Fundaröð Amnesty International vegna formennsku Íslands í Evrópuráðinu

Í maí heldur Evrópuráðið leiðtogafund í Reykjavík þar sem áætlað er að 46 leiðtogar ríkja Evrópu muni mæta og ræða stöðu grunngilda álfunnar: mannréttindi, lýðræði og réttarríki. Fundurinn verður sá fjórði sem haldinn er í sögu ráðsins sem var stofnað árið 1949 og er ætlað að staðfesta samstöðu ríkja um grunngildin og sýna Úkraínu mikilvægan stuðning vegna innrásar Rússlands.

Evrópuráðið er elsta og stærsta mannréttindastofnun í Evrópu. Öll 46 aðildarríkin hafa skrifað undir Mannréttindasáttmála Evrópu. Þau heyra undir lögsögu Mannréttindadómstólsins og lúta eftirliti ýmissa lykileftirlitsstofnana og nefnda ráðsins.

Hnignun mannréttinda í Rússlandi, sem og ólögleg innrás í Úkraínu hafa vakið upp spurningar um framtíð Evrópuráðsins og hvernig megi gera það skilvirkara.  

Formennska Íslands

Vegna einstakrar stöðu Amnesty International bæði er varðar yfirgripsmikla þekkingu og reynslu á sviði mannréttinda og sem ein af fáum félagasamtökum sem hafa varanlegt sæti hjá Evrópuráðinu vilja samtökin nota þetta mikilvæga tækifæri til að koma sínum tillögum og athugasemdum á framfæri að til að styrkja og þróa Evrópuráðið frekar.

Vegna formennsku Íslands í Evrópuráðinu og í ljósi fyrirhugaðs leiðtogafundar hittu fulltrúar Íslandsdeildar Amnesty International ásamt fulltrúum samtakanna í Strassborg og Brussel ýmsa eftirlitsaðila Evrópuráðsins, nefndir og sendiherra í Strassborg í mars síðastliðinn.

Fulltrúar Amnesty International Eve Geddie (Framkvæmdastjóri Evrópusambandsskrifstofu AI) Anna Lúðvíksdóttir (Framkvæmdastjóri Íslandsdeildar AI), Þórunn Pálína Jónsdóttir (Lögfræðingur Ísldansdeildar AI), Rita Patricio (Evrópuráðsfulltrúi AI), Caroline Hansen (Aðstoðarmaður Evrópusambandsskritstofu AI)

Tillögur Amnesty International

Tillögur Amnesty International lúta sérstaklega að því að berjast gegn skerðingu borgaralegra réttinda, að vernd og styrkingu óháðra dómskerfa til að standa vörð um mannréttindi, um viðbrögð við bakslagi í jafnrétti kynjanna, um nýtt framtak til að auka áhrif og styrkja Evrópuráðið og kröfu um að stríðsglæpum sé hafnað og ábyrgðaraðilar dregnir til ábyrgðar. Tillögum og athugasemdum Amnesty International var komið á framfæri við fyrrgreinda aðila og binda samtökin vonir við að tekið verði tillit til tillagna og athugasemda Amnesty í yfirlýsingu leiðtogafundarins. 

Fulltrúar Amnesty International ásamt Ragnhildi Arnljótsdóttur, fastafulltrúa Fastanefndar Íslands hjá Evrópuráðinu, og Katrínu Maríu Timonen starfsnema.