Farandverkafólk í Kína: Fórnarkostnaður efnahagsundursins

Amnesty International birtir í dag nýja skýrslu:
People’s Republic of China – Internal migrants: Discrimination and abuse
The human cost of an economic miracle.

 

Amnesty International birtir í dag nýja skýrslu: People’s Republic of China – Internal migrants: Discrimination and abuse

The human cost of an economic miracle.(AI ASA 17/008/2007)[1]

 

Samkvæmt skýrslunni er farið með þær milljónir farandverkafólks sem bera uppi efnahagsvöxtinn í  Kína sem annars flokks borgara. Þrátt fyrir nýlegar úrbætur stendur farandverkafólk og fjölskyldur þeirra utan við að menntakerfið og nýtur ekki fullnægjandi heilbrigðisþjónustu, auk þess sem það býr yfirleitt við ömurlegar aðstæður í yfirfullum híbýlum og starfar við ófullnægjandi og oft hættulegar aðstæður.

Hið svokallaða efnahagsundur í Kína á sér alvarlegar skuggahliðar. Farandverkafólk úr sveitahéruðunum sem kemur til borganna í leit að vinnu er hvað líklegast til að verða fyrir alvarlegum réttindabrotum á vinnustað. Farandverkafólkið er gjarnan neytt til að vinna gífurlega mikla yfirvinnu, því er neitað um frí, jafnvel þegar fólkið á  við veikindi að stríða, og því er gert að vinna við hættulegar aðstæður fyrir lítil sem engin laun.

Farandverkafólkið þarf ekki eingöngu að þola óréttlæti af hálfu vinnuveitenda, heldur mismunar ríkisvaldið fjölskyldum þess á nánast öllum sviðum daglegs lífs. Því er neitað um húsnæðisbætur og sjúkratryggingar sem borgarbúum stendur almennt til boða og börnum farandverkafólks er oft meinaður aðgangur að skólakerfinu.

 

 

Áætlað er að þegar hafi á bilinu 150-200 milljónir farandverkafólks flust til kínverskra borga í leit að vinnu og mun sú tala fara hækkandi á komandi áratug. Í sumum borgum er yfir helmingur íbúa farandverkafólk.

Þeim sem flytjast búferlum innan Kína er gert að skrá sig hjá yfirvöldum á staðnum sem tímabundna íbúa á grundvelli hukou kerfisins (reglna um búsetuskráningar). Þeim sem tekst að ljúka skráningarferlinu, sem almennt er bæði flókið og kostnaðarsamt, er samt sem áður mismunað hvað varðar húsnæði, menntun, heilbrigðisþjónustu og atvinnu. Hið fjölmarga farandverkafólk sem ekki tekst að ljúka þessu ferli hefur enga réttarstöðu, sem gerir það berskjaldað fyrir valdníðslu af hálfu lögreglu, leigusala og atvinnurekenda.

Atvinnurekendur beita ýmsum aðferðum til að koma í veg fyrir að verkamenn segi upp störfum. Launagreiðslum til farandverkafólks er gjarnan frestað þannig að verkafólk sem hætti störfum  tapar 2-3 mánaða launum. Oft halda vinnuveitendur launum eftir fram yfir kínverska nýárið til að tryggja að fólk snúi aftur til vinnu að hátíðisdögum loknum sem gerir að verkum að milljónir verkafólks hafur ekki efni á að ferðast heim til fjölskyldna sinna yfir hátíðirnar. Þá neyða atvinnurekendur verkafólk oft til að greiða tryggingu, í trássi við lög, til að koma í veg fyrir að það leiti að vinnu annars staðar. Vegna ótraustrar stöðu sinnar í  hukou kerfinu er farandverkafólk ekki líklegt til að bera fram kvartanir.

Slíkar aðferðir gera atvinnurekendum kleift að bregðast við aukinni eftirspurn eftir vinnuafli án þess þó að þurfa að hækka laun. Þetta skýrir hvers vegna laun hafa ekki hækkað í samræmi við þann skort sem er á vinnuafli, eins og búast mætt við í venjulegu markaðsumhverfi.

  

Í skýrslunni kemur fram að fjölmörg fyrirtæki sem ráða til sín farandverkafólk sinna ekki skyldum sínum um skriflega ráðningarsamninga, réttlát launakjör og frítíma auk þess sem aðbúnaður og öryggi á vinnustöðum er mjög ábótavant. 

Ástandið hefur jafnframt áhrif á milljónir barna farandverkafólks og gerir þeim erfitt fyrir að sækja menntun. Víða er þeim beinlínis meinuð skólaganga sökum þess að foreldrar þeirra hafa ekki uppfyllt kröfur um hukou skráningu.

Kína hefur skuldbundið sig til að bjóða upp á ókeypis grunnskólamenntun. Þrátt fyrir að ríkið hafi sýnt einhverja viðleitni til að ráða bót á vandanum þá krefjast skólar gjarnan skólagjalda sem eru óviðráðanleg fyrir margar fjölskyldur, einkum fjölskyldur farandverkafólks.  Framtíð Kína veltur á þessum milljónum barna: ríkisstjórnin verður að gera þeim kleift að mennta sig.

 

Í skýrslunni er að finna ítarleg tilmæli Amnesty International til kínverskra yfirvalda um úrbætur.

[1] http://web.amnesty.org/library/index/engasa170082007.