Forsætisráðherra Davíð Oddsson og utanríkisráðherra Halldór Ásgrímsson hafa móttekið áskorun vegna málefna fanganna í flotastöð Bandaríkjamanna við Guantanamo flóa á Kúbu. Að áskoruninni standa eftirtaldir aðilar: Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Deiglan.com, Íslandsdeild Amnesty International, Múrinn, Sellan, Skoðun, Tíkin, Ung frjálslynd, Ung vinstri græn og Ungir jafnaðarmenn.
Í áskoruninni segir:
Við undirrituð skorum á ríkisstjórn Íslands að koma mótmælum á framfæri með formlegum hætti við ríkisstjórn Bandaríkjanna vegna þeirra mannréttindabrota sem nú viðgangast í herstöðinni við Guantanamo flóa á Kúbu. Jafnframt skorum við á ríkisstjórn Íslands að fara fram á að Bandaríkin:
- annað hvort ákæri fangana í Guantanamo herstöðinni fyrir brot á lögum og venjum um vopnuð átök eða glæpi sem bandarískir dómstólar hafi lögsögu yfir og færi þá fyrir dómstóla innan skynsamlegs tímaramma, ellegar sleppi þeim úr haldi og geri þeim frjálst að snúa til síns heima kjósi þeir svo;
- tryggi að fangarnir í Guantanamo herstöðinni njóti mannúðlegrar meðferðar.
Einnig förum við fram á að ríkisstjórn Íslands ítreki í þessu sambandi andstöðu sína við dauðarefsingar.
Í Guantanamo herstöðinni eru nú um 600 manns í haldi sem handteknir voru í tengslum við árásirnar á Bandaríkin 11. september 2001 og stríðið í Afganistan. Fangarnir eru sagðir grunaðir um að vera annað hvort hermenn Talibana eða liðsmenn Al Kaída samtakanna. Hluti þeirra hefur verið í haldi síðan í janúar 2002. Aðeins örfáir fanganna hafa verið ákærðir fyrir glæpi en engum þeirra hefur verið gefið færi á að leita réttar síns fyrir dómstólum né heldur njóta fangarnir réttinda þeirra alþjóðlegu mannréttinda- og mannúðarlaga sem þeir eiga tilkall til og Bandaríkin hafa skuldbundið sig til að virða og uppfylla.
Ríkisstjórn Bandaríkjanna heldur því fram að bandarískir dómstólar hafi ekki lögsögu yfir herstöðinni við Guantanamo flóa og geti fangarnir því ekki skotið málum sínum þangað til að fá skorið úr um réttmæti frelsissviptingar sinnar. Föngunum er þannig haldið í einskonar lagalegu tómarúmi þar sem enginn dómstóll, hvorki borgaralegur dómstóll né hefðbundinn herdómstóll, hefur lögsögu að mati ríkisstjórnar Bandaríkjanna. Í þessu tómarúmi hafa hins vegar sérstakar hernefndir verið settar á laggirnar sem heyra beint undir framkvæmdavaldið og geta því ekki talist dómstólar í hefðbundnum skilningi. Þessar hernefndir eiga svo að dæma í málum Guantanamo fanganna sem munu ekki eiga kost á því að áfrýja dómi sínum til borgaralegra eins og tíðkast í tilfelli hefðbundinna herdómstóla og er það skýlaust brot á þjóðréttarlegum skuldbindingum Bandaríkjanna.
Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefur Ísland lagt áherslu á virðingu fyrir mannréttindum í málflutningi sínum og mikilvægi þess að baráttan gegn hryðjuverkum megi ekki vera á kostnað mannréttinda. Í ljósi þess telja þeir aðilar sem standa að áskoruninni að íslensk stjórnvöld eigi að mótmæla með afgerandi hætti þeirri stefnu bandarískra yfirvalda að sniðganga alþjóðamannréttinda- og mannúðarlög fanganna sem haldið er í herstöðinni við Guantanamo flóa á Kúbu.
Með því að taka þátt í undirskriftasöfnun gefst almenningi kostur á að þrýsta á íslensk stjórnvöld að setja fram formleg mótmæli vegna mannréttindabrota á föngunum í Guantanamo. Vefslóð undskriftasöfnunarinnar er www.skodun.is/undirskrift.
