Þann 16. febrúar síðastliðinn heimsótti starfsfólk Amnesty International á Filippseyjum Jerryme Corre í fangelsið þar sem hann hefur setið á bak við lás og slá í rúm þrjú ár og færði honum stuðningskveðjur frá fólki víðs vegar um heiminn.
Þann 16. febrúar síðastliðinn heimsótti starfsfólk Amnesty International á Filippseyjum Jerryme Corre í fangelsið þar sem hann hefur setið á bak við lás og slá í rúm þrjú ár og færði honum stuðningskveðjur frá fólki víðs vegar um heiminn. Heimsóknin átti sér stað daginn fyrir afmæli Jerryme Corre. Mál hans var tekið fyrir á bréfamaraþoni Íslandsdeildar Amnesty Internatonal árið 2014.
Jerryme Corre starfaði sem bílstjóri við almenningssamgöngur á Filippseyjum. Hann sætti hræðilegum pyndingum af hendi lögreglu í janúar 2012 í kjölfar ásakana um morð á lögreglumanni.
Jerryme tjáði Amnesty International eftir handtökuna að lögreglumennirnir hefðu kýlt hann í síðuna, hálsinn, magann og hnén. Að því loknu bundu þeir fyrir augu hans, handjárnuðu hann á ökklum, börðu hann á berar iljarnar með viðarstaf og héldu barsmíðunum áfram alla liðlanga nóttina. Ef Jerryme gat ekki svarað spurningum lögreglumannanna var hann kýldur. Þá settu þeir klút yfir munn hans og létu vatn flæða niður í kokið, þar til honum lá við drukknun. Síðar, þegar hann neitaði enn að játa á sig sakir, tóku þeir rafmagnsvír og gáfu honum rafstuð í bakið, síðuna og lærin. Loks hótuðu þeir honum lífláti.
Þegar lögreglumennirnir reyndu að þvinga fram játningu nefndu þeir Jerryme stöðugt öðru nafni, eða Boyet. Jerryme sagði þeim að Boyet væri ekki sitt rétta nafn og opinber embættismaður í nálægu þorpi hafði einnig tjáð lögreglumönnunum að þeir hefðu handtekið rangan mann. Þeir neituðu að hlusta og ákærðu Jerryme fyrir vörslu eiturlyfja.
Lögreglan hefur enn ekki hafið rannsókn á þeim pyndingum sem Jerryme sætti. Þrátt fyrir að hægt miði áfram í átt að réttlæti hefur barátta Amnesty International fyrir hönd Jerryme Corre án efa stutt mál hans og gert það sýnilegra sem vonandi hefur jákvæð áhrif til lengri tíma. Fangaverðirnir í fangelsinu þar sem Jerryme afplánar dóm höfðu á orði þegar bréfin frá Amnesty félögum um heim allan tóku að streyma inn að hann væri orðinn víðfrægur maður.
Við heimsóknina tjáði Jerryme starfsfólki Amnesty International á Filippseyjum að honum hafi borist fjöldinn allur af bréfum í fangelsið og lét eftirfarandi orð falla af því tilefni: „Ég get aldrei þakkað nógsamlega fyrir mig. Bréfin gáfu mér styrk. Þau breyttu jafnvel þróuninni á máli mínu samanborið við það sem áður var. Þau veittu einnig eiginkonu minni styrk. Við erum ekki ein í baráttunni. Margt fólk berst einnig fyrir réttlæti fyrir okkar hönd.“
Jerremy Corre greindi starfsfólki Amnesty International á Filippseyjum ennfremur frá því að hann teldi stjórnvöld varkárari í allri meðhöndlun á máli hans vegna alþjóðlegs þrýstings frá Amnesty félögum og að slíkur þrýstingur hafi veitt sér og konu hans öryggi.
Íslandsdeild Amnesty International þakkar öllum þeim Íslendingum sem létu mál Jerryme sig varða innilega fyrir stuðninginn.
