í 143 löndum um heim allan til stuðnings þolendum mannréttindabrota og aldrei fyrr hafa jafn margir Íslendingar lagt bréfamaraþoni Amnesty International lið. Um sex þúsund manns á 14 stöðum á landinu gerðu sér far um að skrifa undir aðgerðakort til yfirvalda, senda kveðjur til þolenda mannréttindabrota og ljá undirskrift sína í sms-neti og netákalli. Fjöldi undirskrifta og undirritaðra aðgerðakorta árið 2013 var hreint ótrúlegur eða 51.219 sem er tvöföldun frá árinu áður. Þar af voru 30.188 fýsískar undirskriftir á aðgerðakort og kveðjur.
Á annan tug bókasafna víðs vegar um landið lögðu bréfamaraþoni samtakanna lið, auk þess sem framúrskarandi einstaklingar á Akureyri, Egilsstöðum, Ísafirði, Höfn í Hornafirði og í Borgarnesi tóku þátt og skipulögðu viðburði sem tókust með stakri prýði. Sömu aðilar standa að bréfamaraþoninu í ár og enn aðrir bætast í hópinn. Fjöldinn allur af framhaldsskólinn lagði samtökunum ennfremur lið með þátttöku sinni í söfnun undirskrifta á aðgerðakort til stjórnvalda sem brjóta mannréttindi. Alls tóku tíu framhaldsskólar þátt í fyrra en árið 2014 verða þeir fimmtán talsins, þar af sex á landsbyggðinni.
Bréfin bera árangur
Á hverju ári eiga sér stað raunverulegar breytingar á lífi þolenda mannréttindabrota vegna undirskrifta þinna og aðgerða í bréfamaraþoni Amnesty! Fólk sem er ranglega fangelsað er leyst úr haldi. Pyndarar eru látnir svara til saka og fólk í fangelsum fær mannúðlegri meðferð. Hér eru aðeins örfá dæmi nefnd um hvernig bréf þín hafa breytt lífi fólks á undanförnum árum.
Fleiri þurfa nú hjálpar þinnar við. Ekki láta þitt eftir liggja á aðventunni í baráttunni fyrir betri heim. Hjálpaðu til. Taktu þátt í bréfamaraþoni Amnesty. Þar geturðu brugðist við vegna 12 áríðandi mála sem þurfa á athygli þinni að halda.
Það hefur aldrei verið einfaldara að taka þátt. Tilbúin bréf til stjórnvalda verða á öllum þeim 19 stöðum á landinu sem bréfamaraþonið fer fram í ár.
Bréfamaraþonið fer fram á skrifstofu Íslandsdeildarinnar laugardaginn 6. desember frá 13 til 18. Notalega jólastemming verður í fyrirrúmi og stórsöngkonan Sigríður Thorlacius mun gleðja gesti með söng og undirspili.
Dagskráin sem fram fer á öðrum stöðum verður kynnt síðar.
Ýmsar góðar fréttir hafa borist af málum þeirra einstaklinga sem Amnesty International hefur barist fyrir á undanförnum árum í bréfamaraþoninu. Hér verða nokkur mál dregin fram:
Tveir hinna rússnesku þremenninga, Vladimir Akimenkov og Mikhail Kosenko, sem handteknir voru á mótmælum á Bolotnaya-torgi í Moskvu og höfðu setið í varðhaldi frá júní 2012 voru leystir úr haldi. Þremenningarnir voru allir ákærðir fyrir að taka þátt í „fjöldaóeirðum“.
Þann 26. nóvember 2013 var kambódíska baráttukonan Yorm Bopha leyst úr haldi gegn tryggingu en hún hafði setið í fangelsi frá 4. september 2012. Yorm Bopha er áköf baráttukona fyrir réttindum samfélags síns í Phnom Penh í Kambódíu.
Tun Aung, leiðtogi, læknir og fjölskyldumaður frá Mjanmar var dæmdur í 17 ára fangelsi eftir óréttlát réttarhöld.Hann var handtekinn eftir að óeirðir brutust út á milli Rakhine búddista og Rohingya múslima í bænum Maungdaw í vesturhluta Mjanmar í júní 2012. Dómur hans var nýverið mildaður og á hann nú eftir að aflplána eitt ár í stað sextán. Mál hans var tekið fyrir á bréfamaraþoni árið 2013.
Í desember 2001 var Maríu Isabel Veliz Franco rænt í Gvatemalaborg. Nokkrum dögum síðar fannst lík hennar. Henni hafði verið nauðgað, hendur og fætur hennar bundnar með gaddavír, hún hafði verið stungin, kyrkt og sett í poka. Andlit hennar var afmyndað eftir hnefahögg, líkami hennar þakinn smáum stungusárum, reipi var utan um háls hennar og neglur voru sveigðar aftur. Úrskurður Mannréttindadómstóls Ameríkuríkja um að yfirvöld í Gvatemala hafi brugðist því að rannsaka hörmulegt morð á unglingsstúlku sendir sterk skilaboð til stjórnvalda um heim allan að ofbeldi gegn konum verður ekki umborið.Málið var sótt af móður Maríu Isabel Veliz Franco, 15 ára stúlku sem var nauðgað, hún pynduð og myrt á grimmilegan hátt í Gvatemala árið 2001. Í úrskurði réttarins í lok júlí kom ekki einungis fram að yfirvöld í Gvatemala hefðu brugðist því að rannsaka morðið heldur einnig að það hafi brugðist því að vinna gegn ofbeldi og mismunun gegn konum sem er rótgróið í menningunni, gegnsýrir samfélagið í Gvatemala og leiddi til þess að brestir voru á rannsókn málsins.
Jabbar Savalan sat í fangelsi í Aserbaídsjan í 11 mánuði fyrir skrif á Facebook. Hann var látinn laus þann 26. desember eftir að forseti landsins náðaði hann. Mál hans var tekið upp á bréfamaraþoninu árið 2011.
Hér má lesa fleiri góðar fréttir af heimasíðu Íslandsdeildar Amnesty International:
http://www.amnesty.is/starfid-okkar/frettir/godar-frettir/nr/2688
http://www.amnesty.is/starfid-okkar/frettir/godar-frettir/nr/2656
