Grein eftir Gauri van Gulik, rannsakanda Amnesty International í Evrópu.
Þær skelfilegu aðstæður sem sýrlensk börn búa við og voru fangaðar á áleitinni fréttamynd af fimm ára gömlum dreng, Omran Daqneesh, alblóðugum og í áfalli, þar sem hann sat í sjúkrabíl eftir að hafa verið dreginn út úr rústum heimili síns, gerir flestum auðvelt að skilja af hverju sýrlenskir foreldrar leggja í hættuför til Evrópu með börnin sín. En ef barn eins og Omran myndi lifa ferðalagið af og ná ströndum Evrópu væri raunum þess hvergi nærri lokið.
Í heimsókn minni á grísku eyjuna Lesbos upplifði ég frá fyrstu hendi hvað býður barnanna.
Í gæsluvarðhaldsstöð á Lesbos hitti ég Ahmed, eins árs gamlan dreng, sem hefur verið veikur nánast allt sitt stutta líf. Móðir hans segir veikindi hans afleiðingu efnaárásar. Hún tjáði mér að sprengja hafi grandað heimili þeirra rétt eftir að Ahmed fæddist og sprengjubrot varð eftir í hálsi Ahmed. Stuttu síðar þróðaði hann með sér alvarlegan asma og önnur einkenni sem koma heim og saman við einkenni vegna innöndunar klórgass. Þegar ég hitti Ahmed tæplega ári eftir sprenginguna sá ég örin sem hann bar og varð vitni að litla líkama hans berjast við að ná andanum.
Fjölskylda Ahmed er að uppruna frá Palestínu en bjó í Sýrlandi. Þau flúðu fyrst hryllinginn sem fylgdi umsátrinu og hungursneyðinni í flóttamannabúðnum í Yarmouk, rétt fyrir utan Damaskus. Stríðið fylgdi þeim hins vegar til Idlib í norðurhluta landsins, þangað sem þau flúðu. Eftir að sprengja grandaði heimili þeirra fór móðir Ahmed með fjölskylduna yfir landamærin til Tyrklands þar sem hún greiddi smyglara fyrir háskaför í troðfullum bát yfir hafið til grísku eyjanna.
Þegar fjölskyldan steig á land voru móttökurnar ekki hlýjar. Hún kom til Lesbos eftir að tvíhliða samningur Evrópusambandsins við Tyrkland tók gildi sem varð til þess að grísku eyjunni var breytt í risastóra gæsluvarðhaldsstöð. Fjölskylda Ahmed var sett í gæsluvarðhald ásamt þrjú þúsund annarra í flóttamannabúðunum í Moria sem eru lokaðar umheiminum með gaddavírsgirðingum. Þegar ég hitti fjölskylduna vissu þau ekkert um það hvað myndi henda þau næst. Í stað þess að útvega Ahmed þá nauðsynlegu læknisaðstoð sem hann þurfti á að halda, rétti læknir fjölskyldunni hylki með paracetamol.
Þau eru ekki lengur í gæsluvarðhaldi en komast hvorki lönd né strönd fremur en rúmlega 60 þúsundir annarra flóttamanna og farandverkafólks sem er á Grikklandi. Leiðir áfram til Evrópu eru að mestu lokaðar. Ef leiðtogar Evrópu réðu ferðinni yrði flest flóttafólkið líklega flutt aftur til Tyrklands.
Þessi vonlausa leið á við um önnur svæði Evrópu sbr. Ungverjaland, Serbíu og Calais.
Omran Daqneesh minnir mig á svo mörg önnur börn sem við höfum hitt á meginlandinu og þær eldraunir sem þau þurfa að ganga í gegnum.
Nærri þriðjungur flóttafólks og farandverkafólks sem ferðast yfir Miðjarðarhafið til Evrópu eru börn. Mörg þeirra ferðast ein, berskjölduð gagnvart misnotkun hvers kyns eða þau hafa orðið viðskila við fjölskyldur sínar á leiðinni, stundum af völdum yfirvalda.
Börn sem hafa upplifað áföll sem fylgja stríði fá nánast engan sálfræði- eða félagslegan stuðning. Það eru fáir öruggir staðir fyrir þau að leika sér á, hvað þá að læra eða stunda skóla. Sum barnana hafa ekki gengið í skóla lengi og hafa glatað kunnáttu sinni að lesa og skrifa.
Sýrlenskur, 16 ára drengur sem hefur dvalið í flóttamannabúðum í Grikklandi sagði okkur eftirfarandi; „Við höfum dvalið hér í 423 daga án vonar, án menntunar og skólagöngu. Ég þarfnast tækifæris til að ljúka námi mínu.“
Þessi börn þarfnast öryggis, sérstakrar umönnunar, menntunar og þak yfir höfuðið. Þau þurfa á ríkisvaldi að halda sem getur sameinað þau fjölskyldum sínum á nýjan leik. Þau þurfa á ríkjum að halda sem geta staðið við loforð sín um að sameina fjölskyldur eins og fjölskyldu Ahmed og veita þeim endurbúsetu. Ríkisstjórnir í Evrópu eru skammarlega aftarlega á merinni þegar kemur að hvoru tveggja: fjölskyldusameiningu og endurbúsetu. Evrópusambandið hefur til að mynda aðeins veitt 5% endurbúsetu af þeim fjölda flóttafólks sem það lofaði vernd í júní 2016.
Enda þótt Omran, eins og Alan Kurdi, á undan honum, fangaði athygli heimsins, þá er ekki nóg að fyllast reiði. Myndirnar af Omran í sjúkrabílnum og Alan á ströndinni hreyfðu vissulega við mörgum en ekki þær virðast ekki hafa hreyft við þjóðarleiðtogum. Sömu örlög munu bíða þúsunda annarra barna ef þjóðarleiðtogar grípa ekki tafarlaust til aðgerða.
