Íslandsdeild Amnesty International hefur sent forsætisráðherra, utanríkisráðherra, forseta Íslands og alþingismönnum bréf þar sem íslensk stjórnvöld eru hvött til að vekja athygli forseta Slóvakíu á mannréttindabrotum gegn Róma-börnum í Slóvakíu
Forseti Slóvakíu kemur í heimsókn til Íslands 19. september. Af því tilefni hefur Íslandsdeild Amnesty International sent forsætisráðherra, utanríkisráðherra, forseta Íslands og alþingismönnum bréf þar sem íslensk stjórnvöld eru hvött til að vekja athygli forseta Slóvakíu á mannréttindabrotum gegn Róma-börnum í Slóvakíu, sem eru umfjöllunarefni í nýrri skýrslu Amnesty International, er ber heitið Unlock their future: End the segregation of Romani children in Slovakia’s schools .
Þúsundir Róma-barna í Slóvakíu hljóta ófullnægjandi menntun í skólum sem ætlaðir eru nemendum með „væga vitsmunalega fötlun“ eða skólum þar sem nemendur eru aðgreindir eftir uppruna.
Amnesty International sendi nýverið tilmæli til ríkisstjórnar Slóvakíu um Aðgerðir til að binda enda á aðskilnað í menntakerfinu (Steps to end segregation in education). Amnesty International sýnir fram á alvarlega bresti á framkvæmd og eftirliti með banni við mismunun og aðskilnaði í skólum landsins.
Vítt og breitt um Slóvakíu eru Róma-börn föst í viðjum skólakerfis sem bregst þeim síendurtekið vegna rótgróinnar mismununar. Menntakerfið rænir Róma-börn jöfnum tækifærum og dæmir þau til lifa á jaðri samfélagsins og í vítahring fátæktar.
Ríkisstjórn Slóvakíu á mikið verk fyrir höndum ef takast á að binda enda á aðgreiningu og mismunun sem hefur áhrif á stóran hluta íbúa landsins. Aðgreining barna í skólum hefur áhrif til lífstíðar því framtíðarmöguleikar þeirra eru gróflega takmarkaðir.
Samkvæmt könnun sem gerð var árið 2009, eru Róma-börn 60% nemenda í sérskólum í Slóvakíu, enda þótt Róma-fólk sé aðeins 10% af íbúafjölda. Í héruðum þar sem stór hluti íbúa er Róma-fólk, eru Róma-börn þrjú af hverjum fjórum börum í sérskólum. Um landið allt eru Róma-börn 85% nemenda í sérbekkjum innan almennra skóla.
Ástæður aðskilnaðar í skólum Slóvakíu eru flóknar. Þær stafa meðal annars af rótgróinni andúð í garð Róma-fólks, auk ýmissa brotalama í skólastarfi s.s. lítill stuðningur fyrir Róma-börn í almennum skólum og námsmat sem ýtur undir mismunun.
Andúð í garð Róma-fólks af hálfu kennara og foreldra hvítra barna hefur einnig átt sinn þátt í aðskilnaði Róma-barna innan almennra skóla.
Þetta hefur alið af sér aðstæður þar sem Róma-börn eru stundum læst inni í kennslustofum, á göngum eða í byggingum, til að tryggja að þau blandi ekki geði við nemendur af öðrum uppruna.
Í ágústmánuði 2010 samþykkti ríkisstjórn Slóvakíu nýja áætlun sem felur meðal annars í sér loforð um að binda enda á aðskilnað Róma-barna í skólum landsins.
Amnesty International hefur áhyggjur af því að áætlunin nái ekki fram að ganga þar sem henni hefur ekki verið fylgt eftir með skýrri og ótvíræðri yfirlýsingu af hálfu ríkisstjórnarinnar um að mismunun byggð á uppruna og aðskilnaður Róma-fólks, sé með öllu ólíðandi og baráttumál sem sett verði í forgang.
Þær ákvarðanir sem ríkisstjórn landsins tekur á næstunni munu hafa áhrif á líf þúsunda Róma-barna. Það er í höndum ríkisstjórnarinnar að tryggja Róma-fólki möguleika á fullri þátttöku í slóvakísku og evrópsku samfélagi.
