Ástralski blaðamaðurinn Peter Greste og samstarfsmenn hans hjá Al Jazeera fréttastöðinni, Mohamed Fahmy og Baher Mohamed, voru handteknir í Egyptalandi í desember á síðasta ári.
Ástralski blaðamaðurinn Peter Greste og samstarfsmenn hans hjá Al Jazeera fréttastöðinni, Mohamed Fahmy og Baher Mohamed, voru handteknir í Egyptalandi í desember á síðasta ári. Allir þrír voru ákærðir á grundvelli hryðjuverkalaga í landinu og gefið að sök að flytja villandi fréttir af stjórnmálaástandinu í Egyptalandi. Mál þeirra var tekið upp í netákalli Íslandsdeildar Amnesty International í fyrra. Nýlega var Peter Greste leyft að yfirgefa Egyptaland.
„Fréttir um að Peter Greste hafi loks verið leyft að yfirgefa Egyptaland eftir rúmt ár í fangelsi er kærkominn léttir, en ekkert bætir þó fyrir raunir hans. Það er nauðsynlegt að fögnuður í kringum brottför hans leiði ekki til þess að Baher Mohamed og Mohamed Fahmy, sem sitja enn bak við lás og slá í Tora-fangelsinu í Kaíró, gleymist,sagði Hassiba Hadj Sahraoui, varaframkvæmdastjóri Miðausturlanda- og Norður-Afríkudeildar Amnesty International.
Peter Greste, sem er ástralskur ríkisborgari, og Mohamed Fahmy, sem er með egypskan og kanadískan ríkisborgarétt, höfðu sótt um brottvísun á grundvelli nýrrar egypskrar löggjafar sem gefur leyfi til að senda erlenda ríkisborgara til heimalands síns og koma fyrir rétt þar eða sitja dóm af sér í tilfellum þegar„hagsmunum ríkisins er best borgið.“ Handtöku mannanna hefur verið mótmælt víða um heim.
Sakfelling mannanna þriggja var dregin til baka 1. janúar 2015 af hæstarétti í Egyptalandi (Court de Cassation) á grundvelli tæknilegra ástæðna en þeir voru áfram í haldi er þeir biðu nýrra réttarhalda. Mennirnir þrír fengu allir 7 ára fangelsisdóm fyrir villandi fréttaflutning og fyrir aðild að múslímska bræðralaginu sem er bannað með lögum.
Baber Mohamed á þrjú ung börn. Hann missti af fæðingu yngsta sonar síns í ágúst 2014 þar sem hann sat í fangelsi.
Þar sem Mohamed Fahmy er með egypskan og kanadískan ríkisborgararétt eru vonir um að honum verði vísað úr landi til Kanada.
„Mennirnir þrír hafa þurft að þola falskar ákærur og farsakennd réttarhöld sem voru uppfull af misfellum. Áframhaldandi varðhald Baher Mohamed og Mohamed Fahmy er algjörlega óréttmætt og ástæðulaust,“ sagði Hassiba Hadj Sahraoui.
Fréttir af brottvísuninni koma nokkrum vikum eftir að samkomulag náðist milli yfirvalda í Egyptalandi og Katar eftir hatrammar deilur.
„Það er orðið nokkuð ljóst að blaðamennirnir hafa verið notaðir sem pólitísk peð í deilum milli yfirvalda Egypta og ríkisstjórnar Katar sem á Al Jazeera. Það er óásættanlegt að spilað hafi verið með líf mannanna á þennan hátt,“ sagði Hassiba Hadj Sahraoui.
Amnesty International heldur áfram að kalla eftir því að ákærur mannanna verði felldar niður en samtökin hafa, síðan þeir voru handteknir í desember 2013, kallað eftir því að mennirnir þrír verði leystir úr haldi tafarlaust og án allra skilyrða.
