Daw Aung San Suu Kyi útnefnd samviskusendiherra Amnesty International

Daw Aung San Suu Kyi, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Mjanmar, var útnefnd samviskusendiherra Amnesty International þann 27. júlí síðastliðinn.

Bono, söngvari U2, tilkynnir útnefningu Aung San Suu Kyi sem samviskusendiherra Amnesty International

 

Daw Aung San Suu Kyi, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Mjanmar, var útnefnd samviskusendiherra Amnesty International þann 27. júlí síðastliðinn. Meðlimir írsku rokkhljómsveitarinnar U2 tilkynntu um útnefninguna.

Söngvari hljómsveitarinnar, Bono, tilkynnti þetta á tónleikum sveitarinnar í Dublin áður en hljómsveitin lék lag sitt „Walk On“, sem hljómsveitin hefur helgað Aung San Suu Kyi á öllum tónleikum sínum á yfirstandandi tónleikaferð.

„Glæpur hennar er sá, að ef kosningar yrðu haldnar myndi hún vinna,“ sagði Bono við tónleikagesti er hann tilkynnti um útnefninguna. „Nú í vikunni ákveður harðstjórnin sem hneppti hana í fangelsi hvort hún á að sitja fimm ár enn í fangelsi. Við megum ekki sitja aðgerðalaus og leyfa að þaggað sé niður í henni. Nú er tími fyrir Sameinuðu þjóðirnar og allt alþjóðasamfélagið að mæla einni röddu: Frelsið Aung San Suu Kyi“.

Tugir Amnesty-félaga stigu á svið með Bono og báru andlitsgrímur af Aung San Suu Kyi frammi fyrir 80.000 tónleikagestum.

 

Framkvæmdastjóri Amnesty International, Irene Khan, sagði við þetta tækifæri að Daw Aung San Suu Kyi væri „tákngervingur vonar, hugrekkis og óþreytandi baráttu í þágu mannréttinda, ekki aðeins í hugum íbúa Mjanmar, heldur almennings um allan heim.

 

 Aung San Suu Kyi

 

Daw Aung San Suu Kyi, sem er leiðtogi Þjóðarhreyfingar í þágu lýðræðis, er í hópi yfir 2.100 manns, sem sitja í fangelsi í Mjanmar um þessar mundir fyrir stjórnmálaskoðanir sínar. Hún hefur setið í fangelsi í 13 af síðustu 20 árum, mestan þann tíma í stofufangelsi.

Stofufangelsi hennar átti að renna út þann 27. maí 2009, en hún var handtekin og leidd fyrir rétt þann 18. maí fyrir að brjóta ákvæði um stofufangelsi. Réttarhöldunum lauk þann 28. júlí og búist er við að dómur verði kveðinn upp innan skamms. Hún gæti átt yfir höfði sér allt að fimm ára dóm, verði hún fundin sek.

 

Vaclav Havel, sem fyrstur var útnefndur samviskusendiherra Amnesty International árið 2003, sagði: „Ég veit af eigin reynslu að athygli alþjóðsamfélagsins getur, að vissu marki, varið þá sem sæta ofsóknum fyrir refsingum sem þeir myndu annars sæta.“

„Þess vegna tilnefndi ég Suu Kyi til friðarverðlauna Nóbel skömmu eftir að ég var kosinn forseti [Tékklands]. Guð veit hvað hefði gerst ef athygli umheimsins hefði ekki verið vakin á hlutskipti hennar þá, eins og nú er aftur gert.“

 

Samviskusendiherraverðlaunin eru helstu verðlaun sem Amnesty International veitir. Þau eru veitt þeim sem sýna einstaka forystu í baráttunni fyrir mannréttindum. Meðal fyrri verðlaunahafa eru Nelson Mandela, Mary Robinson, Peter Gabriel og U2.

 

Gríptu til aðgerða og þrýstu á stjórnvöld í Mjanmar að sleppa Aung San Suu Kyi úr haldi !

 

LESTU MEIRA

Opposition leader’s detention keeps spotlight on Myanmar (News, 1 June 2009)