Á alþjóðlegum degi til stuðnings þolendum pyndinga, þann 26. júní, vekur Amnesty International athygli á máli vændisfólks í Dóminíska lýðveldinu sem þurfa að þola pyndingar af hálfu lögreglu. Amnesty International gaf út skýrslu fyrr á þessu ári þar sem skráðar voru sögur 46 vændiskvenna, þeirra á meðal trans kvenna.
Skýrslan sýnir að vændiskonur í Dóminíska lýðveldinu séu algeng skotmörk lögreglunnar sem beita þær pyndingum og annarri illri meðferð af kynferðislegum toga. Amnesty International þakkar þeim hugrökku konum sem miðluðu sögum sínum og vonar að athygli að málum þeirra styðji við baráttu þeirra fyrir að fá að lifa með reisn, að þær njóti réttlætis og verndar.
„Þeir voru þrír. Ég var úti á götuhorni að bíða eftir viðskiptavinum.og þeir misnotuðu mig. Þeir drógu mig inní lögreglubíl. Þeir sáu að enginn var í augsýn. Þeir byrjuðu að káfa á mér, taka mig úr fötunum. Þeir rifu blússuna mína. Hver á fætur öðrum. „Ég er fyrstur“ sagði einn á meðan hinir biðu eftir að komast að. Síðan hófust misþyrmingar og ég var neydd til að gera hluti sem ég vildi ekki gera.“
Vændiskona sem eitt kvöldið var hópnauðgað af lögreglunni í Santó Dómingó.
Vitnisburðurinn er til marks um þann raunveruleika sem vændiskonur búa við þar sem lögreglan nauðgar, pyndar og niðurlægir þær ítrekað í „refsingarskyni“ fyrir að fylgja ekki hefðbundnum samfélagslegum hugmyndum um kvenleika og kynhneigð og misnotar þar með vald sitt.
„Ég var hrædd. Ég var ein. Ég gat ekki varið mig. Ég varð að leyfa þeim að fá sínu framgengt. Þeir hótuðu að drepa mig ef ég gerði það ekki.“
Ef aðeins er litið til ársins 2017 í Dóminíska lýðveldinu voru 6.300 tilkynningar um kynferðisbrot, þar af 1.290 nauðganir. Árið 2018 voru í það minnsta 100 konur myrtar vegna kyns síns (e. femicide).
Karlrembumenning innan lögreglunnar, ofan á mikla félagslega útskúfun og mismunun gagnvart vændisfólki, hefur þau áhrif að lögreglan misnotar vald sitt með ólögmætum hætti. Lögreglunni er sjaldan refsað. Fáar vændiskonur kæra glæpi til lögreglunnar þar sem þær óttast að þeim verði refsað eða þær niðurlægðar. Þær sem tilkynna um að brotið hafi verið gegn sér eru sjaldan teknar alvarlega.
„Ef þú ert í vændi, þá lítur lögreglan á þig sem konu af „verstu sort“. Þeir toga í hárið þitt, slá þig og hrinda þér. Þeir fara með okkur eins og hunda. Þeir kalla okkur „skítugar hórur“, það þykir eðlilegt.“
Mannréttindasinnar
Sumar vændiskonur eru einnig baráttukonur fyrir mannréttindum í Dóminíska lýðveldinu þar sem þær berjast fyrir réttindum sínum. Þær eru þó oft útilokaðar frá mannréttinda- og kvenréttindahreyfingum vegna þess að þær eru í vændi.
„Ofbeldi í landinu beinist einna helst að konum, ef við kærum mann sem misþyrmir okkur þá er ekkert gert. Hann gæti þess vegna drepið okkur. Þetta þarf að breytast. Ofbeldi gegn konum og vændisfólki á ekki að viðgangast.“
Jaðarhópar
Vændiskonur sem tilheyra fleiri en einum jaðarhópi, eins og trans konur eða konur af afrískum uppruna, sæta sérstaklega illri meðferð ef þær fylgja ekki hefðbundnum samfélagsvenjum.
Trans vændiskonur greindu meðal annars frá fjölmörgum dæmum um að lögreglan fjarlægi og brenni hárkollur þeirra í þeim tilgangi að niðurlægja þær. Einnig eru dæmi um að þær hafi verið neyddar til að þrífa saurug fangelsisklósett.
„Þeir sögðu að ég væri maður, „helvítis hommi, hommi frá helvíti“. Með klámfengum orðum sögðu þeir: „Horfðu á þessi brjóst úr svömpum, taktu af henni hárið, taktu af henni þessi föt sem hún er í yfir brjóstin.“ Þeir girtu niður mig buxurnar til að skoða hvort ég væri með kvensköp eða getnaðarlim.“
Trans kona sem lýsir samskiptum sínum við lögregluna í Dóminíska lýðveldinu.
Til að tryggja það að vændiskonur njóti mannréttinda þurfa stjórnvöld í Dóminíska lýðveldinu að:
- Skilgreina nauðganir lögreglumanna sem pyndingar og tryggja að þeir verði dregnir til ábyrgðar
- Samþykkja lög um bann við mismunun og innleiða aðrar aðgerðir til að vernda og stuðla að réttindum jaðarsettra hópa.
Hægt er að styðja við þetta mál með því að skrifa undir netákall Íslandsdeildar Amnesty International. Við hvetjum sem flesta til að skrifa undir og krefja stjórnvöld í Dóminíska lýðveldinu að tryggja að vændisfólk njóti mannréttinda.
