Evrópuráðið: Sterkari vernd borgaralegra réttinda

Í tilefni af leiðtogafundi Evrópuráðsins sem haldinn verður í Reykjavík í maí næstkomandi kallar Amnesty International eftir sterkari vernd borgaralegra réttinda.

Síðastliðin ár hafa borgaraleg réttindi, þar á meðal tjáningar- og fundafrelsi, átt undir högg að sækja í Evrópu. Í aðdraganda innrásar Rússlands í Úkraínu mátti sjá versnandi stöðu mannréttinda í Rússlandi. Slíka þróun má sjá víðar í Evrópu, eins og til dæmis í Aserbaísjan, Póllandi og Tyrklandi.

Auknar hömlur og árásir

Lög um erlenda útsendara sem sett voru á í Rússlandi árið 2012 gerði frjálsum félagasamtökum erfitt um vik með óréttmætum takmörkunum sem gáfu til kynna að þau væru njósnarar og svikarar. Lögin mörkuðu upphaf mjög erfiðra tíma fyrir rússneskt samfélag og höfðu víðtæk áhrif. Dómar hafa fallið m.a. í Aserbaísjan, Tyrklandi og Póllandi þar sem réttindi og í sumum tilvikum frelsi lögfræðinga, dómara og mannréttindafrömuða hafa verið skert.

Amnesty International hefur fordæmt hömlur og árásir á mannréttindafrömuði og borgaraleg samtök sem hafa tilkynnt um valdamisnotkun, brot gegn réttindum farandfólks, kvenréttindum, réttindum hinsegin fólks, umhverfisspjöll og spillingu ásamt aðför að sjálfstæði dómstóla.

Árið 2017 gerðist það í fyrsta sinn í langri sögu Amnesty International að formaður, og framkvæmdastjóri deildar samtakanna sættu varðhaldi að geðþótta þegar tyrknesk yfirvöld handtóku Taner Kiliç formann deildarinnar þar í landi ásamt Idil Eser fram­kvæmda­stjóra sömu deildar.

Þrátt fyrir úrskurð Mannréttindadómstóls Evrópu í maí 2022 um að um brot á 5. og 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu (ECHR) væri að ræða og fordæmingu á hömlum á tjáningarfrelsi formanns samtakanna vegna aðgerða sem tengdust beint starfi hans sem mannréttindafrömuðar á hann enn yfir höfði sér fangelsidóm.

Pólitískar ofsóknir ágerast í Evrópu

Pólitískar ofsóknir hafa stigmagnast víða í Evrópu. Má sem dæmi nefna að Aserbaísjan og Tyrkland hafa hneppt mannréttindafrömuði, lögfræðinga, leiðtoga stjórnarandstöðu og fjölmiðlafólk í varðhald til að þagga niður í gagnrýnisröddum. Slík brot á 18. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu kalla á samhent viðbrögð á æðsta stigi Evrópuráðsins til að tryggja að þeim verði hætt og brugðist sé við skorti á úrræðum gegn pólitískum ofsóknum.

Mál Osman Kavala gegn Tyrklandi fyrir mannréttindadómstólum sýna að Mannréttindasáttmálinn gerir ekki gagn nema að pólitískur vilji sé fyrir hendi og að dómskerfið standi styrkum stoðum í viðkomandi landi. Osman Kavala var dæmdur í ævilangt fangelsi í maí 2022 þrátt að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi fordæmt fangelsisvist hans og kallað eftir að honum yrði sleppt úr haldi.

Sanngjörn málsmeðferð í upplausn

Skerðing borgaralegra réttinda og réttarins til sanngjarnrar málsmeðferðar, þar á meðal skortur á sjálfstæði dómstóla, hafa margföldunaráhrif.  Þegar aðgengi að lögfræðiaðstoð og óháðir og hlutlausir dómstólar eru ekki til staðar er í grundvallaratriðum grafið undan rétti einstaklingsins til að njóta réttlætis. Árásir á borgaralegt samfélag eru merki um brotalamir í kerfinu og dómstólar sem skortir sjálfstæði og hlutleysi geta ekki staðið vörð um mannréttindi. Veikt dómskerfi ýtir undir pólitískar ofsóknir, ofríki ríkisvaldsins og ólögmæta dómsúrskurði.

Evrópuráðið verður að sýna viðleitni til að efla sjálfstæði og hlutleysi dómstóla, styrkja stöðu lögfræðinga og standa vörð um tjáningarfrelsið.

Dómarar í Tyrklandi, Póllandi, Ungverjalandi og annars staðar ættu ekki að velkjast í neinum vafa um bindandi úrskurði Mannréttindadómstóls Evrópu né ættu þeir að óttast afleiðingar þess að framfylgja Mannréttindasáttmála Evrópu.

Tjáningarfrelsið stendur höllum fæti

Tjáningarfrelsi stendur enn höllum fæti í ýmsum aðildarríkjum Evrópuráðsins. Það er áhyggjuefni að stjórnmálafólk og fyrirtæki eru í auknum mæli og með skipulögðum hætti að lögsækja þátttöku almennings (e. strategic lawsuits against public participation, SLAPP) til að þagga niður í mannréttindaröddum. Þessum lögsóknum er beitt til að ógna, þreyta, veikja fjárhagsstöðu og draga úr andlegum styrk fjölmiðlafólks, mannréttindafrömuða, borgaralegra samtaka, fræðimanna eða annarra gagnrýnisradda.

Amnesty International lýsti árið 2022 yfir áhyggjum sínum af beitingu slíkra lögsókna í Austurríki, Bosníu og Hersegóvínu, Búlgaríu, Grikklandi, Króatíu, Serbíu og Slóveníu.

Skýrslur Amnesty International sýna að mikilvægt er að takast á við hömlur á bæði félagafrelsi og fundafrelsi. Nokkur Evrópuríki bönnuðu árið 2022 friðsamleg mótmæli og löggæsluaðilar beittu mótmælendur óhóflegu valdi, háum sektum og geðþóttahandtökum.

Fjölmörg ríki koma enn og aftur í veg fyrir mótmæli eða refsa að geðþótta fyrir borgaralega óhlýðni, sérstaklega vegna mótmæla umhverfisverndarsinna.

Tilmæli Amnesty International

Amnesty International hefur gefið Evrópuráðinu tilmæli um að ráðið taki upp nýja heildræna nálgun til að styrkja  borgaralegt samfélag og mannréttindafrömuði. Að allir hlutar Evrópuráðsins ættu að leggja sig fram um að tryggja að dómsúrskurðum sé framfylgt, að farið sé eftir tilmælum Mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna, Feneyjaráðsins, þings Evrópuráðsins og, þegar þörf krefur, beita aðalframkvæmdastjóra og ráðherranefndinni í því skyni.

Evrópuráðið í formennskutíð Íslands verður að nýta það mikilvæga tækifæri sem leiðtogafundur Evrópuráðsins felur í sér og gera ákall til aðildarríkja að efla vernd félaga-, funda- og tjáningarfrelsis.