COP27: Ráðstefnan haldin í Egyptalandi þar sem mannréttindi eru fótum troðin

Aðalframkvæmdastjóri Amnesty International, Agnès Callamard, er stödd á loftslagsráðstefnunni COP27 sem haldin er í Sharm El-Sheikh í Egyptalandi dagana 6.-18. nóvember. Amnesty International kallar eftir því að leiðtogar heims sýni opinbera samstöðu með þolendum mannréttindabrota í Egyptalandi og þrýsti á egypsk yfirvöld að láta af áralöngum brotum á mannréttindum.

 Í aðdraganda ráðstefnunnar hafði Agnès Callamard þetta að segja: 

 „Þetta er frekar einfalt. Við erum að renna út á tíma þegar kemur að loftslagsvánni. Glugginn til að halda hækkun hitastigs jarðar undir 1,5°C er að lokast. Ef það markmið næst ekki stendur heimurinn frammi fyrir flóðum, þurrkum og skógareldum sem leiða til fólksflutninga og hungursneyðar auk stríðsátaka og dauða. COP27 er lykiltækifæri til að snúa dæminu við og  því má ekki sóa í sýndarleik  innantómra loforða .“  

„Að takast á við loftslagsbreytingar krefst mikilvægrar skipulagningar og samræmingar. Samningaviðræður mega ekki festast í tæknilegum smáatriðum og missa sjónar af öllu því fólki sem finnur mest fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga.“ 

 Loftslagsváin eru mannréttindakrísa. Það verður að tryggja mannréttindi, þar á meðal tjáningar-, funda- og félagafrelsi, til að hraðar og réttlátar breytingar eigi sér stað í átt að kolefnislausu hagkerfi og aðlögunarhæfu samfélagi. 

Ríki sem þrengja að borgaralegu samfélagieru ekki trúverðug þegar þau segjast ætla að takast á við loftslagsvána. Egypsk yfirvöld hafa gerst sek um að fremja fjölda glæpa samkvæmt alþjóðalögum þeirra á meðal pyndingar, morð og þvinguð mannshvörf. Það er nánast búið að þagga niður í öllum óháðum og gagnrýnum röddum í landinu.“ 

Á loftslagsráðstefnunni leggur Agnès Callamard áherslu á að ríkin á ráðstefnunni: 

  • Setji mannréttindi  í forgrunn allra samningaviðræðna og ákvarðana. Huga þarf sérstaklega að vinnuréttindum og réttindum frumbyggja. 
  • Verndi viðmiðin um að hækkun hitastigs jarðar verði undir 1,5°C með því að uppfæra áætlanir um kolefnislosun fram til ársins 2030 til að tryggja að þau markmið náist. 
  • Skuldbindi sig til að draga hratt úr notkun jarðefnaeldsneytis á sanngjarnan hátt í stað þess að treysta á kolefnismarkaði og leiðir til að eyða kolefni úr andrúmslofti. 
  • Útbúi greinargóða áætlun um að ríkari lönd auki framlag sitt til að fjármagna breytingar og aðlögun vegna loftslagsbreytinga. 
  • Stofni sjóð til að tryggja bætur og stuðning fyrir fólk og samfélög sem sæta mannréttindabrotum vegna tjóns og skaða af völdum loftslagsbreytinga.  
  • Sýni samstöðu með mannréttindasamtökum í Egyptalandi og kalli eftir því að fólk sem er í haldi að geðþótta þar í landi verði leyst úr haldi. 

Amnesty International mun fylgjast vel með því hvernig egypsk yfirvöld koma fram við mótmælendur, umhverfisverndarsinna og mannréttindafrömuði á meðan COP27 stendur yfir og eftir að ráðstefnunni lýkur. Samtökin hafa sóst eftir fundi við egypsk yfirvöld og óskað eftir aðgangi að fangelsum þar sem þúsundir eru haldi af pólitískum ástæðum.

Amnesty International kallar eftir því að ríkin á ráðstefnunni lýsi yfir áhyggjum af ástandi mannréttinda í landinu. Þann 31. október höfðu 118 einstaklingar í höfuðborginni Kaíró verið handteknir í tengslum við hvatningu til mótmæla á meðan COP27 ráðstefnan stæði yfir.  

Skrifaðu undir ákall um að leysa úr haldi mannréttindalögfræðing í Egyptalandi.