Fótboltamót án brota í Brasilíu

Að sögn Amnesty International eiga mótmælendur í Brasilíu sem gripið hafa til aðgerða í aðdraganda heimsmeistarakeppninnar í fótbolta á hættu að sæta ofbeldi af höndum lögreglu og hervaldsins í viðleitni þeirra til að bæla niður mótmælin.

Að sögn Amnesty International eiga mótmælendur í Brasilíu sem gripið hafa til aðgerða í aðdraganda heimsmeistarakeppninnar í fótbolta á hættu að sæta ofbeldi af hálfu lögreglu og hervaldsins í viðleitni þeirra til að bæla niður mótmælin.

„Skortur á þjálfun lögreglunnar, traust á getu hersins til þess að annast löggæslu í mótmælum og refsileysi skapar hættulega blöndu þar sem friðsamlegir mótmælendur lúta í lægra haldi,“ sagði Atila Roque, framkvæmdastjóri hjá Amnesty International Brasilíu.

„Heimsmeistarakeppnin 2014 verður mikilvægur prófsteinn fyrir stjórnvöld í Brasilíu. Þeir verða að nota þetta tækifæri til að stíga fram og tryggja að öryggissveitir sem annast löggæslu í mótmælum á meðan á keppninni stendur fremji ekki frekari mannréttindabrot,“ sagði Atila Roque.

Í skýrslu Amnesty International They use a strategy of fear’: Protecting the right to protest in Brazil  um ofbeldi og valdníðslu öryggissveita Brasilíu kemur fram að notkun á táragasi og gúmmíkúlum gegn friðsamlegum mótmælendum hafa átt sér stað sem og handahófskenndar handtökur og misbeiting laganna til að stöðva og refsa mótmælendum. Búist  er við að ekkert lát verði á slíku ofbeldi á meðan á keppninni stendur.

Amnesty International hleypti af stokkunum nýrri herferð sem ber yfirskriftina „Fótboltamót án brota í Brasilíu“ og er tilgangur hennar að hvetja einstaklinga um heim allan að senda forseta Brasilíu, Dilma Rousseff, og þingforseta, Renan Calheiros, gula spjaldið og hvetja þá til að virða tjáningarfrelsi fólks og rétt þess til að koma saman með friðsömum hætti á meðan á heimsmeistaramótinu stendur.

Þann 5. júní síðastliðinn sendu aðgerðasinnar Amnesty International stjórnvöldum í Brasilíu tug þúsunda „gulra korta“ undirrituð af einstaklingum alls staðar að úr heiminum sem viðvörun til stjórnvalda um að þau verði að virða rétt fólks til að mótmæla með friðsamlegum hætti.

Íslandsdeild Amnesty hefur sent út netákall og hægt er að skrifa undir ákall til stjórnvalda í Brasilíu þar sem krafist er að þau virði tjáningarfrelsi fólks. Aðgerðina má finna á www.amnesty.is/netakall.

„Heimurinn sendir skýr skilaboð til brasilískra yfirvalda: Það að mótmæla er ekki glæpur heldur mannréttindi. Í stað þess að nota ofbeldi til að brjóta niður mótmæli, ættu stjórnvöld að ábyrgjast öryggi mótmælenda og að fólk geti tjáð hug sinn á öruggan hátt og án ótta við ofbeldi eða handtöku,“ sagði Atila Roque.

Frá  júní 2013, hafa þúsundir Brasilíubúa mótmælt á götum úti. Þeir hafa kvartað yfir hækkun á opinberum samgöngukostnaði, miklum útgjöldum vegna heimsmeistarakeppninnar og ófullnægjandi fjárveitingum í opinberri þjónustu.

Hundruðir slösuðust víðs vegar um landið þegar herinn barði fólk með kylfum og skaut gúmmíbyssukúlum að fólki sem engin ógn stafaði af.

Ljósmyndarinn Sergio Silva, 32 ára, missti vinstra augað eftir að hafa orðið fyrir gúmmíbyssukúlu í mótmælum gegn hækkun fargjalda í almenningssamgöngur í Sao Paulo þann 13. júní 2013. Silva, sem er giftur og á tvö börn, á nú mjög erfitt með að sinna starfi sínu. Hann fékk aldrei opinbera skýringu á því ofbeldi sem hann var beittur, afsökunarbeiðni eða bætur frá yfirvöldum.

Sérsveit lögreglunnar notaði einnig táragas á friðsamlega mótmælendur – í einu tilviki var kveikt í dós sem innihélt gas, inni á sjúkrahúsi í Ríó de Janeiró. Hundruð manna voru einnig teknir höndum og sett í gæsluvarðhald á grundvelli laga um skipulagða glæpastarfsemi, án nokkurra vísbendinga um þátttöku í slíku.

Humberto Caporalli, 24 ára, var handtekinn og ákærður fyrir brot á öryggislögum landsins eftir að hafa tekið þátt í kröfufundi fyrir bættri menntun í São Paulo þann 7. október 2013. Á lögreglustöðinni var hann beittur þrýstingi um að láta lögreglumönnum í té aðgang sinn að Facebook-reikningi sínum svo þeir gætu skoðað hvaða skilaboð hann hafði sent þaðan. Honum var haldið föngnum í tvo daga áður en dómari veitti honum lausn gegn tryggingu.

Brasilíski löggjafinn hefur til umfjöllunar fyrirhuguð lög um hryðjuverkastarfsemi sem munu líklega ógna rétti fólks til friðsamlegra mótmæla. Lögin munu koma á víðtækari skilgreiningu á hryðjuverkum, til að mynda eru skemmdir á vörum og nauðsynlegri þjónustu skilgreind sem hryðjuverk. Það er áhyggjuefni að lögin verði notuð gegn friðsamlegum mótmælendum ef þau  ná fram að ganga.

„Athygli heimsins beinist nú að Brasilíu og yfirvöld verða að skuldbinda sig til að beita ekki óhóflegu afli gegn mótmælendum og rannsaka hvers kyns misbeitingu valds. Annars munu öryggissveitir fá frjálsar hendur til að fremja fleiri mannréttindabrot,“ sagði Atila Roque.