Egyptaland: Þrír blaðamenn handteknir af geðþótta

Þann 29. nóvember 2019 handtóku óeinkennisklæddir lögreglumenn blaðamennina Solafa Magdy, Hossam el-Sayed og Mohamed Salah á kaffihúsi í Kaíró höfuðborg Egyptalands. Farsímar þeirra, tölvur og bílar voru gerð upptæk. Degi síðar voru blaðamennirnir úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna rannsóknar á ákærum á hendur þem. Solafa og Mohamed eru ákærð fyrir „að ganga í hryðjuverkahóp“ og „dreifingu á fölskum fréttum“ á meðan Hossam er ákærður fyrir „félagaaðild að hryðjuverkasamtökum“. Leynilögreglumenn hafa beitt Solafa barsmíðum fyrir að neita að veita aðgang að farsíma sínum. Saksóknarinn framlengdi síðan varðhald þeirra um 15 daga á meðan rannsókn stæði yfir.

Skráðu þig í sms-aðgerðanetið hér! Sendu svo AKALL í númerið 1900 til að skrifa undir málið.

Amnesty International telur að Solafa, Hossam og Mohamed séu samviskufangar í haldi einungis vegna vinnu sinnar sem blaðamenn og fyrir að verja fórnarlömb mannréttindabrota.

Mynd tengist ekki fréttinni beint: Samviskufanginn og fjölmiðlaljósmyndarinn Mahmoud Abu Zeid í réttarhöldum árið 2018 í Egyptalandi.

Við fyrstu yfirheyrslur spurðu leynilögreglumenn blaðamennina um fyrri störf þeirra sem blaðamenn, yfirmenn og laun ásamt því að spyrja út í vin þeirra Esraa Abdelfattah, blaðamann og aðgerðasinna sem er einnig í haldi. Þau eru nú öll í fangelsi og bíða niðurstöðu rannsóknar mála sinna.

Síðan al-Sisi forseti Egyptalands tók við völdum hafa yfirvöld lokað a.m.k. 515 vefsíðum, lokað eða ráðist inn á a.m.k. átta skrifstofur fjölmiðla og handtekið af geðþótta fjöldan allan af blaðamönnum. Amnesty International hefur skráð hjá sér nöfn a.m.k. 37 blaðamanna sem handteknir hafa verið frá árinu 2014. Af þeim hafa a.m.k. 20 verið teknir haldi einungis fyrir vinnu sína sem blaðamenn.

Handtökurnar áttu sér stað í kjölfar stærstu mótmæla gegn ríkisstjórn al-Sisi forseta þann 20. og 21. september 2019. Amnesty International hefur fjallað um hvernig egypskar öryggissveitir hafa handtekið fjöldan allan af friðsamlegum mótmælendum, þar á meðal allra helst blaðamenn, mannréttindalögfræðinga og aðgerðasinna til þess að þagga niður í þeim. Samkvæmt egypskum mannréttindalögfræðingum hafa yfirvöld handtekið a.m.k. 4000 manns sem hafa tekið þátt í eða sýnt stuðning við mótmælin. Yfirvöld hafa krafist varðhalds yfir a.m.k. 3715 manns á meðan rannsóknir yfir „hryðjuverka ákærum“ fara fram í stærstu fjölda glæparannsókn tengda mótmælum í sögu Egyptalands.

SMS-félagar krefjast þess að Solafa, Hossam og Mohamed verði umsvifalaust leyst úr haldi án skilyrða.

Við krefjumst þess einnig að þau fái aðgang að lögfræðingi, fjölskylduheimsóknum og læknisaðstoð ásamt því að þau sæti ekki pyndingum né annarri illri meðferð meðan þau eru í haldi.

Við krefjumst þess að lokum að egypsk yfirvöld leysi úr haldi alla þá sem stija í fangelsi fyrir störf sín sem blaðamenn og fyrir það eitt að nýta rétt sinn til tjáningarfrelsis.