Á alþjóðadegi fjölmiðlafrelsis staðfestir Amnesty International að vel þekkt fjölmiðlakona í Dóminíska lýðveldinu hafi verið skotmark njósnahugbúnaðarins Pegasus frá NSO Group. Þetta er fyrsta staðfesta tilfellið þar í landi. Tæknideild Amnesty International skoðaði síma Nuria Piera og staðfesti að Pegasus-njósnahugbúnaður hefði verið komið fyrir í símann hennar með fullum aðgangi að öllu tækinu á árunum 2020-2021. Piera er rannsóknarfjölmiðlakona sem hefur beint sjónum sínum að spillingu og refsileysi í Dóminíska lýðveldinu á löngum ferli sínum.
Með þessari uppgötvun er ljóst að minnsta kosti 18 lönd eru með staðfest tilfelli þar sem fjölmiðlafólk hefur verið skotmark njósnahugbúnaðarins. Að öllum líkindum er misnotkun á njósnahugbúnaðinum enn meiri. Dóminíska lýðveldið er þriðja landið í Norður- og Suður- Ameríku, ásamt Mexíkó og El Salvador, sem Amnesty International hefur staðfest að Pegasus hafi verið beitt gegn mannréttindafrömuðum og fjölmiðlafólki.
Skotmark eftirlits
Nuria Piera sagði Amnesty International að hún hefði verið að vinna að viðkvæmri og stórri rannsókn á þeim tímum sem Pegasus-búnaðinum var komið fyrir í síma hennar. Hún var að rannsaka spillingu sem tengdist háttsettu embættisfólki og ættingjum fyrrum forseta landsins. Nokkrum mánuðum síðar voru þessi einstaklingar sóttir til saka fyrir mútur og önnur brot.
Piera fékk aðeins staðfestingu á að hún hefði verið skotmark Pegasus frá tæknideild Amnesty International. Hún fékk engan réttarúrskurð eða formlega tilkynningu frá yfirvöldum í landinu um að hún væri undir eftirliti eða ástæðu fyrir eftirliti.
Þessi ágenga tækniaðferð er einkum skaðleg fjölmiðlakonum sem standa oft frammi fyrir kynbundnum árásum eins og ásökunum um að brjóta hefðbundnar staðalmyndir kynja og samfélagsreglur.
„Ég verð að passa mig að verða ekki taugaveikluð, sérstaklega þegar mig grunar um einhver sé með upplýsingar um mig. Þetta er eins og kviksyndi. Þetta hefur áhrif á skynjun á frelsi, á frelsi til að tjá eigin skoðanir. Stundum veit ég ekki einu sinni hvernig er verið að reyna að skaða mig, hvort það beinist að mér eða mínum nánustu. Ég finn því til ábyrgðar sem er það alvarlegasta.“
Nuria Piera, fjölmiðlakona í Dóminíska lýðveldinu.
Eftirlit og fjölmiðlar í Dóminíska lýðveldinu
Sem hluti af rannsókn Amnesty International var rætt við fjölda fjölmiðlafólks og mannréttindafrömuði í Dóminíska lýðveldinu. Flest þeirra höfðu grunsemdir um að hafa verið undir eftirliti yfirvalda vegna starfa sinna en töldu að hefðbundnar leiðir, líkt og hlerunarbúnaður, hefðu verið notaðar.
Skortur á gagnsæi um eftirlit og njósnahugbúnað gerir þolendum erfitt um vik að fá upplýsingar eða leita réttar síns. Í Dóminíska lýðveldinu eru engar leiðir í boði til að leita réttar síns vegna ólögmæts eftirlits.
Fjölmiðlafólk í Dóminíska lýðveldinu sem rannsakar spillingu er einnig í aukinni hættu á rógsherferð. Edith Febles, vel þekkt fjölmiðlakona sem uppgötvaði spillingu hjá fyrrum ríkissaksóknara, sagði Amnesty International að hún hefði reglulega orðið fyrir árásum á samfélagsmiðlum sem virtust vera skipulagðar gegn störfum hennar.
„Fjölmiðlafólk á ekki að þurfa að þola slíkar aðgerðir, sem eru til þess ætlaðar að grafa undan orðum þess, draga úr möguleikanum að fólk komist að því hvað sé í gangi, þar sem vandamálið er ekki sjálft fjölmiðlafólkið.“
Edith Febles, fjölmiðlakona í Dóminíska lýðveldinu.

Ólögmætt eftirlit með njósnahugbúnaði
Ólögmætt eftirlit með notkun njósnahugbúnaðar sem beinist að ákveðnum einstaklingum brýtur á réttinum til einkalífs og getur leitt til annarra mannréttindabrota eins og brots á tjáningar-, funda- og félagafrelsi. Notkun njósnahugbúnaðar gegn fjölmiðlafólki og mannréttindafrömuðum án gagnsæis og annarra fyrirvara veldur ótta og hefur hrollvekjandi áhrif á getu þeirra til að starfa sjálfstætt. Að hafa eftirlit með fjölmiðlafólki og mannréttindafrömuðum með þessum hætti vegna starfa þeirra er ekki í samræmi við alþjóðalög.
Ólögmætt eftirlit getur haft veruleg áhrif á andlega heilsu fólks sem fyrir því verða. Það getur leitt til þess að einstaklingar sem gruna að þeir séu undir eftirliti verði tortryggnir og takmarki samskipti við annað fólk, þrengir hópinn sem það umgengst, forðist ákveðna staði og jafnvel skipti um skóla eða húsnæði vegna ótta um að ástvinir verði fyrir árásum vegna starfa þeirra.
Eftirlit með einni manneskju getur orðið til þess að upp komist upplýsingar um fólk í tengslaneti hennar og getur sett velferð samstarfsfélaga, vina, ættingja og heimildarfólks í hættu. Þar af leiðandi getur ólögmætt eftirlit haft áhrif á heilsu fólksins sem umgengst einstaklinga undir eftirliti.
NSO Group sem selur Pegasus-njósnabúnaðinn staðhæfir á vefsíðu sinni að vörur þeirra séu aðeins seldar til leyniþjónustu og öryggissveita yfirvalda fyrir baráttuna gegn glæpum og hryðjuverkum. Þessi staðhæfing er ekki í samræmi við opinberun á notkun Pegasus gegn fjölmiðlafólki.
Ítarefni
Hlustaðu á hlaðvarp Íslandsdeildar Amnesty International um fjölmiðlafrelsi.
Um þáttinn:
Fjölmiðlafrelsi til umræðu og staða þess skoðuð, sérstaklega hérlendis. Samkvæmt skýrslu Samtakanna, Blaðamenn án landamæra, fyrir árið 2021, búa blaðamenn við hömlur í tæplega þremur af hverjum fjórum þeirra 180 ríkja sem rannsóknin nær til. Ísland er í 16. sæti á lista yfir fjölmiðlafrelsi í ríkjum heimsins samkvæmt matskvarða Blaðamanna án landamæra. Ísland hefur verið að færast niður listann síðastliðin ár. Rætt verður við Hjálmar Jónsson, fyrrum formann Blaðamannafélagsins um stöðu tjáningarfrelsis hérlendis og Erlu Hlynsdóttur, aðstoðarritstjóra DV sem hefur þrisvar leitað til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna starfa sinna.
