Egyptaland: Myrkasti dagur landsins

Nú, einu ári frá því að egypskar öryggissveitir myrtu yfir 600 mótmælendur á einum degi, hefur ekki einn einasti öryggissveitarmaður verið ákærður. Á sama tíma hefur egypska refsivörslukerfið unnið hratt við að handtaka, ákæra og dæma meinta fylgjendur Morsi, eftir ranglát hópréttarhöld.

Nú, einu ári frá því að egypskar öryggissveitir myrtu yfir 600 mótmælendur á einum degi, hefur ekki einn einasti öryggissveitarmaður verið ákærður. Á sama tíma hefur egypska refsivörslukerfið unnið hratt við að handtaka, ákæra og dæma meinta fylgjendur Morsi, eftir ranglát hópréttarhöld. Alls hafa 232 hlotið dauðadóm og rétturinn hefur mælt fyrir um að yfir þúsund aðrir fái sama dóm.

Rannsakandi Amnesty International í Egyptalandi, Mohamed Elmessiry, varð vitni að fjöldamorðunum á Raba al-Adaweya torginu og hefur síðan þá barist fyrir réttlæti. Hér kemur frásgögn hans.

Ég vaknaði við símtal klukkan 7:00: „Þetta er byrjað“.

Þetta var dagurinn sem ég hafði óttast síðan að mótmælin hófust þann 28. júní 2013. Eftir einn og hálfan mánuð var þolinmæði egypsku öryggissveitanna á þrotum. Ég hringdi í tengilið minn sem var á torginu. „Handahófskenndri skothríð rignir yfir okkur,“ sagði hann mér. „Öryggissveitirnar eru að brjóta á bak aftur mótmælasetuna á Rabaa Al-Adaweya og Nahda torgunum.“ Ég heyrði skothríðina í bakgrunninum.

Ég flýtti mér, ásamt samstarfsfélaga mínum frá Amnesty International, að mótmælunum á Rabaa. Við reyndum að komast að þeim úr öllum áttum en táragas og skothríð varnaði okkur inngöngu. Við reyndum að fara um Nasr-götu sem var álitin örugg af innanríkisráðuneytinu, en þar flugu einnig byssukúlurnar yfir. Slasað fólk lá í blóði sínu á götunni, og var dregið inn í dyragættir þar sem læknar reyndu að hlúa að þeim særðu.

Um klukkan ellefu gengum við inn í al-Salam moskuna á einni hliðargötunni nálægt Rabaa. Moskunni hafði verið breytt í svæðissjúkrahús. Það voru að minnsta kosti átta lík, allir höfðu látist af völdum byssuskots í höfuðið eða bringuna. Á nokkurra mínútna millibili var komið inn með ný tilfelli, þar sem flestir höfðu fengið skot í höfuðið eða efri hluta líkamans. Mörgum þeirra blæddi út á fimm til tíu mínútum og var komið fyrir í horni moskunnar hjá hinum líkunum.

Einn af mótmælendunum hafði borið lík vinar síns. Hann sagði okkur hvernig hafði verið ráðist á þá. „Öryggissveitirnar sýndu okkur enga miskunn. Þeir skutu táragasi og gúmmíkúlum á okkur fyrstu 45 mínúturnar, og hófu þá að beita skotvopnum handahófskennt á okkur. Þeir skutu jafnvel á þá sem voru að reyna að hlúa að þeim slösuðu. Hvaða trúarbrögð segja þér að skjóta og drepa saklaust fólk?!“.

Ég man eftir öðrum manni, rétt rúmlega tvítugum, sem var borinn inn í moskuna eftir að hafa verið skotinn í andlitið. Blóðið lak úr munni og nefi hans þar til hann lést. Nokkrum mínútum eftir að hann lést hringdi móðir hans. Hún rétt missti af því að geta talað við hann í síðasta sinn.

Frá al-Salam reyndum við að færa okkur til næsta sjúkrahúss en hermenn hindruðu okkur. „Þetta er ekki rétti tíminn“ sögðu þeir.

Það var ekki fyrr en daginn eftir sem ég áttaði mig á umfangi blóðbaðsins. Það kom í ljós þegar ég heimsótti líkhúsið, sjúkrahúsin og al-Iman moskuna þar sem farið var með mörg líkin frá Rabaa.

Lögreglan staðhæfir að hún hafi getað gert greinarmun á friðsamlegum mótmælendum og ofbeldisfullum. „Faratæki okkar eru mjög hátæknileg, „Sherda“,  útbúin myndavélum með aðdráttarlinsu sem nær allt að 8 km.“ sagði lögreglumaður öryggissveitar við Amnesty International. „Þannig getum við gert greinarmun á vopnuðum mótmælendum og friðsömum þegar við neytum aflsmunar“.

Það sem við urðum vitni að næst gerði okkur ljóst að svo var ekki.

 

Líkhúsið

Frá aðalgötunni að líkhúsinu er stígur sem er um 400 metra langur. Þessi stígur var alþakinn líkum og einnig voru bílar með enn fleiri lík sem biðu eftir krufningu. Líkin voru óvarin frá sumarsólinni í Kaíró í ágústmánuði. Ég sá grátandi ættingja reyna að setja klaka á lík ástvina sinna til að koma í veg fyrir að þau rotnuðu í hitanum og báðu til guðs um að gefa þeim þolinmæði.

Inn í líkhúsinu ríkti ringulreið. Líkin voru hvarvetna, jafnvel inn á aðalskrifstofunni. Þegar við komum höfðu verið framkvæmdar 108 krufningar í líkhúsinu. Meira en hundrað í viðbót voru enn eftir.

Ég var í öngum mínum að sjá fjölskyldu blaðakonunnar og mótmælandans Habiba Abdel Aziz. Hún hafði verið skotin í bringuna og fjölskylda hennar var að reyna að ná í lík hennar. Ég hafði rætt við hana einungis rúmri viku fyrr þar sem hún sagði við mig:

„Ég er ekki hluti af Múslímska bræðralaginu og ég á ekki heima með þeim. Ég er að mótmæla hér vegna þess að ég vil ekki sjá herstjórnina aftur. Ég mun ekki fara frá þessari mótmælasetu fyrr en ég dey eða þar til Morsi er settur aftur í forsetastólinn… ég kaus Mohamed Morsi og það var í fyrsta sinn sem atkvæði mitt skipti máli… herinn hefur ekki vald til að ógilda mitt atkvæði og bola í burtu lýðræðislega kjörnum forseta.

Habiba var ekki vopnuð þegar tvístrunin á mótmælunum stóð yfir. Hún var algjörlega á móti öllu ofbeldi í mótmælum. Hún er aðeins eitt dæmi um hundruð friðsamra mótmælenda sem voru drepnir þennan dag.

Við yfirgáfum líkhúsið og stefndum að al-Iman moskunni nálægt Rabaa í Nasr-borg, sem tilheyrir Kaíró.

 

Moskan

Moskan lyktaði af dauða og rotnandi líkum. Lík voru í hrúgum á gólfinu og ekkert pláss til að ganga. Við komu okkar töldum við 98 lík. Í horninu höfðu öll lík verið skráð sem höfðu komið inn og verið sótt af fjölskyldum þeirra. Heildarfjöldi látinna var 267.

Meðal þeirra voru konur og börn. Enn og aftur höfðu næstum allir hinna látnu verið skotnir í höfuðið eða efri hluta líkamans.

Okkur til mikils hryllings sáum við sex brennd lík í moskunni. Sumir þessara einstaklinga höfðu verið brenndir lifandi, aðrir eftir að þeir létust. Sumir voru svo illa brenndir að þeir voru óþekkjanlegir, og fólk velti því fyrir sér hvernig fjölskyldurnar myndu bera kennsl á þá.

Læknarnir sögðu okkur að þeir hefðu verið brenndir af öryggissveitum í tjöldum sínum, eða þegar öryggissveitir kveiktu í heilsugæslustöðinni. Einn þeirra lýsti því hvernig komið var fram við hann þegar öryggissveitir réðust inn í bygginguna: „Öryggissveitarmaður sló mig í bakið með riffilskefti og ýtti mér í átt að stiganum.  Eftir að ég yfirgaf heilsugæslustöðina, ásamt öllum hinum, kveiktu öryggissveitirnar í henni.“

Annar læknir sagði:

„Öryggissveitirnar réðust inn á heilsugæslustöðina og ég sá svartklæddar leyniskyttur á húsþökum nærri heilsugæslunni. Því næst þvinguðu öryggissveitirnar okkur út úr húsinu svo að við urðum að skilja eftir bæði sjúklinga og lík. Ég vona að enginn þeirra hafi verið eftir inni á heilsugæslustöðinni þegar öryggissveitirnar kveiktu í henni.“

Mannréttindaráð ríkisins (The National Council for Human Rights) telur að 632 óbreyttir borgarar hafi fallið í aðgerðum öryggissveitanna og að flestir þeirra hafi verið friðsamir mótmælendur sem lentu á milli í skothríð.

Sumir mótmælendanna við Rabaa al-Adawiya-moskuna  viðurkenndu fyrir Amnesty International að hafa notað steina og molotov-kokteila til að kveikja í lögreglubifreiðum og reyna þannig að koma í veg fyrir tvístrun mótmælenda. Og það fer ekki á milli mála að eftir tvístrunina  beittu sumir  stuðningsmenn Morsi ofbeldi, þar á meðal með skotvopnum, og réðust á stjórnarbygginguna í Giza, lögreglustöðvar og öryggissveitarmenn.

En það gefur öryggissveitum ekki frjálsar hendur til að hefja handahófskennda skothríð á mótmælendur.

Síðastliðið ár hefur Amnesty International skorað á yfirvöld í Egyptalandi að láta fara fram óhlutdræga og sjálfstæða rannsókn á óhóflegri valdbeitingu öryggissveita þann 14. ágúst 2013. Þrátt fyrir ógrynni af sannfærandi sönnunargögnum sem bendla egypska herinn við dráp á mótmælendum, hefur ekki verið réttað yfir einum einasta öryggissveitarmanni fyrir  blóðugasta atburð Egyptalands síðustu áratugi. Egyptaland verður að draga hina seku til ábyrgðar. Annað er smán fyrir mannkynið.

Lestu meira:

A week of violence and curfew (Blogg, 21. ágúst 2013)
Egypt’s disastrous bloodshed requires urgent impartial investigation (Frétt, 16. ágúst 2013)
Egypt: People were dying all around me (Samantekt, 16. ágúst 2013)
Egypt: Security forces must avoid further bloodshed (Frétt, 14. ágúst 2013)