Fréttatilkynning frá Íslandsdeild Amnesty International

Íslandsdeild Amnesty International lýsir yfir þungum áhyggjum af fréttum um að bandarískar herflugvélar hafi haft viðkomu hér á landi á leið sinni með fanga til landa þar sem vitað er að pyndingum er beitt við yfirheyrslur.

Íslandsdeild Amnesty International lýsir yfir þungum áhyggjum af fréttum um að bandarískar herflugvélar hafi haft viðkomu hér á landi á leið sinni með fanga til landa þar sem vitað er að pyndingum er beitt við yfirheyrslur.

Íslandsdeildin vekur athygli á því að hið algera bann við pyndingum og illri meðferð felur einnig í sér algert bann við að flytja fanga til ríkis þar sem hætta er á að hann verði pyndaður eða látinn sæta grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð[1].

Deildin skorar á íslensk stjórnvöld að gera það sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir þau brot á alþjóðasáttmála SÞ gegn pyndingum sem slíkir fangaflutningar fela í sér, meðal annars með því að tryggja að Ísland sé ekki notað sem viðkomustaður í þessum tilgangi. Ennfremur hvetur deildin íslensk stjórnvöld til að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að mannréttindi séu virt í “Stríðinu gegn hryðjuverkum”.

 

 

[1] Í þriðju grein samnings SÞ gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi refsingu segir: “Ekkert aðildarríki skal vísa úr landi, endursenda eða framselja mann til annars ríkis ef veruleg ástæða er til að ætla að hann eigi þar á hættu að sæta pyndingum.”