Fögnum forystu ungs fólks gegn loftslagsbreytingum

Mánudaginn 16. september næstkomandi mun Íslandsdeild Amnesty International veita viðurkenningu fyrir forystu í baráttunni gegn loftlagsbreytingum í Bíó Paradís kl. 17:00. Elísabet Jökulsdóttir flytur unga fólkinu hvatningu og tónlistarfólkið GDRN og Flóni flytja nokkur lög. Boðið verður upp á léttar veitingar.

Þann 16. september næstkomandi hlýtur Greta Thunberg og hreyfing skólabarna, Fridays for Future (Skólaverkfall fyrir loftslagið), æðstu viðurkenningu Amnesty International, Samviskusendiherra samtakanna 2019, fyrir baráttu sína gegn loftslagbreytingum.

Af þessu tilefni mun Íslandsdeild Amnesty International veita viðurkenningu fyrir forystu hérlendis í baráttunni í Bíó Paradís þann sama dag klukkan 17:00.

Frá því í febrúar á þessu ári hafa íslenskir nemendur á öllum skólastigum safnast saman á Austurvelli í hádeginu á föstudögum og krafist þess að íslensk stjórnvöld bregðist við neyðarástandi í loftslagsmálum. Fjögur samtök hljóta nú viðurkenningu Íslandsdeildar Amnesty International fyrir forystu sína í baráttunni gegn loftslagsbreytingum:

  • Landssamtök íslenskra stúdenta 
  • Stúdentaráð Háskóla Íslands
  • Samband íslenskra framhaldsskólanema 
  • Ungir Umhverfissinnar 

Til gamans má nefna að í sömu viku fagnar Íslandsdeild Amnesty International 45 ára stofnafmæli. Deildin hefur stuðlað að aukinni þekkingu á mannréttindum hér á landi og verið vettvangur fyrir hinn almenna borgara til að hafa jákvæð áhrif á stöðu mannréttinda í heiminum.

Það er því kjörið tækifæri að sameina afmælisfögnuð deildarinnar og viðurkenningarathöfn þessa mikilvæga málstað mannréttinda. Þetta er einnig einstakt tækifæri fyrir ráðamenn og annað áhrifafólk til að hitta ungt fólk og ræða þetta mikilvæga málefni.

Hlökkum til að sjá sem flesta!