Fiðrildaaðgerð til stuðnings stúlkum og konum í Níkaragva

Laugardaginn 23. júlí næstkomandi stendur Íslandsdeild Amnesty International fyrir fiðrildaaðgerð til stuðnings stúlkum og konum í Níkaragva sem sætt hafa kynferðisofbeldi.

Á morgun, laugardaginn 23. júlí, stendur Íslandsdeild Amnesty International fyrir fiðrildaaðgerð til stuðnings stúlkum og konum í Níkaragva sem sætt hafa kynferðisofbeldi. Aðgerðin hefst klukkan 14:30 á Ingólfstorgi og stendur til 17:00. Samtökin hvetja alla til að mæta og lita fiðrildi sem eru tákn réttindabaráttu og vonar í Níkaragva. Fiðrildin verða send utan og notuð í kröfugöngu kvenna í landinu þann 28. september. Þá ætla konur og stúlkur að fjölmenna á götum úti og krefjast réttinda sinna. Þær munu ganga með myndir af fiðrildum sem fólk um allan heim hefur útbúið. Það er von Íslandsdeildar Amnesty International að Íslendingar láti ekki sitt eftir liggja og sýni fórnarlömbum nauðgana og annarra kynferðisbrota í Níkaragva samstöðu með þessum hætti.

Nauðganir og önnur kynferðisbrot eru mjög útbreidd í Níkaragva. Meirihluti fórnarlambanna eru ungar konur og stúlkur undir 17 ára aldri. Þar af er meira en helmingur 14 ára og yngri. Í mjög mörgum tilfellum er gerandinn fjölskyldumeðlimur; frændi, faðir, fósturfaðir eða afi.

Fyrir utan örin sem ung fórnarlömb nauðgana bera á sálinni þurfa þau oft að horfast í augu við þann grimma veruleika að verða ófrísk í kjölfarið án þess að eiga kost á fóstureyðingu. Árið 2008 lagði ríkisstjórnin blátt bann við fóstureyðingum í öllum tilvikum, óháð því hvort líf eða heilsa stúlkna og kvenna er í hættu, vandkvæði eru á meðgöngu eða þungun er afleiðing nauðgunar.

Ríkisstjórn Níkaragva verður að ógilda lögin þannig að stúlkur sem verða ófrískar í kjölfar nauðgunar hafi frelsi til að ákveða hvort þær vilji gangast undir fóstureyðingu, án þess að eiga fangelsisvist á hættu.