Skelfileg lífsreynsla fanga sem beittir voru hömlulausum pyndingum og annarri illri meðferð í sýrlenskum fangelsum er afhjúpuð í svartri skýrslu Amnesty International. Hóflegt mat gerir ráð fyrir að um 17.723 manns hafi látið lífið í varðhaldi frá því að uppreisnin hófst í Sýrlandi í mars árið 2011 – það eru að meðaltali rúmlega en 300 dauðsföll á mánuði.
Skelfileg lífsreynsla fanga sem beittir voru hömlulausum pyndingum og annarri illri meðferð í sýrlenskum fangelsum er afhjúpuð í svartri skýrslu sem Amnesty International birti 18. ágúst þar sem metið er sem svo að 17.723 manns hafi látið lífið í varðhaldi frá því að uppreisnin hófst í Sýrlandi í mars árið 2011 – það eru að meðaltali rúmlega en 300 dauðsföll á mánuði.
Skýrslan ´It brakes the human‘: Torture, disease and death in Syria‘s prisons skráir glæpi gegn mannkyninu sem stjórnarherinn framdi. Í henni eru raktar upplifanir þúsunda fanga út frá 65 málum þeirra sem lifðu af og lýsa skelfilegri misbeitingu og ómannúðlegum aðstæðum í öryggisstöðum á vegum sýrlensku leyniþjónustunnar og í Saydnaya herfangelsinu í útjaðri Damascus. Flestir segjast hafa orðið vitni að dauða fanga í varðhaldi og sumir skýra frá því að þeim hafi verið haldið í klefum ásamt líkum.
„Listi hryllingssagnanna sem birtist í skýrslunni sýnir í hrikalegum smáatriðum þá ömurlegu misbeitingu sem fangar þurfa reglulega að þola, frá handtökunni sjálfri og á meðan yfirheyrslum og varðhaldi stendur á bakvið luktar dyr hinna alræmdu öryggisstöðva leyniþjónustunnar. Þeirri ferð lýkur oft með dauða þar sem hættan á dauðsfalli er til staðar á öllum stigum varðhaldsins,“ segir Philip Luther, framkvæmdastjóri Mið-Austurlanda og Norður-Afríkusviðs Amnesty International.
„Í áratugi hefur herafli sýrlenskra stjórnvalda beitt pyndingum til þess að brjóta andstæðinga sína á bak aftur. Í dag er þeim beitt sem hluta af kerfisbundinni og útbreiddri árás gegn hverjum þeim sem grunaður er um að vera á móti stjórnvöldum og jafngilda glæpum gegn mannkyninu. Þeir sem bera ábyrgð á þessum svívirðilegu glæpum verða að svara fyrir gjörðir sínar“.
„Alþjóðasamfélagið, sérstaklega Rússland og Bandaríkin, sem stýra í sameiningu friðarviðræðunum um Sýrland, verða að sjá til þess að þessi misbeiting sé efst á baugi í viðræðunum við stjórnvöld og uppreisnarhópa og þrýsti á þá að binda enda á beitingu pyndinga eða annarrar illrar meðferðar“.
Amnesty International kallar einnig eftir því að allir samviskufangar verði leystir úr haldi og að allir aðrir hljóti án tafar réttarhöld sem samræmast alþjóðlegum stöðlum um réttláta málsmeðferð og að sjálfstæðum eftirlitsaðilum sé veittur skilyrðislaus aðgangur án tafar að öllum varðhaldsstöðvum.
Skýrslan beinir athygli að nýrri tölfræði frá Human Rights Data Analysis Group (HRDAG), samtaka sem notast við vísindalegar nálganir til að greina mannréttindabrot, sem bendir til þess að 17.723 manns hafi látið lífið í varðhaldi í Sýrlandi frá því í mars 2011 þegar óöldin hófst og til desember 2015. Það jafngildir fleiri en 300 dauðsföllum í hverjum mánuði. Á áratugnum fyrir 2011 skráði Amnesty International að meðaltali um 45 dauðsföll í varðhaldi á ári hverju í Sýrlandi – sem eru að meðaltali fjögur mannslíf á mánuði.
Talan er hinsvegar hóflega áætluð og bæði HRDAG og Amnesty International telja að, þar sem tugir þúsunda manna eru látnir hverfa í varðhaldsstöðvar í Sýrlandi, þá sé hin raunverulega tala líklega enn þá hærri.
Í tilefni útgáfu skýrslunnar réðst Amnesty International einnig í samstarf með liði sérfræðinga hjá réttarfræðilegri byggingarlist hjá Goldsmith háskólanum til að búa til þrívíða endurgerð af Saydnaya, einu alræmdasta fangelsis Sýrlands. Með því að notast við byggingarlistar- og hljóðeðlisfræðilega líkanagerð og lýsingar frá fyrrum föngum er leitast eftir því að sýna ljóslifandi þann daglega hrylling sem þeir upplifðu og hinar skelfilega aðstæður sem þeir máttu þola í varðhaldinu.
„Með því að notast við þrívíddarlíkanagerð og minningar þeirra sem lifðu af þá hræðilegu misbeitingu sem þarna þrífst, getum við í fyrsta skipti skyggnst á sannfærandi hátt inn í alræmdasta pyndingarfangelsi Sýrlands,“ segir Philip Luther.
Misbeiting á öllum stigum.
Meirihluti eftirlifenda greindi Amnesty International frá því að misbeitingin hafi byrjað strax við handtöku og á meðan flutningi stóð, jafnvel áður en þeir stigu fæti í varðhaldsstöðina.
Fangarnir lýsa „móttökuhófi“ við komuna í varðhaldsmiðstöðina, athöfn sem fól í sér alvarlegar barsmíðar, þar sem notaðar voru stangir úr sílikoni eða málmi eða rafmagnskaplar.
„Þeir komu fram við okkur eins og dýr. Þeir vildu gera okkur eins ómennska og hægt væri… ég sá blóðið, það var eins og straumur… ég gat aldrei ímyndað mér að mannleg reisn gæti lotið svo lágt… þeir hefðu ekki veigrað sér við að drepa okkur þar og þá,“ segir Samer, lögfræðingur sem handtekinn var nærri Hama.
Slíkum „móttökuhófum“ var svo oft fylgt eftir með „öryggisleit“ en einkum konur greindu frá því að á meðan þeirri leit stóð hafi þeim verið nauðgað eða þær áreittar kynferðislega af karlkyns vörðum.
Hjá leyniþjónustunni máttu fangarnir þola stanslausar pyndingar og aðra illa meðferð við yfirheyrslur, oftast til þess að knýja fram játningar eða sem refsingu. Algengar aðferðir eru meðal annars dulab (að þvinga líkama fórnarlambsins inn í gúmmídekk) og falaqa (að hýða iljar fórnarlambsins). Fangar þurftu einnig að þola raflost, nauðgaðanir eða kynferðisofbeldi, að neglur af fingrum og tám þeirra væru dregnar af, fá yfir sig brennandi heitt vatn eða þeir brenndir með sígarettum.
Ali, fangi í deild herleyniþjónustunnar í Homs lýsir því hvernig honum var haldið í shabeh, stellingu þar sem hann var hengdur upp á úlnliðunum í fjölda klukkustunda og barinn hvað eftir annað.
Samblanda bágra aðstæðna í öryggisstöðvum leyniþjónustunnar, þar á meðal yfirfullir klefar, skortur á mat og læknisaðstoð og ófullnægjandi hreinlætisaðstaða fellur undir grimma, ómannúðlega og niðurlægjandi meðferð og er bönnuð samkvæmt alþjóðalögum.
Eftirlifendur lýsa því hvernig þeim var haldið í svo yfirfullum klefum að þeir þurftu að skiptast á að sofa eða sofa sitjandi á hækjum sér.
„Þetta var eins og að vera í herbergi fullu af dauðu fólki. Þeir voru að reyna að ganga frá okkur þarna,“ segir fyrrum fanginn Jalal.
Annar fangi, „Ziad“ (nafni hans hefur verið breytt til að vernda hann), segir að loftræstingin í herleyniþjónustudeild 235 í Damaskus hafi hætt að virka einn daginn og sjö manns hafi kafnað.
„Þeir fóru að sparka í okkur til að komast að því hver væri á lífi og hver ekki. Þeir sögðu mér og öðrum eftirlifanda að standa upp… það var þá sem ég áttaði mig á að… sjö manns hefðu dáið, að ég hafði sofið við hliðina á sjö líkum… [þá] sá ég hin líkin á ganginum, um 25 lík“.
Fangar greindu frá því að aðgangur að mat, vatni og hreinlætisaðstöðu væri oft takmarkaður. Flestir sögðu að komið væri í veg fyrir að þeir gætu þvegið sér almennilega. Í slíku umhverfi þrífast sjúkdómar, kláðamaur og lús. Þar sem að flestum föngum var neitað um aðgang að almennilegri læknisaðstoð, neyddust fangarnir oft til að veita hver öðrum aðhlynningu með takmörkuðum birgðum sem átti þátt í þeirri gríðarlegu aukningu sem varð á dauðsföllum í varðhaldi frá árinu 2011.
Fangar hafa almennt ekki aðgang að læknum sínum, fjölskyldu sinni eða lögfræðingum á meðan þeim er haldið í öryggisstöðvum leyniþjónustunnar en slíkar kringumstæður jafngilda þvinguðu mannshvarfi.
Saydnaya herfangelsið
Fangar eyddu oft mánuðum eða jafnvel árum hjá ýmsum deildum leyniþjónustunnar. Sumir hlutu á endanum svívirðilega óréttlát réttarhöld frammi fyrir herrétti – sem vörðu oft ekki nema í nokkrar mínútur – áður en þeir voru fluttir í Saydnaya herfangelsið þar sem aðstæður voru sérstaklega slæmar.
„Hjá [leyniþjónustunni] var pyndingum og barsmíðum beitt til að fá okkur til að játa. Í Saydnaya var eins og tilgangurinn væri dauði, einhverskonar útgáfa af náttúruvali, til þess að losna við þá sem voru veikburða strax við komu þeirra ,“ segir Omar S.
Pyndingar og önnur ill meðferð virðast vera hluti af linnulausri tilraun til að gera lítið úr, refsa og niðurlægja fanga. Eftirlifendur lýsa því hvernig fangar voru reglulega barðir til dauða.
Salam, lögfræðingur frá Aleppo sem eyddi meira en tveimur árum í Saydnaya segir: „Þegar þeir færðu mig inn í fangelsið gat ég fundið lyktina af pyndingum. Það er sérstök lykt af raka, blóði og svita; það er pyndingalyktin“.
Hann lýsir einu atviki þar sem að verðirnir börðu fangelsaðan Kung Fu þjálfara til dauða eftir að þeir komust að því að hann hafði verið að þjálfa aðra í klefanum sínum.
„Þeir börðu þjálfarann og fimm aðra til dauða undir eins og svo héldu þeir áfram á hinum fjórtán. Þeir dóu allir innan viku. Við sáum blóðið streyma út úr klefanum“.
Föngum í Saydnaya er í fyrstu haldið svo vikum skiptir í klefum neðanjarðar sem eru ískaldir yfir vetrarmánuðina, án þess að hafa aðgang að teppum. Seinna eru þeir svo færðir í klefa ofanjarðar þar sem þjáning þeirra heldur áfram.
Sumir fangar segja að þar sem þeir voru sviptir mat hafi þeir borðað appelsínuhýði og ólífusteina til þess að komast hjá því að svelta. Þeim er bannað að yrða eða horfa á verðina, sem niðurlægja og hæða þá reglulega í engum sérstökum tilgangi.
Omar S lýsir því hvernig einn vörður hafi eitt sinn neytt tvo menn til að afklæðast og svo skipað öðrum þeirra að nauðga hinum og hótað honum dauða ef hann hlýddi ekki.
„Pyndingarnar og illa meðferðin sem beitt er í Saydnaya fangelsinu eru í eðli sínu úthugsaðar og kerfisbundnar og lýsa einföldustu gerð grimmdar og kaldlyndum skorti á manngæsku,“ segir Philip Luther.
„Alþjóðasamfélagið verður að leggja áherslu á að þessi hræðilega og rótgróna misbeiting verði stöðvuð. Árum saman hefur Rússland beitt neitunarvaldi sínu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna til að skýla bandamönnum sínum, sýrlensku ríkisstjórninni og til þess að koma í veg fyrir að einstakir gerendur innan stjórnvalda og hersins þurfi að svara fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu frammi fyrir Alþjóðasakamáladómstólnum. Ríki heims mega ekki halda áfram að bregðast þegar kemur að því að standa með manngæsku frammi fyrir fjöldaþjáningu“.
Flest fórnarlömb pyndinga og annarrar illrar meðferðar sitja uppi með líkamleg og andleg ör eftir þjáningar sínar. Meirihlutinn hefur flúið eftir að hafa verið sleppt og eru meðal þeirra rúmlega 11 milljóna Sýrlendinga sem hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín.
Amnesty International kallar eftir því að alþjóðasamfélagið tryggi að fórnarlömb pyndinga hljóti læknis- og sálfræðimeðferð og þann félagslega stuðning sem til þarf fyrir endurhæfingu þeirra.
