Ekkert grín í Hvíta-Rússlandi!

Amnesty International hvetur yfirvöld í Hvíta-Rússlandi til að fella niður allar ákærur á hendur nemanda í blaðamennsku sem á yfir höfði sér allt að sjö ára fangelsi fyrir að birta mynd af leikfangaböngsum.

Amnesty International hvetur yfirvöld í Hvíta-Rússlandi til að fella niður allar ákærur á hendur nemanda í blaðamennsku sem á yfir höfði sér allt að sjö ára fangelsi fyrir að birta mynd af leikfangaböngsum. Hvítrússnesk yfirvöld ákærðu Suryapin 13.júlí fyrir grun um að hafa aðstoðað skipulagðan hóp til að fara ólöglega yfir landamæri Hvíta-Rússlands.

Anton Suryapin, 20 ára, var ákærður eftir að sænska auglýsingafyrirtækið Studio Total kastaði hundruðum bangsa yfir Hvíta-Rússlandi með skilaboðum til stuðnings tjáningarfrelsinu þann 4.júlí síðastliðinn. Suryapin var handtekinn 13.júlí eftir að hann birti ljósmyndir af athæfinu. Honum var sleppt úr haldi gegn tryggingu 17.ágúst en ákæran stendur enn.

Suryapin hafði engin tengsl við Studio Total og birti aðeins myndirnar sem áhugafréttamaður. Tomas Mazetti hjá Studio Total sagði að fyrirtækið hefði engin tengsl við Anton Suryapin og fordæmdi handtökuna.

Ákærurnar á hendur Anton Suryapin eru enn einn naglinn í líkkistu tjáningarfrelsisins í Hvíta-Rússlandi.

Studio Total segir að athæfið með bangsana hafi verið gert til að vekja athygli á höftum á tjáningarfrelsi í Hvíta-Rússlandi. Myndband sem fyrirtækið birti 5.júlí sýnir tvo aðila með bangsagrímu henda leikfangaböngsum út úr flugvél. Þó lögreglan í Ivyanet hafi verið fljót að tína upp bangsana þá staðfesti bæði vitni sem var í viðtali hjá útvarpstöðinni Frjáls Evrópa (Radio Free Europe) og  sjálfstæður fjölmiðill í Hvíta-Rússlandi að þeir hafi séð bangsa falla úr flugvél.

Amnesty International telur að Suryapin hafi verið ákærður fyrir það eitt að nýta sér tjáningarfrelsi sitt á friðsamlegan hátt og kallar eftir því að allar ákærur verði felldar niður.

Taktu þátt í aðgerð á netákallssíðunni!: http://www.netakall.is/adgerdir/ekkert-grin-i-hvita-russlandi/