Fjárfestum í mannréttindum

Á síðustu vikum höfum við orðið vitni að miklum sviptingum á fjármálamörkuðum og teikn eru á lofti um efnahagsþrengingar og spurningar vakna um áhrif þeirra á líf og afkomu fólks.

Á síðustu vikum höfum við orðið vitni að miklum sviptingum á fjármálamörkuðum og teikn eru á lofti um efnahagsþrengingar og spurningar vakna um áhrif þeirra á líf og afkomu fólks.

Mikil reiði hefur ríkt hér á landi í kjölfar frystingar eigna íslensks fjármálafyrirtækis í Bretlandi. Reiðin tengist því að aðgerðirnar voru heimilaðar á grundvelli hryðjuverkalaga.

Undanfarin ár hafa fjölmörg lönd sett lög um aðgerðir gegn hryðjuverkum. Mannréttindasamtökin Amnesty International eru gagnrýnin á ýmis ákvæði slíkra hryðjuverkalaga og heimildir sem standast ekki alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar. Amnesty International hefur bent á hættuna á misnotkun slíkra laga. Þúsundir manna sitja nú í fangelsum á grundvelli hryðjuverkalaga, m.a. í  fangabúðunum í Gvantanamó. Sú staðreynd að ákvæði í hryðjuverkalöggjöf Breta hefur nú verið beitt gegn íslensku fyrirtæki sýnir enn og aftur að gagnrýni Amnesty International er á rökum reist.

Um miðjan október 2008 fór fram önnur umræða á Alþingi um frumvarp til breytinga á hegningarlögum. Þar er m.a. að finna mjög víðtækar heimildir til eignaupptöku.  Í umsögn Íslandsdeildar Amnesty International  við frumvarpið er m.a. gagnrýnd hin óljósa skilgreining hugtaksins hryðjuverk. Löglegt andóf getur vegna loðins orðalags frumvarpsins fallið undir hryðjuverk. Alþingi verður að tryggja að hið íslenska frumvarp verði þannig úr garði gert að engin hætta sé á misbeitingu laganna.

Mannréttindi og fjármálakreppan

Mannréttindasamtök hafa hvatt ríkisstjórnir og viðskiptaheiminn til að huga betur að neikvæðum áhrifum hins alþjóðlega efnahagskerfis sem hefur vaxið gífurlega undanfarin ár. Áhrifum sem harðast koma niður á fátækum. Athugasemdirnar náðu því miður ekki eyrum þeirra sem réðu för. Amnesty International hefur barist lengi fyrir bindandi alþjóðlegum samningi um mannréttindaskyldur fyrirtækja og fjármálastofnana. Uppkast slíks samnings er fyrir hendi  en skort hefur pólitískan vilja til að samþykkja hann.

Í septemberlok, þegar fjármálafyrirtæki riðuðu til falls, var haldinn fundur í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna, þar sem fram kom að fá ríki munu ná þúsaldarmarkmiðum samtakanna um að draga úr fátækt fyrir árið 2015.  Á þeim fundi kom fram að verðhækkun á matvælum og orku hefur þurrkað út þann litla árangur sem þó hafði náðst.

Viðbrögð yfirvalda víða um heim við fjármálakreppunni hafa miðað að því að bjarga fjármálafyrirtækjum. Nýlega veittu bandarísk yfirvöld tryggingafyrirtæki 123 milljarða dollara til að bjarga því fyrir horn, upphæð sem er helmingi hærri en þarf  til að ná þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjónanna. Evrópuríki hafa líka veitt milljörðum til endurfjármögnunar bankastofnana. Gripið hefur verið til aðgerðanna hratt og örugglega.  Þessi skjótu viðbrögð eru í fullkomnu ósamræmi við þann hægagang sem einkennt hefur allar aðgerðir ríkisstjórna síðustu sextíu ár hvað uppfyllingu mannréttindaloforða varðar.

Hinn 10. desember eru 60 ár frá samþykkt Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna.  Markmið mannréttinda er að skapa samfélag þar sem fólk nýtur málfrelsis, trúfrelsis og óttaleysis um líf og afkomu. Nú þegar fjármálakerfi heimsins riðar til falls þurfa allar aðgerðir að byggja á mannréttindum og leiðum til að uppfylla þau. 

Ríkisstjórnir heims hafa dregið lappirnar við að tryggja öll mannréttindi. Í ljósi þess ástands sem nú hefur skapast í heiminum í kjölfar fjármálakreppunnar er brýnt að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykki að opnuð verði kæruleið við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og þannig tryggð aukin vernd gegn brotum á réttindum fólks til vinnu, heilsu, menntunar, húsnæðis, fæðis, félagslegs öryggis, viðunandi lífsafkomu og þátttöku í menningarlífi.

Fórnum ekki mannréttindum
Sagan kennir okkur að efnahagslegir erfiðleikar geta leitt til alvarlegra skerðinga mannréttinda. Nú þegar berast fréttir m.a. frá Ástralíu og Bretlandi um hertar aðgerðir gegn innflytjendum. Áhrif slíkra aðgerða eru margþætt, ekki síst í upprunalöndum innflytjenda þar sem fjölskyldur reiða sig á peningasendingar, stöðvist þær mun fátækt aukast. Önnur hætta hertra aðgerða gegn farandverkafólki og innflytjendum er rasismi, þjóðernishyggja og mismunun í móttökulöndum. Fyrri reynsla sýnir að niðursveifla í efnahag landa leiðir oft til félagslegs óróa, aukinna mótmæla og andófs gegn yfirvöldum. Við slíkar aðstæður er hætta á auknu eftirliti, strangari reglum og skerðingu mannréttinda. Mannréttindi eru ekki munaður í góðæri. Mannréttindi eru fyrir alla – alltaf. 

Viðbrögð yfirvalda um allan heim við þeim efnahagslegu þrengingum sem viðast vera yfirvofandi verða að tryggja að mannréttindi verði ekki fyrir borð borin. Fjárfestum í mannréttindum og byggjum  samfélag sem hefur Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi.

Jóhanna K. Eyjólfsdóttir