Fræðslur í boði

Með fræðslu getum við barist gegn mismunun, stuðlað að jafnrétti og virkri þátttöku einstaklinga í lýðræðislegum ákvörðunum samfélagsins og þannig unnið að betri heimi.

Mannréttindafræðsla Amnesty International byggir á því að auka þekkingu, hæfni og breyta viðhorfum í þágu mannréttinda. Þetta er í samræmi við 26. grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna um að mennta einstaklinga og efla skilning, umburðarlyndi og vináttu milli hópa í þágu friðar.

1197


þátttakendur í fræðslustarfi árið 2024

39


fræðsluerindi árið 2024

Hefur þú áhuga á að fá mannréttindafræðslu?

Fræðslur í boði

Íslandsdeild Amnesty International býður upp á fjölbreytt fræðsluerindi, vinnusmiðjur og málstofur fyrir bæði nemendur og kennara á grunn- og framhaldsskólastigi.

Við heimsækjum skóla bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni án endurgjalds.

Hér má sjá fræðsluerindi sem við bjóðum upp á en einnig getum við skipulagt önnur fræðsluerindi, smiðjur, málstofur eða lengri námskeið eftir því sem hentar.

Almenn fræðsla fyrir skóla

Fræðsla um Amnesty International og mannréttindi.

Fjallað er um upphaf og starfsemi samtakanna, mannréttindi og mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna ásamt því hvernig nemendur geta gripið til aðgerða og tekið þátt í mannréttindabaráttunni.

Lengd: 40-50 mínútur.

Fræðsluerindi fyrir kennara

Fræðsluerindi um mannréttindafræðslu fyrir kennara sem hafa áhuga á að styrkja hlut mannréttinda í kennslu.

Fræðslan hentar fyrir kennara í flestum fögum ef ekki öllum.

Markmiðið er að skapa vettvang til að deila reynslu og efla kennara í mannréttindakennslu.

Fjallað verður um tengsl mannréttindafræðslu við aðalnámskrá grunnskóla og áskoranir og tækifæri í mannréttindakennslu rædd.

Lengd: 60-90 mínútur.