Amnesty International bárust nýverið þær stórkostlegu fregnir að Vladimir Akimenkov hefur verið leystur úr haldi.
Vladimir Akimenkov leystur úr haldi
Þremenningarnir frá Bolotnaya-torgi
Amnesty International bárust nýverið þær stórkostlegu fregnir að Vladimir Akimenkov hefur verið leystur úr haldi. Hann er einn rússnesku þremenninganna sem voru handteknir á mótmælum á Bolotnaya-torgi í Moskvu og hafa setið í varðhaldi frá júní 2012. Þremenningarnir voru ákærðir fyrir að taka þátt í „fjöldaóeirðum“.Varðhaldsvistin hefur haft slæm áhrif á heilsu þeirra og var Vladimir Akimenkov við það að missa sjón þegar honum var sleppt úr haldi.
Við þökkum öllum þeim fjölmörgu Íslendingum sem sendu bréf til ríkissaksóknara Rússlands og þrýstu á um tafarlausa og skilyrðislausa lausn þremenninganna. Bréf ykkar bjarga lífi!
Ksenia Kosenko, systir Mikhail Kosenko, eins af mótmælendunum á Bolotnaya-torgi, setti eftirfarandi skilaboð á Facebook-síðu sína þann 27. nóvember 2013:
„Fór í dag og heimsótti Misha. Í hreinskilni sagt leit hann ekki vel út og það var ljóst að heilsu hans var ábótavant…Nýlega fékk han send bréf frá Bretlandi þar sem einhver hafði skrifað til hans á nokkrar línur á rússnesku honum til stuðnings. Bréfið var ekki alveg rétt stafsett en skrifað af kostgæfni. Hann sagði mér frá því og brosti örlítið. Ég talaði við hann og reyndi að gleðja hann. Ég sagði honum frá margvíslegum stuðningsaðgerðum og aðgerðum Amnesty International í desember þar sem fólk hvaðanæva að úr heiminum skrifar bréf til stuðnings Bolotnaya-föngunum…Vinsamlegast haldið áfram að styðja þremenningana. Bréf ykkar, kort og stuðningskveðjur eru þeim mjög mikilvæg.”
Bráðabirgðalausn kambódísku baráttukonunnar Yorm Bopha
Þann 26. nóvember 2013 var kambódíska baráttukonan Yorm Bopha leyst úr haldi gegn tryggingu en hún hafði setið í fangelsi frá 4. september 2012. Yorm Bopha er áköf baráttukona fyrir réttindum samfélags síns í Phnom Penh í Kambódíu. Lausn hennar var ákaft fagnað af fjölskyldu hennar og 400 stuðningsaðilum sem biðu fyrir utan hæstarétt landsins þegar Yorm Bopha var leyst úr haldi. Lausn hennar er mikilvægt skref en Amnesty International lýsir yfir vonbrigðum með að lausn hennar er aðeins til bráðabirgða. Hæstiréttur vísaði máli hennar aftur til áfrýjunardómstóls til endurupptöku. Í Kambódíu getur það tekið marga mánuði. Það eru vonbrigði að málarekstri gegn henni er ekki lokið.
Yorm Bopha lét eftirfarandi orð falla þegar hún var leyst úr haldi þann 26. nóvember síðastliðinn:
„Ég vil þakka öllum Amnesty-félögum fyrir stuðninginn! Barátta ykkar hefur skilað árangri eins og lausn mín sannar! En máli mínu er ekki lokið enn. Vinsamlegast haldið áfram að þrýsta á stjórnvöld í Kambódíu…Og mér þætti vænt um ef þið hélduð stuðningi ykkar við mig og annarra í Kambódíu áfram! Við náum mestum árangri ef við erum sameinuð”.
Miriam López
Kveðja frá Miriam López
Mál Miriam López frá Mexíkó var einnig tekið upp á bréfamaraþoninu 2013 en hún sætti pyndingum og var ítrekað nauðgað af hermönnum í Tijuana. Þeir þvinguðu hana til að skrifa undir falska yfirlýsingu þar sem hún var bendluð við fíkniefnamál. Í framhaldi var hún send í varðhald en var leyst úr haldi án ákæru sjö mánuðum síðar.
Þrátt fyrir að Miriam hafi borið kennsl á nokkra af ódæðismönnunum hefur enginn þeirra verið dreginn til ábyrgðar vegna pyndinganna og kynferðisofbeldisins sem hún þurfti að þola.
Hún sendi frá sér eftirfarandi kveðju þann 29. nóvember 2013:
„Sæl verið þið. Það hefur veitt mér ómældan styrk að fá svo margar stuðningskveðjur. Ég þakka ykkur öllum heilshugar fyrir að styðja svo vel við baráttu mína. Ég veit að hver undirskrift, barátta ykkar og stuðningur mun stuðla að því að ég nái því fram sem ég þrái – réttlæti! Af öllu hjarta vil ég þakka hverju og einu ykkar”.
Miriam López skrifaði jafnframt eftirfarandi á Facebook-síðu sína þann 4. desember 2013 :
„Ég fékk sent myndbrot í innhólfið mitt á Facebook sem hreyfði mjög við mér – það er ótrúlegt að finna svona mikinn stuðning frá ólíkum löndum og menningarsvæðum og að fólk sem ekki þekkir mig standi með mér í baráttu minni. Ég þakka ykkur af öllu hjarta og vona að bráðlega geti ég fært ykkur góðar fréttir varðandi mál mitt. Hér deili ég myndbandinu. Þúsund þakkir“
Hakan Yaman
Kveðja frá Hakam Yaman
Tyrkinn Hakam Yaman sætti lögregluofbeldi og var brenndur, barinn og skilinn eftir til að deyja í Istanbúl þann 3. júní 2013.
Hann sendi þessa kveðju þann 3. desember 2013.
„Ég sá myndirnar sem var varpað á Çağlayan dómshúsið og Galata turninn.Ómældur stuðningur ykkar og allt sem þið hafið gert hefur aukið baráttuþrek mitt. Ég þakka þér og ykkur öllum mjög mikið, sem hafið stutt við bakið á mér á þessum erfiðu tímum. Von mín er sú að réttlætið nái fram að ganga. Hakan Yaman.”
Kveðja frá forsvarskonu baráttusamtakanna COFADEH í Hondúras
Bertha Olivia er í forsvari fyrir baráttusamtökin COFADEH í Hondúras en þau eru samtök ættingja fanga og horfinna einstaklinga í landinu. Samtökin beita sér meðal annars fyrir þjálfun baráttufólks fyrir mannréttindum og krefjast réttlætis vegna núverandi mannréttindabrota öryggissveita og „mannshvarfa“ sem áttu sér stað á níunda áratug síðustu aldar.
Hugrekki þeirra hefur stefnt þeim í mikla hættu. Bertha lét eftirfarandi orð falla þann 10. desember 2013:
„Mér þykir stórkostlegt að sjá hvaða áhrif baráttan hefur nú þegar. Þetta sýnir að baráttan hefur náð vissu stigi. Fólk hefur heyrt af baráttu ykkar frá fjölmiðlum og það hringir í mig og sendir mér kveðjur. Fólk frá Írlandi hefur jafnvel haft samband við mig í tengslum við herferðina og beðið mig um viðtal til að ræða aðgerðir Amnesty.“
Ihar Tsikhanyuk þakkar Amnesty stuðninginn
Ihar Tsikhanyuk er samkynhneigður maður frá Hvíta-Rússlandi. Hann sætti barsmíðum af hálfu lögreglu vegna kynhneigðar sinnar. Mál hans var tekið upp á bréfamaraþoni Amnesty International 2013.
Hann lét eftirfarandi orð falla í heimsókn sinni til Amnesty deilda í Úkraínu og Frakklandi:
„Þegar ég á eftir að upplifa stundir vonleysis og uppgjafar mun ég lesa öll þessi skilaboð og þau eiga eftir að veita mér styrk til að halda baráttunni áfram (hann las 600 stuðningskveðjur á Facebook síðu frönsku deildarinnar). Upplifun mín af fundi með frönskum aðgerðasinnum var frábær! Ég á engin orð til að lýsa því. Fundirnir voru mjög áhugaverðir. Þeir gáfu mér mikinn styrk og hugrekki til að halda áfram baráttunni fyrir réttlæti í eigin landi. Ég dáist að vinnu þeirra…Ég er mjög þakklátur öllum þeim sem hafa látið sig vandamál samkynhneigðra og LGBT-samfélagsins í Hvíta-Rússlandi varða! Ég þakka öllum fyrir stuðninginn og kveðjurnar. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur og fyrir mig persónulega. Þegar ég eygi enga von fæ ég sent bréf og það blæs mér í brjóst baráttuhug og kveikir ljós vonar að nýju. Trúin á sjálfan mig og möguleikann til að breyta einhverju kemur á nýjan leik. Þakka ykkur öllum!”
