Friðarverðlaunahafar Nóbel styðja vopnaviðskiptasáttmála

Í kjölfar árlegs fundar friðarverðlaunahafa Nóbel í Róm á Ítalíu, hefur hópur friðarverðlaunahafa Nóbel ákveðið að ítreka stuðning sinn við alþjóðlegan vopnaviðskiptasáttmála

Í kjölfar árlegs fundar friðarverðlaunahafa Nóbel í Róm á Ítalíu, hefur hópur friðarverðlaunahafa Nóbel ákveðið að ítreka stuðning sinn við alþjóðlegan vopnaviðskiptasáttmála.
Vopnaviðskiptasáttmálinn er tilraun til að gera bindandi samning til að hafa stjórn á vopnasölu í samræmi við alþjóðlegar mannréttindareglur, mannúðarlög, sjálfbæra þróun og friðsamleg samskipti þjóða.  Samkvæmt slíkum samningi yrði bannað að eiga viðskipti með vopn sem gætu verið notuð til að rjúfa alþjóðlegar mannréttindareglur og alþjóðleg mannréttindalög og þyrftu útflutningsríki að hætta sölu á vopnum sem hafa mjög neikvæð áhrif á frið og öryggi í heiminum.
Í október 1995 var hópur undir forystu Nóbelsverðlaunahafans Dr. Oscar Arias falið að standa fyrir alþjóðlegu átaki til að ná fram sáttmála um vopnaviðskipti. Saman lögðu þeir fram svokölluð Drög friðarverðlaunahafa Nóbel að alþjóðlegum reglum um vopnaviðskipti. Nú þegar hefur þetta framtak hlotið stuðning 20 einstaklinga og samtaka, sem hlotið hafa Nóbelsverðlaunin.
Í október 2003 fóru Amnesty International, Oxfam, IANSA og ýmis önnur samtök af stað með alþjóðlega herferð fyrir vopnaviðskiptasáttmála. Nú þegar  hafa ýmsar ríkisstjórnir samþykkt að styðja slíkt samkomulag.
 
Þeir Nóbelsverðlaunahafar, sem standa að þessu átaki, eru:
American Friends Service Committee,  Amnesty International, Oscar Arias, Norman Borlaug, Hans heilagleiki  Dalai Lama, John Hume, International Physicians for the Prevention of Nuclear War, Mairead Maguire, Rigoberta Menchu, Adolfo Perez Esquivel, Jose Ramos-Horta, Joseph Rotblat, Aung San Suu Kyi, séra Desmond Tutu, Lech Walesa, Elie Wiesel, Betty Williams, Jody Williams, Jimmy Carter, og stofnun Albert Schweitzer.