Þann 27. mars afhenti starfsfólk Amnesty International á Filippseyjum undirskriftir frá bréfamaraþoninu 2014 til lögreglunnar þar í landi. Strax eftir afhendingu bárust Jerryme og fjölskyldu hans þær fregnir frá lögreglunni að rannsókn yrði sett af stað líkt og Amnesty International kallaði eftir.
Þann 27. mars afhenti starfsfólk Amnesty International á Filippseyjum undirskriftir frá bréfamaraþoninu 2014 til lögreglunnar þar í landi og kallaði eftir rannsókn á pyndingum sem Jerryme Corre sætti. Strax eftir afhendingu undirskriftanna bárust Jerryme og fjölskyldu hans þær fregnir frá lögreglunni að rannsókn yrði sett af stað líkt og Amnesty International kallaði eftir.
Mánudaginn 6. apríl var starfsfólk Amnesty International viðstatt fyrstu skýrslutöku rannsóknarinnar ásamt Jerryme Corre og lögfræðingi hans. Í skýrslutökunni var staðfest að Innra eftirlit lögreglunnar hóf rannsóknina vegna bréfa sem því barst frá Amnesty International.
Þetta er jákvæð framvinda og í raun annað skiptið sem slíkt gerist í landinu, líkt og þegar Innra eftirlitið hóf svipaða rannsókn á máli Alfredu Disbarro á síðasta ári. Þetta er vissulega mjög jákvætt skref en rannsóknin er aðeins byrjunin. Enn sem komið er hefur réttlætið ekki náð fram að ganga og enginn hefur verið dreginn til ábyrgðar í máli Jerryme Corre og Alfredu Disbarro. Amnesty International mun halda áfram að fylgjast með rannsókninni þar til réttlætinu er fullnægt fyrir Jerryme og fjölskyldu hans.
