Dóminíska lýðveldið: lögregluofbeldi útbreitt

Yfirvöld í Dóminíska lýðveldinu verða tafarlaust að gera umbætur innan lögreglunnar til að takast á við útbreidd dráp og pyndingar lögreglu.

Yfirvöld í Dóminíska lýðveldinu verða tafarlaust að gera umbætur innan lögreglunnar til að takast á við útbreidd dráp og pyndingar lögreglu. Um þetta er fjallað í nýrri skýrslu Amnesty International: „Þegiðu ef þú vilt ekki vera drepinn: mannréttindabrot lögreglu í Dóminíska lýðveldinu“
(‘Shut up if you don’t want to be killed’: Human Rights violations by the police in the Dominican Republic ). Þar eru skrásett tugir tilfella þar sem fólk hefur verið drepið, pyndað eða sætt illri meðferð lögreglu. Þessum upplýsingum var safnað í þremur rannsóknarferðum til landsins.

Yfirvöld verða að tryggja að þeir, sem ábyrgir eru fyrir drápum og pyndingum, verði dregnir til ábyrgðar og að stigin verði skref í umbótaátt innan lögreglunnar þannig að venjur og verkferlar, sem gera þessum brotum kleift að þrífast, verði endurskoðaðir.

Yfirvöld halda því fram að einungis nokkrir spilltir eða ófaglegir lögreglumenn séu ábyrgir og að tekið hafi verið á málum þeirra umsvifalaust og þeir látnir sæta ábyrgð, en veruleikinn er allur annar.

Frá janúar til júlí 2011 voru 154 manns drepnir af lögreglu í Dóminíska lýðveldinu samkvæmt ríkissaksóknara landsins. Árið 2010 voru 125 drepnir á sama tímabili.

Tölfræði frá ríkissaksóknara sýnir að 10 prósent allra skráðra morða árið 2010 voru framin af lögreglumönnum. Nokkrir lögreglumenn voru líka drepnir.

Í yfirgnæfandi meirihluta tilfella var um að ræða það sem lögreglan lýsti svo að „skipst hafi verið á skotum“ við grunaða glæpamenn. En í mörgum tilfellum hefur krufning rennt stoðum undir ásakanir um að lögreglan skjóti til að drepa.

Í skýrslu Amnesty International er meðal annars rætt um að verið gæti að lögregla dræpi ungt fólk öðrum til viðvörunar.

Dráp lögreglunnar ætti ekki að verða leið til að leysa vandamál sem sprettur af síbrotamönnum og þannig viðvörun til ungs fólks um að fremja ekki glæpi.

Amnesty International komst einnig að því að grunaðir glæpamenn hafa sætt morðhótunum í varðhaldsvist, þeir lamdir og neitað um mat, vatn og nauðsynleg lyf. Sumir máttu þola að plastpoki var settur yfir höfuð þeirra og voru látnir hanga úr rimlum í handjárnum.

Óttast er að tveir einstaklingar hið minnsta, sem sáust síðast í haldi lögreglu, hafi sætt þvinguðu mannshvarfi.

Einungis lítið brot þessara mála ná til dómstóla eða eru jafnvel rannsökuð.

Lögreglan í Dóminíska lýðveldinu er í mikilli hættu við skyldustörf sín. En Amnesty International telur að athæfi hennar magni einungis ofbeldið og skapi andrúmsloft þar sem mannréttindi eru virt að vettugi.

Eins og einn ungur maður sagði við Amnesty International í október: „Ef þú rænir einhvern og viðkomandi leggur fram kæru, þá leita þeir að þér og skjóta þig án þess að leyfa þér að taka til máls… ég var viðstaddur þegar lögreglan náði vini mínum. Hann var ræningi. Lögreglan var að leita að honum. Dag einn kom lögreglan heim til hans. Hann var í felum annars staðar. Lögreglan sagði: ‚Komdu út, við ætlum ekki að drepa þig, við viljum bara spyrja þig spurninga‘. Þegar hann kom út þá skutu þeir hann tvisvar í höfuðið“ .